Fyrirhugaður niðurskurður í herstöðinni í Keflavík

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:45:15 (8047)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Í sjálfu sér hafa hér orðið alvarleg tíðindi, ekki það að ég sjái sérstaklega eftir því þó að Bandaríkjamenn minnki í flugflota sínum, en það er illt til þess að vita hvað Íslendingar eru orðnir háðir hernum efnahagslega. Á Suðurnesjum er svo sem kunnugt er erfitt atvinnuástand og ég vil spyrja eftir því vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur hvað eftir annað talað digurbarkalega um aðgerðir sem ríkisstjórnin muni beita sér fyrir á Suðurnesjum: Hvar eru efndirnar? Hann endurtók að vísu hluta af þeim í ræðu

sinni núna, en það dugar lítið fyrir Suðurnesjamenn og það sem fólkið vantar eru úrræði, ekki fyrirheit sem ekki eru efnd.
    Hæstv. iðnrh. mun nú vera á förum úr pólitíkinni. Hann er þingmaður þessa kjördæmis þó að hann hafi kannski ekki markað þar djúp spor í atvinnulífið. Það væri sérmál að tala um hvernig iðnaðurinn er að fara í rúst og hversu mikið hefur glatast þar á síðasta ári og það sem af er þessu.
    Ég vil átelja vinnubrögð hæstv. utanrrh. og jafnframt formanns utanrmn. Við ræddum hér öryggismálaskýrsluna 27. apríl. Við höfðum þá dagana þar í kring verið að ræða um aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu. Utanrmn. hélt síðast fund núna á mánudaginn. Ekki önduðu þeir út úr sér þeim upplýsingum sem þeir voru búnir að fá a.m.k. staðfestar 20. apríl. Þetta sýnir mér að þeir hafa verið að læðast þarna á refaklóm og ekki komið hreint fram, hvorki við þingið né utanrmn. Ég minni á ákvæði í frv. sem ég hef leyft mér að flytja um breytingu á lögum um ráðherraábyrgð þar sem ég vil gera það refsivert ef ráðherra við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum sem hafa verulega þýðingu.