Utandagskrárumræður

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 18:33:11 (8070)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér gerist sá atburður æ eftir æ að hæstv. utanrrh. kemur í þennan stól og veitist mjög harkalega að forseta fyrir lélega stjórn á þinginu. Hann heldur því fram að hér séu sjö þingmenn sem lúti engum aga, ( Gripið fram í: Sjö eða átta.) sjö eða átta sem lúti engum aga frá forsetanum. Þetta séu skæruliðar sem forsetinn hafi enga stjórn á, þetta séu skæruliðar sem séu að eyðileggja starfið í þinginu. ( Utanrrh.: Það er rétt.) Sem gamall skólastjóri vil ég benda hæstv. forseta á það ráð að stundum borgar sig að taka þann eina sem stendur fyrir óspektunum alveg sérstaklega fyrir, gefa hinum frí á meðan, og lesa honum svoleiðis pistilinn að hann hugsi um það í næstu daga að það sé betra að standa ekki þannig að ófriði í friðsælli kennslustund.