Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 22:17:22 (8103)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa stjtill. sem er fjögurra ára áætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Við höfum rætt nokkuð um þessa áætlun í félmn. og hefðum gjarnan viljað hafa meiri tíma til þess heldur en við höfum haft vegna þess að það er ýmislegt í henni sem væri skemmtilegt að hafa ákveðnara heldur en hér kemur fram. Fyrst og fremst er minn fyrirvari í því fólginn að mér finnst ekki nógu ákveðið kveðið á um ýmsa þætti. Hér er mikið talað um að ,,efla beri`` og ,,auka beri`` en ekki kannski ákveðin markmið til nokkurra ára. Ég tel að það hafi náðst mikilsverð markmið í jafnréttisbaráttunni en það sé pínulítill afturkippur í henni núna einmitt vegna þess að stjórnarstefnan er þannig að það er miklu minni atvinna og atvinnuerfiðleikar bitna fyrst og fremst á konum. En jafnrétti er ekki aðeins fyrir konur, það er jafnt fyrir karla, konur og börn og alla þjóðfélagsþegna og það er lítillega kveðið á um það í þessari áætlun að karlar komi meira inn í þessa jafnréttisbaráttu og það tel ég mjög jákvætt. Það sem mér finnst vera áberandi í þessari áætlun er að það er verið að tala um fólk á vinnumarkaði en ekki fólk inni á heimilunum. En núna í þessum atvinnuerfiðleikum þá er aukinn fjöldi manna sem er atvinnulaus og er þar af leiðandi inni á heimilunum og mér finnst að það þurfi að taka ákveðnar á því hvernig við komum á móts við fjölskyldurnar og hvernig við komum inn með auknar skattaívilnanir til heimavinnandi fólks. Það vantar mikið inn í þessa áætlun. Við erum hér að tala um ýmsa þætti atvinnumála og hvernig eigi að koma til móts við fyrst og fremst konur í atvinnulífinu en það er ekki eins mikið kveðið á um hvernig á að koma til móts við konur inni á heimilunum. Það er það sem ég held að við ættum einmitt að einbeita okkur að núna þegar kreppir að í atvinnulífinu hvernig við eigum að koma til móts við fjölskylduna og hvernig við getum gert Ísland að fjölskylduvænu þjóðfélagi. Það er það sem mér finnst allt of lítil umræða um. Það er hægt að velta sér upp úr því misrétti sem konur eru beittar á vinnumarkaðnum en fyrst og fremst held ég að í þessum erfiðleikum ættum við að einbeita okkur að því hvernig við getum gert Ísland að fjölskylduvænu þjóðfélagi.
    Ég vil aðeins minnast á að hér er ekkert kveðið á um það hvernig við ætlum að koma á samfeldum skóladegi. Hér er kveðið á um að það skuli stuðlað að samfelldum skóladegi en það er ekki neitt ákveðið út af fyrir sig í þessari áætlun á hvaða tímabili við ætlum að ná því markmiði. Og það er allt annað í þessum dúr í þessu frv., það á að efla hitt og þetta og það á að stuðla að þessu en það eru ekki nein ákveðin markmið varðandi tímasetningar. Þetta finnst mér vanta og mér finnst við vera búin að ræða nóg um hvernig við ætlum að efla hitt og þetta, mér finnst kominn tími til að við sýnum fram á það hvernig við ætlum að framkvæma hlutina. Þess vegna skrifa ég undir nál. með fyrirvara. Ég veit að það er mikilvægt að það sé einhver áætlun í gangi og þess vegna samþykkjum við þessa áætlun en ég hefði viljað hafa hana miklu markvissari en hún er.
    Mér finnst satt að segja að hv. félmn. hefði gjarnan mátt eyða meiri tíma í að skoða hana á markvissari hátt en verið hefur. En ég mun samþykkja hana vegna þess að ég tel mikilvægt að það sé einhver áætlun í gangi.