Framhaldsskólar

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 21:42:24 (8096)

     Svavar Gestsson :

    Virðulegi forseti. Við 2. umr. málsins flutti ég brtt. við 1. gr. frv., aðalgrein frv., sem ég gerði þá ítarlega grein fyrir. Hún varð því miður ekki samþykkt þó að formaður menntmn. segði að hún væri efnislega alveg samhljóða því sem hv. menntmn. var með þá treysti formaðurinn sér ekki til þess að samþykkja þessa tillögu né heldur stjórnarmeirihlutinn og það er svo sem venjulegt hér, það þýðir eiginlega ekkert fyrir stjórnarandstæðinga að vera með mikið múður, ekki einu sinni að flytja gáfulegar tillögur, þær eru bara felldar og greinilegt er að hér á eftir að samþykkja skemmtanaskatt af skuggamyndasýningum t.d. og verður fróðlegt að sjá hvernig atkvæði skiptast í því máli því ég tel einboðið að láta ganga atkvæði um það sérstaklega við 3. umr. hvort menn ætli að hafa þessa skuggamyndasýningar þarna inni.
    Eitt af þeim atriðum sem ég flutti brtt. við við 2. umr. gengur út á það að þegar efnt er til tilraunastarfs í starfsnámi þá megi, eins og hér stendur í frv., þá má víkja þá frá ákvæðum þessara laga ef nauðsyn krefur.
    Mér hafði út af fyrir sig komið til hugar að það væri ástæða til þess að flytja þá brtt. að fella niður orðin ,,ef nauðsyn krefur`` vegna þess að það væri nóg að hafa þá undanþágu sem felst í 1. málsl. og orðinu ,,þá``, þ.e. eins og þetta stóð í upphaflega frv.: ,,Menntmrh. er heimilt að efna til tilraunastarfs í starfsnámi og víkja þá frá ákvæðum þessara laga.``
    Ég taldi að með því að hafa þarna orðin til viðbótar ,,ef nauðsyn krefur`` væri verið að opna framhaldsskólalögin of mikið. Nú reikna ég ekki með því að það þýði mikið að bera þetta á borð heldur fyrir þá stjórnarliða sem ætla að sýna okkur skuggamyndir í hverju einasta máli sýnist mér í allt heila kvöld. Svoleiðis að ég vil inna hæstv. menntmrh. eftir því hvað þessi orð þýða. Telur hann að í orðunum í fyrsta lagi ,,þá`` og í öðru lagi ,,ef nauðsyn krefur`` felist í raun og veru tvöföld takmörkun á þessari heimild til þess að víkja frá lögum um framhaldsskóla þegar efnt er til tilraunastarfs í starfsnámi?
    Ég held að það sé út af fyrir sig hægt að túlka þetta þannig að það sé ekki aðeins að hann hafi heimild til þess að víkja frá þessum lögum við sérstakar aðstæður heldur þurfi hann auk þess að rökstyðja nauðsynina. Ef hæstv. menntmrh. vildi svara mér því hvernig hann skilur þessa tvo fyrirvara, þ.e. orðið ,,þá`` og hins vegar orðin ,,ef nauðsyn krefur``, ef hann vildi vera svo vænn að svara því hvernig hann skilur það þá þætti mér vænt um það og það gæti greitt fyrir gangi málsins.
    Ég hef í sjálfu sér ekki verið þeirrar skoðunar að það væri rétt að bregða fæti á neinn hátt fyrir þetta mál. Ég tel samt að það sé ekki vel að því staðið, ég tel að greinin eins og hún stendur sé ekki nægilega skýr. Ég mun því ekki greiða atkvæði með frv. við 3. umr. en heldur ekki á móti því. En mér þætti fengur að því ef hæstv. menntmrh. vildi skýra mér frá því við hvaða aðstæður hann teldi nauðsynlegt að hafa þessa heimild til að efna til tilraunastarfs í starfsnámi í framhaldsskólum.