Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 23:22:06 (8113)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Konur sem setja jafnrétti ofar öllu hljóta að gagnrýna sjálfar sig og hver aðra eins og við gagnrýnum karlmennina, að sjálfsögðu. Ég er undrandi á því að heyra þessi viðbrögð hv. 10. þm. Reykv. Ég var ekki að kenna neinum um neitt. Hins vegar er ég ósammála því að hlutirnir gerist og þeir þróist. Hlutir gerast ekki, þeir eru gerðir. Og það er bjargföst skoðun mín sem ég hef oft haldið fram að við vorum of sjálfhverfar --- og ég var ein af þeim, ég er ekki að setja þá sök á aðra fremur en sjálfa mig --- ég held að jafnréttisbarátta kvenna hafi verið of sjálfhverf. Hún snerist of mikið um okkur sjálfar og okkar frama. Við gleymdum börnunum, gamla fólkinu og allri þeirri byltingu, öllum þeim afleiðingum sem þjóðfélagið varð fyrir.
    Auðvitað blasir við að það fæðast færri börn. Það eru fleiri gamalmenni á elliheimilum, það eru fleiri hjónaskilnaðir. Auðvitað kemur los á samfélag sem er gjörbreytt í meginuppbyggingu sinni. Það er barnaskapur að viðurkenna þetta ekki. Ég er hins vegar hissa á hv. 10. þm. Reykv. að bera saman hvort verkalýðsbaráttan hafi gert fólk hamingjusamara eða jafnréttisbaráttan. Það er ekki vafi á því að það er verkalýðsbaráttan sem olli meiri hamingju heldur en jafnréttisbaráttan því það er betra að vera saddur en svangur. Og það er betra að vera heill heilsu heldur en veikur. Og það er betra að hafa þak yfir höfuðið en hafa það ekki. Þetta er því auðvitað á engan hátt sambærilegt. Þetta vildi ég nú segja. En umfram allt, nóg höfum við af sektarkennd þó að við hlaupum ekki upp í strýtu þó að við reynum að gegnumlýsa afleiðingar þess sem við höfum haft fram fyrir okkur sjálfar.