Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 21:50:25 (8100)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í framsögu varaformanns félmn. þá er verið með þessu frv. einungis að færa lögin um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota til samræmis við lög um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991. Ég tel þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á lögunum ásamt brtt. félmn. vera eðlilegar og styð þær því. En ég vil gera grein fyrir þeirri afstöðu minni að ég hef hins vegar efasemdir um sjálfan ábyrgðasjóð launa og er ekki fyllilega sammála þeirri aðferð sem þar er viðhöfð að í stað ríkisábyrgðar á launum skuli vera settur upp sjóður af þessu tagi. Ég vildi að þessi afstað mín kæmi skýrt fram þannig að ekki mætti skilja stuðning minn við þessar breytingar nú sem stuðning eða samþykki við þessa almennu lagaaðferð að skattleggja í raun eftirlifandi fyrirtæki til þess að greiða vegna þeirra sem á höfuðið fara og því fleiri sem fara á höfuðið þeim mun þyngri verður skatturinn á þau sem eftir lifa. Þetta er auðvitað vítahringur sem menn geta komist inn í með lagasetningu af þessu tagi og ég tel í raun afleita lagasetningu og mun lakari en áður gilti.
    Hins vegar má færa þessu máli það til bóta að ef sjóðinn vantar fé þá er kveðið á um að ríkissjóður skuli leggja fram þá fjármuni sem á vantar og þá má segja að það sé nokkurs konar bakábyrgð ríkisins á sjóðnum. En sá böggull fylgir skammrifi eins og segir í 3. gr. laganna að þá er félmrh. heimilt að innheimta það sem ríkið leggur fram með því að hækka ábyrgðargjaldið á fyrirtækin.
    Ég vil því ítreka það, virðulegi forseti, að ég hef allan fyrirvara við almenna hugsun í þessari löggjöf þótt ég styðji þær breytingar sem menn eru að gera á henni að þessu sinni.