Utandagskrárumræður

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 18:17:23 (8060)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt þingsköpum er það þannig að það eru heimilaðir hálftímar til utandagskrárumræðna. Hefðin hefur verið sú að fyrirspyrjandi byrjar, síðan kemur viðkomandi ráðherra og svo svarar ráðherra gjarnan að lokum og er síðasti ræðumaður. Þá eru það bara mannasiðir og ekkert annað að láta það eiga sig í þeirri lokaræðu að ráðast með heift, fúkyrðum og ósannindavaðli að þeim sem hafa verið að spyrja ráðherrann í þessum sama hálftíma, það eru bara mannasiðir. Og ég vænti þess að hæstv. utanrrh. og hæstv. forseti séu mér sammála um að mannasiðir séu þingskapamál líka.
    Ég tel að hæstv. utanrrh. hafi sýnt þingheimi hér alveg óvenjulegan dónaskap þegar hann hafði uppi svigurmæli sérstaklega í garð alþýðubandalagsmanna hér áðan. Og ég tel að það gefi tilefni til þess að þessi ræðutími og notkun hans framvegis, utandagskrártími, verði framvegis endurskoðaður og endurskipulagður því það er greinilegt að á þessu sviði a.m.k., að ég tali ekki um önnur, er hæstv. utanrrh. ekki treystandi fyrir því að ljúka með sæmilega kurteislegum hætti utandagskrárumræðum á Alþingi. Það gengur auðvitað ekki að ráðast að fólki með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerði, með fullkomnum ósannindum og fullkomlega ósanngjörnum hætti. Og það verður auðvitað að nota tækifærið til þess strax og það gefst síðar hér í kvöld þegar Sjálfstfl. hefur náð vopnum sínum og búinn að sleikja sárin eftir þingflokksfundinn sem er rétt að hefjast, þá verður auðvitað að kanna það í kvöld eða á morgun hvaða kostir eru á því að ræða við hæstv. utanrrh. um þessi mál og svara þeim ósæmilegu svigurmælum sem hann flutti hér í garð einstakra þingmanna.