Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 22:34:51 (8109)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það er eftir því tekið loksins þegar fulltrúi Sjálfstfl. tekur til máls í þessu þýðingarmikla máli og verður í minnum haft framlag hans til jafnréttisumræðu hér á Alþingi.
    Ég vil aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls þar sem ég undirrita það með fyrirvara. Ég vil segja um þessa áætlun að það er margt í henni sem eru góð áform og horfa til betri vegar og eðlilegt að stuðla að því að þau áform fái framgang í formi samþykktar á Alþingi og síðan að stuðla að því eftir mætti að fylgja því eftir á vettvangi þar sem því verður við komið. En fyrirvari minn er almennur um raunverulegan vilja stjórnvalda til að fylgja eftir þessum góðu áformum. Hvað er ríkisstjórnin að gera? Hvað hefur hún verið að gera undanfarin tvö ár? Er það í samræmi við þessa áætlun sem við setjum hér upp? Það er ýmislegt sem kemur strax upp í hugann sem segir okkur að ríkisstjórnin er að gera allt annað en hún segist ætla að fara að gera með þessari áætlun. Því miður verð ég að segja að ég hef ekki mikla trú á þessari ríkisstjórn að hún efni þau fyrirheit sem fyrir hana eru lögð og hún sjálf hefur skrifað upp á með þessari framkvæmdaáætlun.
    Það fyrsta sem ég hnýt um í áætluninni og ég tel vera nokkrum vafa undirorpið að ríkisstjórnin sé í raun tilbúin að fylgja eftir er 1. liður á bls. 1 í áætluninni. Ákvæði um auglýsingar á lausum stöðum hjá ríkinu. Var staða Péturs Guðfinnssonar hjá sjónvarpinu auglýst laus? Var konum gefinn kostur á að sækja um það starf? Ekki kannast ég við það. Ég kannast hins vegar við það að karlmaður nokkur þjóðþekktur hafi verið ráðinn í það starf. Eru þetta efndirnar á fyrirheitunum sem ríkisstjórnin segir okkur að hún ætli að fara að vinna eftir? Bara strax þetta fyrsta atriði segir okkur að ríkisstjórnin hefur fallið á prófinu sem hún hefur sett upp fyrir sjálfa sig. Menn geta rakið fleiri og fleiri stöðuveitingar hæstv. núv. ríkisstjórnar og spurt sig: Er ríkisstjórnin að vinna eftir þeim leiðum og markmiðum sem hún hefur sett upp? Hvernig var staðið að ráðningu þjóðminjavarðar? Þar kom einna helst til álita að mati þeirra sem þar starfa og hafa fagþekkingu á þessum málum að til starfans yrði ráðin kona. En hvað gerði hæstv. menntmrh.? Hann réð ekki þessa konu. Hann réð flokkspólitískan einkavin sinn, karlmann, í starfið. Síðan ætlar þessi ágæti menntmrh. og ríkisstjórnin okkur að trúa því að ríkisstjórninni sé einhver alvara með því sem hér stendur að ríkisstofnanir eigi að auglýsa lausar stöður til umsóknar. Betur ef svo verður og vonandi að ríkisstjórnin taki sig á í kjölfar þess að Alþingi samþykki þetta. En það verður hver að eiga við sig hversu mikla trú hann hefur á ráðherrum í þessari ríkisstjórn til að meina það sem þarna stendur.
    Það má líka líta á kaflann á bls. 8 í áætluninni, staða kvenna í utanríkisþjónustunni. Hvaða vangaveltur eru uppi í hæstv. ríkisstjórn um skipan manna í sendiherrastöður á næstunni? Hvaða nöfn hafa helst

verið nefnd? Ég minnist þess ekki að hafa heyrt nafn neinnar konu nefnt. Hins vegar nokkurra valinkunnra sómamanna, karlmanna úr liði núv. ríkisstjórnar. Engan hef ég heyrt segja að það stæði til að auglýsa þessar stöður lausar til umsóknar. ( GHelg: Hvað með seðlabankastjóra?) Það væri fróðlegt ef hæstv. utanrrh. væri hér á landinu og gæti komið hér í hús að hann svaraði því hvort hann hygðist auglýsa lausar til umsóknar þær sendiherrastöður sem eru lausar eða munu losna á næstunni. Ég legg þá fyrirspurn fyrir hæstv. utanrrh.
    Hér var minnt á stöðu seðlabankastjóra. Væri fróðlegt að vita, hæstv. forseti, hvort hæstv. viðskrh. er hér í húsinu og hvort hann geti komið hér í þingsal? Ég vildi eindregið óska eftir því ef mögulegt væri, að hæstv. viðskrh. kæmi hér til þessarar umræðu. ( Forseti: Hæstv. viðskrh. er ekki í húsinu og hann mun vera utan bæjar.) Þá spyr ég, virðulegi forseti, hvort hæstv. félmrh. sé ekki hér og hvort hann geti ekki séð af einhverri stund aflögu til að vera viðstaddur þessa umræðu. ( Forseti: Hæstv. félmrh. er í húsinu og forseti mun láta . . .  ) Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. félmrh. verði sóttur  ( Forseti: . . .   vita að óskað er eftir nærveru hennar.) Ég þakka forseta skelegg viðbrögð.
    Ég beini þá fyrirspurn minni til hæstv. félmrh. sem er í sama stjórnmálaflokki og hæstv. viðskrh. og ætti því að geta svarað nokkru um áform þar á bæ um væntanlega stöðu seðlabankastjóra. Stendur til að auglýsa þá stöðu lausa til umsóknar? Stendur til, hæstv. félmrh., að við mat á umsóknum verði konur látnar njóta forgangs eins og kveðið er á um hér í þessari áætlun að öðru jöfnu? ( IBA: Dettur þingmanninum annað í hug?) Þingmanninum dettur ekki annað í hug. En engu að síður þykir mér rétt að spyrja að þessu og fá þetta staðfest hér í þingi hvort það séu ekki raunveruleg áform viðskrh. og félmrh. að standa þannig að mannaráðningum eins og í Seðlabankanum eins og ég spurði að. Og minnir seðlabankaembættið á annað atriði sem ég hafði merkt við hér í þessari áætlun og er á bls. 6, punktur 7.5 sem heitir ,,Jafnrétti til stjórnunarstarfa í bönkum``. Og ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því, hvernig staðið verði að því að fylgja eftir því við viðskiptabankana að gerð verði sérstök áætlun um fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum hjá bönkum. Ég legg þessa spurningum fyrir hæstv. félmrh. Hvernig verður staðið að því að gera þessa áætlun og hvenær verður hún gerð? Verður fyrsta skrefið í þeirri áætlun að ráða konu sem bankastjóra Seðlabanka Íslands? Það væri verðugt skref, hæstv. forseti, ef svo færi og ég veit að hæstv. félmrh. getur svarað því ef hann kýs svo, hvort þannig verður að málum staðið að staða seðlabankastjóra verði auglýst þegar að því kemur og umsóknir kvenna verði metnar eins og greint er frá í þessari framkvæmdaáætlun.
    Í fjarveru utanrrh. leyfi ég mér að beina því til hæstv. félmrh., varaformanns Alþfl., hvernig verður framkvæmdur liður 13.1, staða kvenna í utanríkisþjónustunni, hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að sendiherrastöður, sem eru lausar, verði auglýstar, bæði þær sem eru lausar nú og verði lausar á næstunni og að við mat á umsækjendum verði konur metnar eins og gert er ráð fyrir hér í þessari áætlun þannig að þær standi jafnfætis körlum þegar tekin verður ákvörðun um ráðningu í sendiherrastöður. Þessu vildi ég nú beina til hæstv. félmrh. og ég veit að hún tekur þessum fyrirspurnum af miklu jafnaðargeði og svarar þeim ítarlega.
    Þá vildi ég nefna eitt atriði enn sem ég hef nokkrar áhyggjur af vegna þess að mér finnst ríkisstjórnin vera að gera allt annað en hún segist ætla að gera með þessari áætlun. Nægir þar nú að nefna ýmsa hluti eins og lækkun barnabóta, aukið misrétti í þjóðfélaginu, aukið misrétti í tekjuskiptingu. Varla er það konum mjög í hag þetta aukna misrétti sem orðið hefur á síðustu árum meðan hæstv. félmrh. hefur setið í stjórn og hefur reglulega greint okkur frá því að hafi alltaf farið versnandi eftir því sem hún situr lengur í stólnum.
    Ég vil nefna eitt atriði enn. Það er staða kennara. Það er hefðbundin kvennastétt. Nú hefur sú nýbreytni verið tekin upp á meðan þessi ríkisstjórn hefur starfað að í stað þess að setja kennara í stöður, þá er í vaxandi mæli tekið upp nýtt ráðningarform sem heitir tímabundin ráðning. Þar eru menn ráðnir til ákveðins tíma og vita síðan ekkert hvort þeir fái endurráðningu að þeim tíma loknum eða ekki. Þessi tímapunktur er 1. maí og nú berast fréttir af því að fram undan og yfirstandandi sé hagræðing og endurskipulagning á þessu sviði og ég spyr hæstv. félmrh., hefur hann fylgst með því hvað hefur leitt af þessari hagræðingu og endurskipulagningu varðandi þær konur í kennarastétt sem hafa verið ráðnar á tímabundinni ráðningu?
    Ég hef spurnir af því, virðulegi forseti, að það séu nokkuð margir sem ekki fá boð um vinnu áfram eftir að þeirra ráðningartíma lýkur og meðal þeirra sem ekki fá boð um áframhaldandi vinnu vegna þessa fyrirkomulags eru einstæðar mæður og konur sem eru á leið í barneignarfrí eða eru jafnvel í barneignarfríi. Og ég spyr hæstv. félmrh.: Hefur hann tekið þessar upplýsingar saman og fylgst með því hvernig menntmrn. er að framkvæma þessa stefnu? Af þeim fréttum sem ég hef haft, ég tek það fram að þær eru ekki mjög ítarlegar, þá eru vísbendingar í þessa átt sem ég nefndi. Dæmin eru fyrir hendi og vísbendingarnar eru í þessa átt. Og ég spyr ráðherra um það hvort úttekt hafi verið gerð á þessu máli og ef ekki, þá spyr ég ráðherrann, verður það gert? Fáum við að vita hversu margir það voru sem ekki fengu ráðningu áfram, hvernig það skiptist á milli kynja og hversu mörg dæmi af þeim eru þannig að þar sé um að ræða konur í barneignarleyfi eða á leið í það eða einstæðar mæður? Þetta eru afar alvarlegar upplýsingar sem ég fékk fyrr í dag og þó þær séu ekki tæmandi þá gefa þær vísbendingu um það sem ætla má að sé að gerast og gefa alla vega tilefni til að krefjast ítarlegra upplýsinga um þetta atriði.