Fyrirhugaður niðurskurður í herstöðinni í Keflavík

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:39:32 (8046)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Íslensk stjórnvöld fengu vísbendingu um að á vegum bandarískra hernaðaryfirvalda væri verið að kanna kosti sem gætu þýtt breytingu á starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli föstudaginn 19. apríl. Þetta var vísbending sem kom í fréttaskeyti frá sendiráði Íslands í Washington, en það var síðan á mánudag og þriðjudag, 19. og 20. apríl, sem sendiherra Íslands var falið að afla staðfestingar á slíkum upplýsingum og því næst var starfandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi kallaður fyrir utanrrh. þriðjudaginn 20. apríl.
    Hverjir fengu þessar upplýsingar, þ.e. vísbendingar um þessar áformuðu, hugsanlegu breytingar? Forsrh. í ríkisstjórn Íslands sem síðan tjáði mér að hann hefði skýrt formanni utanrmn. frá því.
    Í þriðja lagi: Hvers vegna upplýsti ráðherra ekki utanrmn. og Alþingi um í hvert stefndi? Svarið við því er að það var ekki tímabært vegna þess að þessar vísbendingar voru óstaðfestar og eru það reyndar enn og málið er enn á því stigi að það er verið að afla um það upplýsinga sem hægt er að setja fram þannig að þær teljist áreiðanlegar eða óyggjandi.
    Í fjórða lagi: Hvaða orðsendingar hafa farið á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda síðustu daga og vikur? Svarið við því er engar, engar orðsendingar. Ég hef skýrt frá því hvernig þetta hefur borist okkur og hvað við höfum gert til þess að reyna að fá staðfestar upplýsingar sem enn er reyndar ekki lokið.
    Í fimmta lagi: Hvaða skref eru fyrirhuguð af hálfu stjórnvalda í framhaldi af þessum tíðindum? Svarið við því er það að ég hef í seinni hluta aprílmánaðar myndað starfshóp embættismanna í utanrrn. sem ég hef falið það verk að undirbúa tillögur og greinargerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda um hugsanlegar breytingar á starfsemi varnarliðsins, sérstaklega breytingar sem lúta að sparnaði, og hef óskað eftir því að þessir embættismenn nái viðtölum við rétta aðila í bandaríska stjórnkerfinu nú á næstu dögum. Bandarísk stjórnvöld hafa óskað eftir því að fá að senda hingað nefnd til viðræðna um þetta mál í fyrstu vikunni í júní. Engar dagsetningar hafa enn verið ákveðnar.
    Í sjötta lagi: Til hvaða ráðstafana ætlar ríkisstjórnin að grípa í atvinnumálum á Suðurnesjum? Svarið við því er þetta: Til viðbótar þeim almennu aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til í atvinnumálum, þá hefur hún tekið ákvarðanir um sértækar aðgerðir að því er varðar atvinnumál á Suðurnesjum. Þar ber hæst ákvörðun um að verja allt að 300 millj. kr. af fjármunum í eigu Íslenskra aðalverktaka til tiltekinna arðbærra verkefna í atvinnulífi á Suðurnesjum að því tilskildu í fyrsta lagi að aðilar á Suðurnesjum leggi fram þar á móti um 200 millj. kr. og í annan stað að sýnt sé fram á af heimamönnum að um sé að ræða verkefni sem séu arðbær, geti gert hvort tveggja að verða atvinnulífi lyftistöng og skapa arðbær starfstækifæri.
    Þessu til viðbótar hefur ríkisstjórnin lengi haft í undirbúningi að stofna sérstakt fríiðnaðarsvæði á Suðurnesjum. Fyrir liggja áfangaskýrslur um það mál, ákvörðun ríkisstjórnar um stuðning við málið og framlög til þess að hrinda því í framkvæmd. Félag um það verður stofnað nú á næstu dögum. Viðræður við aðila sem lýst hafa áhuga á að setja upp atvinnustarfsemi á Suðurnesjum ættu þar af leiðandi að geta hafist en allt hefur það mál dregist nokkuð í ljósi þeirra tafa sem orðið hafa á staðfestingu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem er forsenda fyrir því að erlendir aðilar hafi áhuga á slíkri starfsemi.
    Í sjöunda lagi spyr hv. þm. hvort ríkisstjórnin sé í ljósi þessara atburða reiðubúin til að taka upp samráð við alla þingflokka um að herstöðvasamningnum verði sagt upp. Svarið við því er nei, allra síst hvarflar það að okkur. Það sem skiptir hér sköpum er að halda samstarfsaðila okkar, bandarískum stjórnvöldum, við skuldbindingar þess tvíhliða samnings um varnarsamstarf og væri fjarstæða og gengi þvert á íslenska hagsmuni að segja þeim samningi upp við þessi skilyrði.