Fyrirhugaður niðurskurður í herstöðinni í Keflavík

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:48:00 (8048)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Þessi mál hafa verið á dagskrá utanrmn. oftar en einu sinni í vetur, spurningin um stöðu Íslands gagnvart Bandaríkjunum og varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Það hefur raunverulega ekkert gerst í þessu máli annað en það að birst hefur frétt í Morgunblaðinu um að hugsanlega verði einhverjar breytingar á Keflavíkurflugvelli og það höfum við rætt í utanrmn. oftar en einu sinni í vetur og m.a. þá hugmynd að nefndarmenn færu til Bandaríkjanna til þess að kynna sér þau mál og ræða við bandarísk stjórnvöld um þessi efni. Þannig að þessi mál hafa verið á döfinni. Varðandi þær upplýsingar sem bárust um það að þessar breytingar væru á döfinni kannski ákveðnar nú en áður, þá taldi ég ekki ástæðu til þess að gera þær að sérstöku umtalsefni miðað við það hvernig mál hafa verið lögð upp í nefndinni. Hér fóru fram umræður 27. apríl sl. um þessi mál og þar vék ég sérstaklega að því að vegna ákvarðana um fjárveitingar í Bandaríkjunum kynni að koma til þess að veruleg röskun yrði á starfsemi á Keflavíkurflugvelli þannig að sú ræða mín er til og menn geta kynnt sér hana. Ég vék að þessu máli og ræddi þessa atburði sem menn gera nú að sérstöku umtalsefni. Það hefur ekkert gerst síðan annað en það að Morgunblaðið sendi fréttamann á vettvang og fær þessar fréttir. Það kemur fram í fréttinni að það hefur ekkert verið ákveðið. Það kemur meira að segja fram að það sé ágreiningur innan stjórnkerfisins í Bandaríkjunum hvernig eigi að grípa á málinu þannig að málið er mjög óljóst og varla til þess ætlandi að menn beri óljósar fréttir sem staðfesta niðurstöðu undir utanrmn. eða aðra. Ég biðst því algerlega undan því að ég hafi verið að leyna nokkrum upplýsingum. Ég hef skýrt frá því sem ég hef vitað og síðast hér í þingræðu 27. apríl en það er rétt að þetta mál og frétt Morgunblaðsins eða það sem í henni stendur hefur ekki verið tekið sérstaklega fyrir í utanrmn.