Utandagskrárumræður

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 18:19:24 (8061)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er svona mannleg reynsla að þeir menn sem oftast veitast að öðrum með dylgjum, áburði og hvers kyns óviðurkvæmilegum munnsöfnuði ( SvG: Eru þetta þingsköp?) og hafa það fyrir ræðustíl sem jafnvel er einkennandi fyrir heila stjórnmálaflokka, eins og hjá þeim hv. þm. sem hér talaði seinast, að þeir kveinka sér mjög undan því ef þeim er svarað.
    Nú er það svo að sá hv. þm. sem hér talaði seinast, talaði um ósannindi en færði engin rök fyrir því máli sínu. Í umræðunni sögðu hv. talsmenn Alþb., þeir gagnrýndu stjórnvöld fyrir það, að stjórnvöld hefðu ekkert hugað að atvinnumálum fólks á Suðurnesjum. Það eina sem ég gerði var að benda á þá þversögn að annars vegar fagnar þetta fólk því ef fólk hættir atvinnu sinni í þágu varnarliðsins og framkvæmdaraðila varnarliðsins væntanlega, það væri fagnaðarefni og það stóð ekkert á staðfestingunni hjá mönnum þegar þeir sögðu það. Jú, að sjálfsögðu væri það fagnaðarefni. Hins vegar þegar bent er á þrjú ,,konkret`` mál sem hafa verið á dagskrá til þess að reyna að bjarga störfum þessa fólks, í fyrsta lagi að reyna að fá fjármögnun fyrir umsamdar framkvæmdir, sem þið hafið kallið betlistaf sum hver, þá var sagt: Að sjálfsögðu. Það voru engin ósannindi. Í annan stað, EES-samningurinn er forsenda fyrir því að hægt sé að nýta Keflavíkurflugvöll í stórauknum stíl sem útflutningsmiðstöð fyrir sjávarútveg á Suðurnesjum. Það eru engin ósannindi. Það er staðreynd að stjórnarandstaðan er andvíg því. Og í þriðja lagi þegar um er að ræða frísvæði á Suðurnesjum þá byggir það á forsendunni EES-samningurinn og stjórnarandstaðan var andvíg því. Hér hefur því ekki verið farið með nein ósannindi. Einungis hefur verið svarað að gefnu tilefni hlutum sem talsmenn Alþb. og í minna mæli Kvennalista og galnari armsins í Framsókn fór með í þessum umræðum, á ákaflega málefnalegan hátt. Og, virðulegi forseti, þetta er ekki umræða um þingsköp. Ég legg til að þessi hópur fólks, sem er búinn að ,,terrorísera`` þingið eiginlega í allan vetur með því að misnota þingsköp og kalla þingskapaumræðu umræðu sem er um allt aðra hluti --- að forseti fari að gera eitthvað í þessu. ( Gripið fram í: Um hvað snýst þessi ræða?) Hún snerist ekki um þingsköp, enda er ekkert tilefni til. ( Gripið fram í: Hvað segir forseti við því?)