Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 22:33:41 (8108)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er nú varla að ég geti komið hér upp í andsvari í sjálfu sér vegna þess að ég er alveg sammála hv. 2. þm. Vesturl. um það sem hún sagði. En það sem ég var auðvitað að árétta og margsagði hér í ræðu minni áðan var einfaldlega þetta: Að það sem væri m.a. nýstárlegt við þetta mál núna væri alveg sérstaklega í tengslum við tiltekið gæðaátak í sjávarútvegi þá væri athyglinni beint að hlut kvenna og hvernig megi nota reynslu og þekkingu kvenna sem hafa starfað í fiskvinnslu. Þetta er auðvitað jákvætt í sjálfu sér og kannski lýsandi dæmi um þýðingu þessarar jafnréttisáætlunar með öllum þeim göllum og kostum sem henni fylgja. Það er auðvitað lýsandi dæmi um að þessi jafnréttisáætlun geti haft mikla þýðingu, einmitt þetta að þarna er verið að vekja athygli á hlutum sem í sjálfu sér ætti ekki að þurfa að vekja athygli á en vegna stöðu kvenna í þjóðfélaginu er tilefni til þess að athygli sé vakin á. Þess vegna var ég að undirstrika þetta.