Utandagskrárumræður

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 18:22:57 (8063)

     Svavar Gestsson :

    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs áðan um gæslu þingskapa til þess að finna að því hvernig hæstv. utanrrh. misnotaði þær þingskapaheimildir sem uppi eru varðandi utandagskrárumræður. Ég gerði það til að mótmæla ósannindum hans. Hann sagði að ég hefði ekki flutt nein rök fyrir þeim yfirlýsingum mínum. Ég flyt þau nú. Ég segi: Alþb. hefur t.d. á undanförnum árum aftur og aftur verið með margvíslegar tillögur um uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Alþfl. hefur haft allt vald til að fallast á þær tillögur eða jafnvel að framkvæma þær en hann gerði það ekki af því að hann treysti á herinn. Staðreyndin er auðvitað sú að atvinnuvandi Suðurnesjamanna stafar í dag ekki síst af því að Alþfl. hefur alla þessa ártugi mænt á herinn og aftur herinn og aldrei viljað grípa til íslenskra ráðstafana til þess að byggja upp atvinnulíf á Suðurnesjum. Alþfl. hefur hins vegar leyft sér það á sl. ári að lofa fólkinu á Suðurnesjum fjármagni til atvinnumála. Það voru gefnar stórar yfirlýsingar um það sl. sumar. ( Forseti: Eigum við ekki að tala um gæslu þingskapa?) Og aftur og aftur, virðulegi forseti, hefur þetta fólk verið svikið. Það hefur verið leikið grátt af Alþfl. á undanförnum missirum. En að hæstv. utanrrh. landsins skuli svo koma hér í þingskapaumræðu, virðulegi forseti, og tala um galnari arminn í Framsókn og að stjórnarandstaðan sé að ,,terrorísera`` þingið, eins og fram kom hér áðan, það er ósæmilegur áburður. En ég skil það svo, og það er út af fyrir sig fagnaðarefni, að hæstv. utanrrh. sé að kveinka sér undan stjórnarandstöðunni. Það er gott að málflutningur hennar hefur hitt einhvern fyrir.