Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 23:27:29 (8116)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa orðið nokkrar umræður um þá þáltill. sem hér er á dagskrá um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Ég er sammála því sem fram kom hjá hv. 9. þm. Reykv. að það sem er auðvitað mikilvægast í þessu er hvernig staðið verði að framkvæmd þessarar tillögu hjá einstökum ráðuneytum og ég tel það líka mikilvægt að fylgst sé með því reglulega hvernig að þessum áætlunum er unnið hjá ráðuneytunum. Ég tel að það ætti að vera hlutverk Jafnréttisráðs að fylgjast með framkvæmd þessarar áætlunar hjá einstaka ráðuneytum.
    Sami hv. þm. nefndi að það væri mikilvægt að gera úttekt á þróun jafnréttismála. Ég vil minna á í því sambandi að nú um nokkurt skeið hefur verið lagt fram hér reglubundið yfirlit og úttekt yfir stöðu og þróun jafnréttismála. Það var síðast gert á árinu 1991 og það er komið að því á næsta þingi að leggja fram aftur skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála.
    Hv. þm. spurðist fyrir um norræna launaverkefnið. Ég tel að hér sé á ferðinni mjög mikilvægt verkefni sem er norræna launaverkefnið og hef lagt mikla áherslu á það við Jafnréttisráð sem hefur með höndum þetta verkefni að vel og skipulega sé að þessu staðið. Sérstakur starfsmaður, Ragnheiður Harðardóttir, sér um þetta verkefni undir yfirumsjón Jafnréttisráðs og væntanlega verður kynnt á jafnréttisþingi eins og hv. þm. nefndi hver staða þess verkefnis verður þá.
    Hv. 5. þm. Vestf. beindi einnig til mín nokkrum spurningum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það liggi alveg skýrt fyrir hvernig þessi þáltill. er unnin. Það er Jafnréttisráð sem vann þessa tillögu, sem síðan var send öllum ráðuneytum, og gerði á því breytingar eða viðbætur og auðvitað er það fyrst og fremst útfærslan eins og hún kemur fyrir hjá hverju ráðuneyti sem er í höndum hvers ráðuneytis. Af því að það hv. 5. þm. Vestf. spurði sérstaklega um utanrrn., hvernig staðið væri að því að auglýsa þar stöður þá kemur fram í lið 13.1 áhersla utanrrn. í jafnréttismálum en þar kemur fram að utanrrn. kanni hvernig auka megi tækifæri kvenna til starfsframa í utanríkisþjónustunni og í framhaldi af því verða settar fram tillögur um hvernig möguleikar kvenna og karla á þessu sviði verði jafnaðir. Hér er því gert ráð fyrir að um þetta verði settar tillögur og það er fyrst og fremst í höndum utanrrn. hvernig að því verði staðið.
    Ég vil líka minna á að það hafa verið gerðar jafnréttisáætlanir hjá mörgum ráðuneytum, ég skal ekki um það segja hvort það er öllum, undirstofnunum ráðuneyta fyrir nokkrum árum síðan. Þar voru settar fram áætlanir, m.a. til þess að auka hlut kvenna í ábyrgðarstöðum, og á því hefur verið gerð úttekt sem fyrir liggur hvaða árangri þessar áætlanir hafa skilað.
    Hv. þm. nefndi tímabundnar ráðningar sem hann taldi of mikið um, sem kæmu í kjölfar hagræðingar og endurskipulagningar og nefndi þar menntmrn. sérstaklega og spurði hvort upplýsingar hefðu verið teknar saman um það. Mér er ekki kunnugt um hvort það er eða hvort það komi þá fram í úttekt sem gerð var á framkvæmd þessara jafnréttisáætlana sem voru gerðar fyrir nokkru síðan.