Fyrirhugaður niðurskurður í herstöðinni í Keflavík

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:52:36 (8050)

     Sigríður Jóhannesdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er nú að koma á daginn sem við alþýðubandalagsmenn höfum lengi bent á að bandaríski herinn mundi draga mjög úr starfsemi sinni hér eða jafnvel fara alveg þegar Bandaríkjamönnum hentaði hvort sem okkur Íslendingum líkaði betur eða verr og hversu vel sem við bæðum þá um að

vera hér áfram. Þess vegna höfum við alþýðubandalagsmenn gegnum árin lagt fram áætlanir um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum svo fólk hefði þar að einhverju að hverfa ef og þegar herinn færi eða kysi að draga verulega úr umsvifum sínum hér á svæðinu. Þessum tillögum hefur gegnum árin ekki verið tekið af miklum fögnuði af herstöðvasinnum og þessum varnaðarorðum okkar ekkert sinnt. Herinn hefur gegnum árin dregið til sín vinnuafl frá útgerð og fiskvinnslu en þeim atvinnugreinum hefur ekki síst farið aftur á Suðurnesjum vegna þessa kapphlaups um vinnuafl þar sem herinn hafði á árum áður ávallt betur.
    Og nú fréttist það í dag að það sé nú að gerast, sem hefur að vísu legið í loftinu undanfarið, að herinn sé mjög að draga saman seglin á Suðurnesjum. Þá er atvinnuástandið á þessu svæði þannig fyrir að það er með því versta sem gerist á landinu og er þá langt til
til jafnað.
    Ríkisstjórnin var fyrr í vetur með tillögur um fjármagn til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum sem þeir ætluðu að vísu aðallega að sækja í vasa annarra, þ.e. verktakafyrirtækja á Suðurnesjum og sveitarfélaga. Þessu máli hefur verið drepið á dreif, mikið talað en sáralítið hefur gerst. Ég geri þá kröfu hér á hinu háa Alþingi fyrir hönd Suðurnesjamanna að hæstv. ríkisstjórn Íslands taki þegar til höndum við að finna alvörupeninga í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Nú verður ekki lengur undan því vikist.