Menningarsjóður

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 23:56:49 (8123)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Skil ég það rétt að það sé verið að greiða atkvæði um hvort þetta orð ,,og skuggamyndasýningum`` eigi að vera hér inni eða ekki? Ég veit ekki til að það liggi fyrir brtt. um þetta, ég hef ekki orðið var við hana a.m.k. en það er samt verið að greiða atkvæði um þetta eina orð. ( Gripið fram í: Tvö orð.) Ja, tvö orð já, þess þá heldur.
    En ég ætlaði aðeins að segja það að mér þykir vera nokkuð mikið gert úr þessu ákvæði um tekjustofninn og þetta ætlar að verða mönnum nokkuð notadrjúgt. Það var það líka í fyrri umræðu um þetta mál og jafnvel búist við, ef samþykkt verður, að þetta verði meginfrétt sjónvarpsins, skilst mér, á morgun. Og það væri svo sem eftir öðru svo ekki sé dýpra tekið í árinni.
    En ég vil aðeins upplýsa það að þessi grein, eins og hún er í 3. gr. frv., a-liður, er tekin upp óbreytt úr gildandi lögum og þeir sem eru að hneykslast á þessu í dag og hafa nú verið ráðherrar menntamála hefðu kannski getað haft manndóm í sér á þeim tíma til þess að fá þetta fellt úr lögum, ef þetta er svona vitlaust. (Gripið fram í.) Þetta er óbreytt frá gildandi lögum en það má geta þess að lögin um skemmtanaskatt þarfnast endurskoðunar. Og þegar sú endurskoðun hefur farið fram, sem ég spái að leiði til þess að lögin um skemmtanaskatt verði einfaldlega numin úr gildi, þá þarf að finna tekjustofn fyrir Menningarsjóðinn. En meðan lög um tekjuskatt eru í gildi, þá er eðlilegt að hafa þetta ákvæði óbreytt og ég segi já.