Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 22:29:01 (8105)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hjó eftir tilteknu orðalagi hér hjá þeim þingmanni sem áðan talaði og sem er nú meðflm. að þessu nál. Hann lagði mikið upp úr því hversu miklum tíma við hefðum eytt í þetta í félmn. og hversu virkan þátt í umræðunni karlpeningurinn í þeirri nefnd hefði tekið. Það ræður náttúrlega hver og einn hvaða merkingu hann leggur í þessi orð. Ég vil bara til leiðbeiningar segja að þetta hafa kannski átt að vera öfugmæli hjá hv. þm. Hann sagði að þó að til umfjöllunar í félmn. væru mörg stór og merkileg mál, þó að til umfjöllunar væru mörg stór og merkileg mál eins og sveitarstjórnarmálin og annað slíkt þá fékk þetta mál samt mikla umföllun og m.a. var haldinn sérstakur kvöldfundur út af þessu máli. Hvaða merkingu á að leggja í þetta, virðulegur þingmaður? Er þetta mál ekki merkilegt mál, er þetta ekki stórt mál, jafnréttisáætlun til fjögurra ára? Hvaða merkingu á að leggja í það, virðulegur þingmaður, þegar sagt er ,,þó að`` og ,,samt sem áður`` fékk þetta tíma?