Húsnæðisstofnun ríkisins

173. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 00:10:17 (8127)

     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Félmn. kom saman á milli 2. og 3. umr. um þetta mál og mættu á fund nefndarinnar að eigin ósk stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins. Ástæða þess að þeir óskuðu eftir fundi voru ummæli hæstv. félmrh. við 2. umr. um þetta mál og fullyrðingar sem ráðherrann setti fram í garð embættismanna stofnunarinnar og stjórnarinnar sem þeir vildu skýra og bera af sér. Það kom í ljós á fundinum að það var full ástæða til þess af minni hálfu að krefjast þess að þessir menn yrðu boðaðir á fund nefndarinnar og þeim gefið færi á að svara þeim alvarlegu ásökunum í garð stjórnar og stofnunar, en því miður bar hvorki ráðherra né formann nefndarinnar gæfa til að verða við þeirri kröfu og þar með að stuðla að því að menn gætu borið hönd fyrir höfuð sér. En sem betur fer var látið undan þegar þeir sjálfir óskuðu eftir fundi og ég fagna því að menn hafi sýnt þá skynsemi að leyfa þessum mönnum að koma á fund nefndarinnar og fara yfir þetta mál lið fyrir lið og rekja það og skýra. Það eina sem mér fannst í raun á skorta var að hæstv. félmrh. skyldi ekki mæta á fundinn og hefði auðvitað verið eðlilegt að ráðherrann sjálfur hefði óskað eftir því til að fylgja þá eftir sínum ummælum í þeirra viðurvist og skiptast á skoðunum um málið á þeim vettvangi í stað þess að gera það þar sem menn hafa ekki tök á að svara fyrir sig. Það fór nú svo að ráðherra sást ekki á fundinum og hefur líklega ekki haft áhuga á því að mæta þarna og ég skil það þannig að ráðherra hafi í raun gefið upp á bátinn fullyrðingar sínar og gefist upp við að reyna að halda fram einhverjum rökstuðningi sér til varnar í þessari makalausu árásarræðu sinni á embættismenn og stjórn, þar með talinn sérstakan trúnaðarmann hennar í stjórninni, og það verður að telja ráðherranum til minnkunar að hafa sett fram þessar ásakanir án þess að geta með nokkrum hætti stutt þær neinum rökum. Því er ekki að leyna að mér þykir sem valdhroki félmrh. í þessum málaflokki sé farinn að ganga út yfir öll mörk og kominn sé tími til að ráðherranum sé gert ljóst að skorður eru reistar við því hversu langt hann getur leyft sér að ganga í þessum efnum.
    Ég vænti þess að þingmenn muni ræða þetta mál nokkuð hér við 3. umr. málsins og setja fram sjónarmið sín til þess hvar mörkin eru í því hvað eðlilegt er að ráðherra seilist langt í að draga til sín vald og gefa fyrirmæli út fyrir sitt eðlilega verksvið. Því er ekki að leyna að því miður hefur ráðherra elst fremur illa í þessu starfi hvað þetta varðar og ég hef ekki enn orðið var við þá tilburði af hálfu Sjálfstfl. að þeir hyggist draga þar einhverja línu sem eðlilegt er að ráðherra haldi sig innan í þessum málum.
    Minni hluta félmn. þótti rétt í ljósi þess hversu alvarlegar ásakanir ráðherrann bar fram á opinberum vettvangi hér úr ræðustól í allra áheyrn að birta þau skjöl er þessir tveir menn sem komu á fund nefndarinnar lögðu fram og skýra málið allverulega auk þess sem þeir gáfu munnlegar upplýsingar til frekari uppfyllingar þeim texta sem fyrir liggur. Niðurstaða mín og ég hygg fleiri úr nefndinni var sú að það væri ekki fótur fyrir neinni af þeim staðhæfingum sem hæstv. ráðherra bar fram. Þær voru allar kyrfilega skotnar í kaf með rökstuðningi sem taka verður mark á, bréfaskriftum og upplýsingum frá þeim um samtöl og fundi við hæstv. félmrh. um þau mál sem ráðherrann nefndi.
    Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að ráðherra hefur farið afar halloka í þessari orðasnerru og er vandséð hvernig ráðherrann ætlar að halda uppi ásökunum sínum að fengnum þessum upplýsingum en ég skora á ráðherrann að mæta samt í ræðustól og reyna að verja mál sitt og draga fram þau rök er hún telur sig hafa þannig að við getum gengið úr skugga um það að ráðherrann hafi í raun engin haldbær rök fyrir þeim ásökunum er fram komu hjá henni í ræðu 4. maí sl.
    Ég vil leyfa mér að lesa þessi bréfaskipti, virðulegi forseti, tel það óhjákvæmilegt vegna þeirra aðila er ásakanirnar beindust gegn, embættismanna Húsnæðisstofnunar ríkisins og stjórnarmanna í húsnæðismálastjórn. Það er óhjákvæmilegt að svörin séu gefin á sama vettvangi og ásakanirnar voru settar fram

á. Ég vil fyrst lesa, virðulegi forseti, bréf er framkvæmdastjóri stofnunarinnar sendi félmrh. dags. 5. maí 1993. Bréfið er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Í ræðu yðar á Alþingi í gærkvöldi, sem sjónvarpsstöðin Sýn flutti, kom fram hörð gagnrýni á Húsnæðisstofnunina fyrir sitthvað sem þér tölduð miður farið í starfsemi hennar. Af því tilefni skal þetta sagt:
    Húsnæðisstofnunin hefur alla tíð lagt kapp á náið og gott samstarf við félmrn. Þar af leiðandi hefur hún lagt áherslu á að veita því allar þær upplýsingar sem beðið hefur verið um hverju sinni eins fljótt og frekast hefur verið kostur. Embættismenn hafa ætíð verið boðnir og búnir til þess að greina frá öllu því sem ráðuneytið hefur óskað eftir upplýsingum um og leitast við að gera það svo skjótt sem mögulegt hefur verið. Öllum erindum hefur alltaf verið svarað og svör aldrei verið vísvitandi dregin á langinn. Allar ásakanir um seinagang og dræm svör, jafnvel engin, hafa því ekki við nein rök að styðjast.
    Það er rétt að húsnæðismálastjórn tók ákvörðun um sölu á áhöldum og skrifstofubúnaði í hönnunardeild stofnunarinnar jafnframt því sem hún tók ákvörðun um að halda eftir teikningasafni hennar og ýmsum tækjum. Allt var það gert að ráði svonefndrar ,,einkavæðingarnefndar`` og sérstaks starfshóps er þér settuð á laggirnar um sl. áramót. Jafnframt er ljóst að allt var málið unnið með vitund ráðuneytisins er fylgdist náið með gangi mála og gerði bæði munnlega og skriflega athugasemdir við það er það taldi ástæðu til. Af hálfu stofnunarinnar var engin tilraun gerð til að leyna ráðuneytið einu eða neinu í þessu efni. Ekki er heldur betur vitað en ráðuneytinu hafi verið fullkunnugt um samninginn allan áður en hann var undirritaður og er ekki nema gott eitt um það að segja. Annað mál er það að samkvæmt álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands er það húsnæðismálastjórn sem ber ábyrgð gagnvart Alþingi á starfsemi byggingarsjóðanna, fjárreiðum öllum og eignum stofnunarinnar. Það er því ótvírætt svo að það var í fullu samræmi við gildandi lög að stjórnin tæki ákvörðun um ráðstöfun á áhöldum og skrifstofubúnaði sem ákveðið var að selja að höfðu samráði við ráðuneytið.
    Allar launagreiðslur í þessari stofnun eru í föstum skorðum og hafa alla tíð verið. Reikningar fyrir yfirvinnu starfsmanna og nefndastörf hafa um ára- og áratuga skeið verið sendir launadeild fjmrn. er hefur afgreitt þá með eðlilegum hætti. Hafi komið fram athugasemdir eða fyrirspurnir hefur þeim ætíð verið svarað tafarlaust, enda hefur samstarfið við þá deild alltaf verið með ágætum. Ekki er annað vitað en þetta hafi gerst með fullri vitund félmrn. Hafi það óskað eftir upplýsingum þar af leiðandi hafa þær sömuleiðis verið veittar og engin tilraun gerð til að leyna einu eða neinu; nú síðast með ítarlegu bréfi hinn 7. apríl sl. Það er því eigi maklegt að bera stofnuninni annað á brýn.
    Í ræðu yðar kemur fram að Húsnæðisstofnunin hafi snúið sér beint til Alþingis og óskað eftir því að gerðar yrðu tilteknar breytingar á húsnæðislöggjöfinni án vitundar eða samráðs við félmrn. Þetta er ekki rétt. Þvert á móti hefur ráðuneytinu verið skrifað á undanförnum mánuðum í þeirri von að það gengist fyrir sérstökum breytingum á löggjöfinni. Afrit af þeim bréfum fylgja hér með. Þau eru þessi:
    1. Bréf dags. 4. mars sl. varðandi breytingu á lögum um lán til byggingar á almennum kaupleiguíbúðum.
    2. Bréf dags. 4. mars sl. varðandi þá hugmynd að veitt verði lán úr Byggingarsjóði verkamanna til endurbóta og lagfæringa á fjölbýlishúsum sem félagslegar eignaríbúðir eru í. Með bréfi dags. 17. mars sl. var ráðuneytinu send kostnaðaráætlun, er að vísu barst því ekki fyrr en fáum dögum síðar vegna mistaka í útsendingu.
    3. Bréf dags. 4. mars sl. þar sem talið er mjög brýnt að gerð verði lagfæring á 90. gr. laganna þar sem fjallað er um útreikning á söluverði félagslegra íbúða.
    4. Bréf dags. 5. mars sl. varðandi afstöðu húsnæðismálastjórnar til fyrirliggjandi tillagna í þar af leiðandi frv. til laga um niðurfellingu á skyldusparnaði ungmenna.
    5. Bréf dags. 24. sept. 1992 þar sem lagabreytingartillögu varðandi gjaldskrá er komið á framfæri við ráðuneytin.
    Í öllum þessum bréfum er hugmyndum og tillögum um lagabreytingar komið á framfæri við félmrn., að sjálfsögðu í þeirri von að ráðuneytið mundi leggja þær fyrir Alþingi. Það er því ekki rétt að ráðuneytið hafi verið sniðgengið í þessum efnum.``
    Undir þetta ritar Sigurður E. Guðmundsson.
    Ég vil við það bæta, sem fram kemur í þessu bréfi hvað varðar ásakanir um að stofnunin hafi sniðgengið ráðuneytið vegna óska um lagabreytingar, að það kom fram hjá þeim tveimur að stjórnarformaðurinn hefði rætt málið sérstaklega við félmrh. og upplýsti að hann hefði haft ástæðu til að ætla að ráðherrann mundi vera stuðningsmaður þessara tillagna þannig að ég hygg að ráðherra eigi nokkurt verk fyrir höndum að skýra fyrir okkur hvers vegna hann heldur þessu fram sem áður hefur verið getið um.
    Ég vil einnig lesa þau bréf sem vitnað er til í bréfi til hæstv. félmrh. svo öllu sé til haga haldið og ekkert fari á milli mála í þeim efnum hvað varðar svör stofnunarinnar við ásökunum ráðherra. Þar er fyrst bréf dags. 4. mars sem er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á fundi húsnæðismálastjórnar hinn 18. febr. sl. var samþykkt umsögn um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er nú liggur fyrir Alþingi. Þar er m.a. að finna ábendingu um breytingu á lögum um lán til byggingar á almennum kaupleiguíbúðum. Hún er á þessa leið:
    ,,Mikil ásókn er frá þeim aðilum sem fengið hafa úthlutað almennum kaupleiguíbúðum að fá þær fluttar milli kerfa og þeim breytt í félagslegar kaupleiguíbúðir. Þau rök eru færð fram fyrir þessum óskum að erfitt eða ómögulegt sé að koma almennum kaupleiguíbúðum í notkun þar sem enginn áhugi sé á slíkum íbúðum. Þessu valdi þung greiðslubyrði af lánum þessara íbúða. Það stafar af tvennu. Annars vegar eru vextir á lánum til almennra kaupleiguíbúða mun hærri en vextir á lánum til félagslegra íbúða og hins vegar er hluti lánsins (20%) með mun skemmri lánstíma en tíðkast um aðrar félagslegar íbúðir. Hinu fyrra er erfitt að breyta en húsnæðismálastjórn leggur til að breytt verði ákvæðum 52. og 54. gr. laganna þannig að lánað verði eitt lán sem svarar til 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði til 43 ára.``
    Þetta tilkynnist yður hér með.
    Virðingarfyllst, f.h. húsnæðismálastjórnar, Sigurður E. Guðmundsson.``
    Í þessu bréfi er staðfest að ráðuneytinu var send þessi samþykkt stjórnar, formlega, fyrir utan samtök og mönnum til fróðleiks skal þess getið að tillaga að breytingu í þessa veru eins og hér er óskað eftir var lögð fram við 2. umr. málsins en var felld, m.a. með atkvæði hæstv. félmrh. sem er afar merkilegt í ljósi þess að á sínum tíma, árið 1988, kynnti ráðherrann almenna kaupleigukerfið sem einhverja töfralausn sérstaklega fyrir landsbyggðina, en reyndin hefur hins vegar orðið önnur einkum vegna þeirra ástæðna sem greindar eru í bréfi húsnæðismálastjórnar til ráðherra og er nauðsynlegt að mínu viti, og annarra hygg ég að ég megi segja sem komið hafa nálægt þessum málum, að ef almennar kaupleiguíbúðir eiga að verða fýsilegur kostur þannig að þær seljist með sæmilegum hætti á landsbyggðinni, þá verður að gera þær breytingar sem óskað er eftir.
    Það er dálítið merkilegt að hæstv. ráðherra skuli standa þvert gegn þeim breytingum sem nauðsynlegar eru til þess að þetta kerfi, hugarfóstur ráðherrans, geti orðið að sæmilegu gagni. Ég held að ráðherranum væri hollt að fara yfir sögu úthlutananna frá 1988 þegar úthlutað var hundruðum íbúða í þessu almenna kaupleigukerfi og menn ruddu upp íbúðum um allt land eftir að hafa fengið jólagjöfina frá hæstv. félmrh. en síðar komu vandamálin í ljós. Það var farið af stað með miklu offorsi en lítilli fyrirhyggju og fjölmargar af þessum íbúðum hafa reynst dýrar í byggingu, of stórar og fjarri því að nægilega hafi verið vandað til framkvæmda að þessu verki og ærin vandamál sem hafa hrúgst upp og stofnunin orðið að leysa úr eftir bestu getu en ég minnist þess ekki að hafa orðið var við stuðning hæstv. ráðherra í þeim vanda sem stjórnarmenn og embættismenn hafa setið er þeir voru og hafa verið að glíma við að leysa úr þessum vandamálum.
    Það er nú þannig að það læðist að mér sá grunur að ráðherrann sé nokkuð sleipur við að kynna hugmyndir í fjölmiðla en því miður sé ekki jafnmikð lið í ráðherranum þegar þarf að fylgja málum eftir og vinna úr því sem ekki hefur farið eins og skyldi. Ég hygg að ráðherrann mætti breyta sínum áherslum meira í þá veru að styðja betur við bakið á þeim sem vinna í þeim verkum að greiða úr þeirri flækju sem frumhlaup hennar hefur haft í för með sér.
    Þá er hér bréf, einnig dags. 4 mars 1993, svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Í bréfi yðar dags. 7. jan. sl. er leitað eftir umsögn húsnæðismálastjórnar varðandi þá hugmynd að veitt verði lán úr Byggingarsjóði verkamanna, að óbreyttum lögum, til endurbóta og lagfæringa á úthliðum (útveggjum) fjölbýlishúsa sem félagslegar eignaríbúðir eru í víðs vegar í landinu; í þeim tilvikum þar sem hús þessi liggja undir stórskemmdum. Húsnæðismálastjórn hefur fjallað um þetta erindi og kemur niðurstaða hennar fram í umsögn þeirri um fyrirliggjandi frv. til laga um breytingu á lögum um þessa stofnun er hún samþykkti á fundi sínum 18. febr. sl. Er hún á þá leið að brýnt sé að lagaheimildir verði veittar fyrir lánveitingum til meiri háttar endurbóta á félagslegum íbúðum.
    Þetta tilkynnist yður hér með.
    Virðingarfyllst, f.h. húsnæðismálastjórnar, Sigurður E. Guðmundsson.``
    Tillaga var lögð fram af stjórnarandstöðunni við 2. umr. um heimild til þess að opna þennan lánaflokk en hún hlaut ekki stuðning stjórnarliða og ekki heldur félmrh. og verð ég að segja að ekki er það nú efnilegt hlutskipti félmrh. að greiða atkvæði gegn þeim tillögum sem húsnæðismálastjórn sameinast um að óska eftir að verði gerðar á lögum, en reyna þess í stað með offorsi og valdi að troða gegnum þingið lögum sem hafa þann eina tilgang og eina markmið ráðherrans að breyta stjórnsýslulegri stöðu stofnunarinnar. Ég fullyrði það sem mína sannfæringu að ráðherranum er alveg sama um allt annað í frv. en það að fá það samþykkt í þinginu að valdið yfir stofnuninni færist til hennar. Þetta er því miður að mínu mati staðreynd málsins. Ég veit ekki hvað stofnunin eða stjórnin hefur til saka unnið að ráðherrann skuli gegn vilja þessara aðila reyna að breyta stjórnsýslulegri stöðu stofnunarinnar og ljá ekki þessum aðilum á nokkurn hátt lið í þeim breytingum sem þeir óska eftir sameiginlega. Ráðherrann snýst með öðrum orðum gegn öllum óskum stofnunarinnar eða stjórnar. Ég hlýt að inna ráðherrann eftir því hver ástæðan er fyrir þessari framkomu ráðherrans gagnvart stofnuninni og stjórninni. Hvað hefur stjórnin gert eða unnið sér það til óhelgis að ráðherrann kemur svona fram?
    Það er hins vegar dálítið merkilegt í ljósi þeirrar gusu sem ráðherrann sendi hér fram sl. þriðjudag að hugmyndir um það að breyta stjórnsýslulegri stöðu stofnunarinnar eru eldri en menn ætla. Þær eru frá árinu 1990 og má finna í sérstöku frv. sem þá var lagt fyrir Alþingi. Maður veltir því fyrir sér ef það eru samskiptaörðugleikar, eins og ráða mátti af ræðu ráðherrans, sem væru þess valdandi að ráðherrann teldi nauðsynlegt að afnema sjálfstæði stofnunarinnar, þá væru það samskiptaörðugleikar við þá sem fóru með forræði mála fyrir 1990. Það er dálítið merkilegt að á árunum áður var stjórnarformaður húsnæðismálastjórnar hv. núv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og maður spyr sjálfan sig í forundran: Voru það svona

miklir samskiptaörðugleikar ráðherrans við hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur er hún var formaður húsnæðismálastjórnar sem eru orsök þess að ráðherrann telur nauðsynlegt að leggja niður sjálfstæði stofnunarinnar? Það væri fróðlegt að fá það upplýst fyrst ráðherrann sjálfur beindi athyglinni að því að um samskiptaörðugleika væri að ræða og við fengum það a.m.k. á tilfinninguna sem á hlýddum að það væri ástæðan fyrir flutningi málsins.
    Þá er hér bréf dags. 17. mars sl. til ráðuneytisins sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Hér með er yður send áætlun frá félagsíbúðadeild þessarar stofnunar, dags. 16. mars 1993, um kostnað við endurbætur á útveggjum fjölbýlishúsa, sem félagslegar íbúðir eru í, svo sem þér óskuðuð eftir í bréfi yðar dags. 7. jan. sl. Hér er um að ræða byggingar þær sem stofnuninni er kunnugt um, en að sjálfsögðu kunna þær að vera fleiri.`` ( Félmrh.: . . .   dagsetningin á erindi Húsnæðisstofnunar til félmn. þar sem þetta kom fram, það var 17. febr.) ( Forseti: Ég vil biðja hæstv. ráðherra um að taka þátt í umræðunni þegar að henni kemur.)
    Ég þakka forseta fyrir röggsama fundarstjórn og held áfram lestri úr bréfinu: ,,Hér er um að ræða byggingar þær sem stofnuninni er kunnugt um, en að sjálfsögðu kunna þær að vera fleiri. Þess skal einnig getið að af hálfu hennar hefur engin úttekt farið fram á ásigkomulagi þessara bygginga og er áætlunin því harla lausleg; sannast sagna fremur til þess fallin að gefa hugmynd um stærð vandans en hitt að hún sé í föstum skorðum.``
    Með þessu bréfi fylgir síðan áætlun um viðgerðir vegna byggingargalla á 11 fjölbýlishúsum sem upplýsingar liggja fyrir um að þurfi viðgerðir, samtals 97 íbúðir. Reynt er að áætla þennan kostnað og hann er alls áætlaður um 150 millj., auðvitað með þeim fyrirvörum sem fram koma í bréfinu. Hér er því alveg greinilegt og skjalfest að stofnunin svaraði því erindi er ráðherra óskaði eftir. En um þetta atriði sagði ráðherrann eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Og ég vil líka rifja upp það sem ég sagði í dag að ég tel það óeðlilegt að stjórn einnar ríkisstofnunar sendi beint til Alþingis fram hjá ráðuneytinu óskir um viðbótarútgjöld sem nemur einhverjum hundruðum millj. kr. til að opna nýja lánaflokka og að bæta kjör á ákveðnum lánaflokki án þess að gera sér grein fyrir því hvar eigi að fá peninga í það og án þess að ráðuneytið hafi hina minnstu vitneskju um það. Ráðuneytið er reyndar hunsað vegna þess að það hafi óskað eftir upplýsingum um kostnað við að opna þennan málaflokk, en það var ekki virt viðlits heldur beiðni send beint til félmn. um að opna slíkan lánaflokk.`` --- Þetta var úr ræðu ráðherra.
    Hér er það skjalfest að stofnunin sendi ráðherranum svar við þessu erindi og svarið er sent 17. mars þannig að það liggur fyrir skjalfest að hæstv. félmrh. sagði ósatt, fór ekki með rétt mál í þessum fullyrðingum sínum sem ég vitnaði til.
    Þá er einnig að finna í skjölum bréf dags. 4. mars sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Á fundi húsnæðismálastjórnar hinn 18. febr. sl. var samþykkt umsögn um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er nú liggur fyrir Alþingi. þar er m.a. að finna ábendingu um breytingu á lögum um lán til byggingar á almennum kaupleiguíbúðum. Hún er á þessa leið:
    ,,Mjög brýnt er einnig að gerð verði lagfæring á 90. gr. laganna þar sem fjallað er um útreikning á söluverði félagslegra íbúða sem byggðar eru samkvæmt lögum fyrir gildistöku laga nr. 51/1980. Lagt er til að útreikningur verði samræmdur við ákvæði núverandi reglugerðar, þ.e. 99. gr. reglugerðar nr. 46/1991.````
    Enn er skjalfest að ráðuneytið fékk sent bréf og vitneskju formlega um þessar óskir stjórnarinnar auk þess sem rætt var við ráðherrann um þessi mál og ég vænti þess að ráðherrann þræti ekki fyrir það.
    Þá er hér bréf til félmrn. dags. 5. mars sl. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Á fundi húsnæðismálastjórnar hinn 18. febr. sl. var samþykkt umsögn um fyrirliggjandi frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Í 2. lið I. kafla er fjallað sérstaklega um afstöðu stjórnarinnar til skyldusparnaðs ungs fólks til íbúðarbygginga, sbr. VIII. kafla laga nr. 86/1988, með síðari breytingum. Og þar segir svo:
    ,,Meiri hluti húsnæðismálastjórnar er sammála því að leggja niður núverandi skyldusparnaðarkerfi. Skiptar skoðanir eru um það hvort ástæða eða nauðsyn beri til þess að koma á nýju frjálsara kerfi í stað þess sem nú er við lýði. Þrír kostir koma til greina að mati stjórnarinnar.
    1. Að leggja alfarið niður skyldusparnað ungmenna.
    2. Að fækka undanþágum verulega og lækka sparnaðarhlutfall samfara því.
    3. Að loka núverandi kerfi en taka upp frjálst sparnaðarkerfi fyrir ungt fólk þar sem hið opinbera annaðist innheimtu sparnaðar og legði framlag á móti sparnaði sparandans.``
    Í IV. kafla umsagnarinnar segir síðan svo:
    ,,Húsnæðismálastjórn hefur haft til skoðunar breytingar á fyrirkomulagi skyldusparnaðar ungs fólks að beiðni félmrh. Meginniðurstöður þeirrar athugunar má draga saman í eftirfarandi:
    a. Vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna og rýmri reglna um undanþágur eru það nú tiltölulega fáir í hverjum árgangi sem spara til lengri tíma og mynda umtalsverðar innstæður á skyldusparnaðarreikningum.
    b. Mikil velta er út og inn af reikningum á hverju ári og samfara því er mikill umsýslukostnaður hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.

    c. Skattaleg fríðindi tengd skyldusparnaði féllu niður við upptöku staðgreiðslukerfis skatta 1988, þrátt fyrir að skattfríðindi hafi haldist á frjálsum húsnæðissparnaðarreikningum og ávöxtunarkjör skyldusparnaðar ungs fólks því verið mun lakari en húsnæðissparnaðarreikninga.
    d. Miklar breytingar hafa átt sér stað á fjármagnsmarkaði frá því að skyldusparnaðarkerfinu var hleypt af stokkunum og framboð á sparnaðarkostum margfaldast auk þess sem ávöxtunarkjör hafa tekið stakkaskiptum.
    Allt þetta mælir með því að taka skyldusparnaðarkerfið til gagngerrar endurskoðunar. Á hinn bóginn er ljóst að umtalsverður hópur fólks á aldrinum 16--26 ára notar núverandi kerfi til reglubundins og varanlegs sparnaðar. Sé það gert myndast innstæður sem geta skipt sköpum við íbúðarkaup eða íbúðarbyggingu þegar að því kemur. Álitamál er hvað þessi hópur, sem leitar snemma út á vinnumarkaðinn, mun gera ef kerfið er lagt niður. Mun hann finna sér annan sparnaðarkost eða mun niðurlagning kerfisins leiða til aukningar á neyslu á kostnað sparnaðar og því veikja möguleika þessa hóps til íbúðarkaupa þegar til engri tíma er litið? Við þessari spurningu er ekkert einhlítt svar.
    Til umræðu í húsnæðismálastjórn hafa verið einkum þrír kostir eins og áður er getið.
    1. Að leggja kerfið alfarið niður.
    2. Að þrengja verulega möguleika til úttekta, þ.e. fækka undanþágum.
    3. Að loka núverandi kerfi en taka upp frjálst sparnaðarkerfi fyrir ungt fólk.
    Meðfylgjandi eru drög að frv. um nýtt sparnaðarkerfi sem miðað er til ungmenna. Kerfið er valfrjálst, en gert er ráð fyrir að skattkerfið annist innheimtu sparifjárins. Enn fremur er hugsanlegt að hið opinbera legði fram framlag á móti framlagi sparnandans með svipuðum hætti og gert er á húsnæðissparnaðarreikningum. Húsnæðismálastjórn hefur enga afstöðu tekið til þessara frumvarpsdraga en leggur þau fram til skoðunar fyrir nefndina. Meiri hluti húsnæðismálastjórnar mælir hins vegar með því að valinn verði fyrsti kosturinn sem nefndur var að ofan.````
    Með þessu bréfi er staðfest að svar var sent við erindi ráðuneytisins um skyldusparnað og vænti ég þess að ráðherra haldi því ekki fram oftar að svör hafi ekki borist.
    Þá eru það fullyrðingar ráðherrans um sjálfdæmi stofnunarinnar í sértekjum eða gjaldtökum og að ráðuneytið sé ekki látið vita af þeim. Því er vísað til föðurhúsanna og til staðfestingar er bréf sem ráðherranum var sent 24. sept. 1992, sem er svohljóðandi, en það bæði staðfestir samráðið við ráðherra um gjaldtöku og tillögu um breytingu á lögum vegna þeirra mála, með leyfi forseta:
    ,,Á fundi húsnæðismálastjórnar hinn 17. sept. sl. var tekið fyrir erindi yðar í bréfi dags. 14. júlí. Með vísan til þess gerði húsnæðismálastjórn neðangreinda samþykkt á framangreindum fundi sínum:
    Tillaga að breytingu á lögum nr. 86/1988, með síðari breytingum.
    Viðbót við 7. gr. laganna:
    Húsnæðismálastjórn skal setja Húsnæðisstofnun gjaldskrá vegna vanskilainnheimtu á lánum stofnunarinnar.
    Heimilt er að vanskilakostnaður verði ákveðið jöfnunargjald á hvert skuldabréf þannig að jafnræðis verði gætt og skuldarar greiði sama gjald hvar sem þeir búa á landinu.
    Greinargerð. Núverandi gjaldskrá stofnunarinnar, sem gefin var út þann 14. júlí 1992 og birt í Lögbirtingablaðinu þann 31. júlí 1992, er byggð á skaðleysissjónarmiðum. Við setningu gjaldskrárinnar var gjald ákveðið þannig að áætlaður var kostnaður stofnunarinnar vegna vanskilainnheimtu og honum síðan jafnað niður á áætlaðan fjölda greiðsluáskorana og nauðungarsölubeiðna. Ljóst er að út af getur brugðið með slíkt mat vegna breyttra forsendna og því er nauðsynlegt að stofnunin hafi beina lagaheimild til gjaldtöku.
    Þá er í 2. mgr. lagt til að heimilt verði að jafna sérstökum kostnaði niður á skuldara þannig að jafnræðis sé gætt hvar sem þeir búa á landinu.``
    Vænti ég þess að með þessum gögnum sé nú endanlega hrakið og bornar til baka þær ásakanir sem ráðherra hefur fram sett og því var auk þess fylgt eftir með munnlegum upplýsingum sem fram komu á fundinum. Það væri fróðlegt að heyra á eftir hvort ráðherrann hyggst reyna að halda sig við fullyrðingar sínar eða hvort hann velur skynsamlegri kostinn, að draga yfirlýsingar sínar til baka, sem ég mundi fagna en jafnframt í leiðinni vil ég segja ráðherra að ég teldi að hann ætti að biðjast afsökunar á ummælum sínum í garð stofnunar og stjórnar sem hafa ekki við nokkur rök að styðjast eins og sýnt hefur verið fram á.
    Þá er rétt að víkja aðeins að fram komnum brtt. á því frv. sem liggur nú fyrir eftir 2. umr. málsins. En ég hef lagt fram brtt. á þremur þingskjölum sem ég mun fylgja hér úr hlaði, og það er þá fyrst brtt. á þskj. 1212 við 3., 4. og 5. greinar frv. eins og það lítur út núna að lokinni 2. umr. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um að 1. efnismgr. 3. gr. orðist þannig, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, húsnæðismálastjórn, skipa tíu menn, sjö kosnir hlutbundinni kosningu af Alþingi eftir hverjar alþingiskosningar og þrír skipaðir af félmrh. eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Sambands ísl. sveitarfélaga. Varamenn skulu kjörnir og skipaðir á sama hátt.``
    Breytingin sem lögð er til frá greininni eins og hún er í frv. er sú að í stað sjö manna í stjórn sitji tíu. Og þessir þrír sem við bætast komi frá Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Það er nýmæli frá því sem er í dag og hefur verið hefur um allmörg ár að lagt er til að Samband ísl. sveitarfélaga fái fulltrúa í stjórnina en til þess að koma í veg fyrir að sú viðbót valdi

fjölgun í stjórninni er á móti lagt til að fulltrúar Alþýðusambands Íslands sem í dag eru tveir verði aðeins einn. Ég tel að það væri farsælt að breyta frumvarpsgreininni til samræmis við þá tillögu sem ég var hér að kynna því að það skiptir afar miklu máli við framkvæmd húsnæðismála og húsnæðisstefnu hér á landi að um þá framkvæmd náist nokkuð víðtæk samstaða, bæði milli stjórnmálaflokka og helstu hagsmunasamtaka sem aðild eiga að þessu máli og ég teldi það verr ef fulltrúar þessara samtaka, Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins yrðu settir af í stjórninni með öllu og raunar ekki maklegt í ljósi þeirrar reynslu sem er af störfum þeirra innan stofnunarinnar, en ég fullyrði að fulltrúar þessara samtaka hafa haft góð áhrif á framkvæmd mála í þessum málaflokki, enda hefur ráðherra ekki komið fram með nein rök gegn því eða í þá veru að reynslan sé slæm af þeirra setu.
    Þá er lagt til í 4. gr. frv. sem fjallar um hlutverk húsnæðismálastjórnar að í 1. tölul. verði einu orði breytt þannig að í stað þess að það sé hlutverk stjórnar að hafa umsjón með fjárhag, rekstri og annarri starfsemi stofnunarinnar og sjóða og gæta þess að starfað sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir, í stað þess ,,að hafa umsjón með`` komi: að hafa eftirlit með, eins og er í núgildandi lögum. Þetta er gert til að styrkja stöðu stjórnar yfir þessum málaflokki.
    Í öðru lagi er lagt til að breyta 2. tölul. 4. gr. þannig að hlutverk stjórnar sé að gera tillögur um skiptingu ráðstöfunarfjár milli útlánaflokka, afgreiða fjárhagsáætlanir og úrskurða ársreikninga stofnunarinnar og byggingarsjóðanna í stað þess að gerðar séu tillögur til ráðherra að fjárhagsáætlun o.s.frv., þannig að að sé ótvírætt hlutverk stjórnarinnar að fara með yfirstjórn fjármála í þessari stofnun en ekki ráðherra.
    Þá er lagt til að við 4. gr. bætist tveir nýir töluliðir um hlutverk stjórnar, er verði 5. og 6. tölul., svohljóðandi:
    5. Að marka meginstefnu í málefnum Húsnæðisstofnunar ríkisins og byggingarsjóðanna.
    6. Að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um löggjafaratriði á sviði húsnæðismála.
    Þessar breytingar eru lagðar fram til að færa hlutverk stjórnar nær því sem það er samkvæmt núgildandi lögum og draga úr þeirri áherslu sem er í þessu frv. að færa valdið úr höndum stjórnar og stofnunar til ráðuneytis.
    Þá er lagt til að 3. mgr. 5. gr. frv. falli brott en sú málsgrein fjallar um það að framkvæmdastjóri beri ábyrgð á fjárreiðum og starfsmannahaldi stofnunarinnar og á því að þessir þættir séu innan þess ramma sem fjárlög setja. Það er til samræmis við fyrri brtt. um hlutverk húsnæðismálastjórnar þannig að það er eðlileg tillaga í framhaldi af fyrri tillögu um að þetta sé á ábyrgð stjórnar.
    Þá er lagt til að sérstakur kafli bætist inn í frv. um skyldusparnað. Eins og frv. lítur út núna er í 17. gr. þess búið að fella brott VIII. kafla laganna um skyldusparnað ungs fólks til íbúðarbygginga. Með brtt. á þskj. 1210 legg ég til að skyldusparnaði verði viðhaldið í breyttri mynd frá því sem nú er og í stað þess að kaflinn beri yfirskriftina: Skyldusparnaður ungs fólks til íbúðarbygginga, þá beri hann yfirskriftina: Húsnæðissparnaður unga fólksins. Og tillögurnar eru þær að fyrri málsgrein 111. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins orðist þannig, með leyfi forseta:
    ,,Öllum einstaklingum á aldrinum 16--21 árs, sem ekki hafa formlega undanþágu skv. 113. gr., skal skylt að leggja til hiðar 8% af launum sínum, sem greidd eru í peningum eða sambærilegum atvinnutekjum, í því skyni að mynda sér sjóð til íbúðarbygginga eða bústofnunar í sveit. Skyldusparnaður hefst við næstu áramót eftir að hlutaðeigandi verður 16 ára og lýkur þegar hann verður 21 árs. Fé það, sem þannig safnast, skal ávaxtað í innlánsdeild Byggingarsjóðs ríkisins.``
    Þess verður að gæta í brtt. að númeraröð lagagreina hefur breyst með miklum breytingum á lögunum á undanförnum árum, en 111. gr. sem vitnað er til er samkvæmt þeirri útprentun sem ég hef hér undir höndum, en það kann að vera að númerin séu önnur en það er tæknilegt atriði sem verður þá leiðrétt ef til þess kemur.
    Meginbreytingin er í raun tvíþætt. Annars vegar er lagt til að sparnaðurinn nái til 21 árs í stað 26 ára. Í öðru lagi er lagt til að sparnaðurinn nemi 8% af launum en ekki 15% eins og nú er. Þetta er byggt á hugmyndum sem viðraðar hafa verið innan húsnæðismálastjórnar og eru mjög athyglisverðar. Það hefur verið gerður útreikningur á fjárstreymi miðað við breytingar á skyldusparnaðarprósentu og líkur leiddar að því að jafnvægi náist í fjárstreymi með þessari innheimtuprósentu ásamt þeirri breytingu sem fylgir í kjölfarið að fækka undanþágum frá skyldusparnaði. Í þessum tillögum sem ég hef hér lagt fram um húsnæðissparnað unga fólksins á þskj. 1210 er lagt til að undanþágur sem eru nokkuð margar í núgildandi lögum verði þannig að þrjár þeirra falli brott, þ.e. að einungis sé hægt að fá undanþágu frá skyldusparnaðinum eða sparnaðinum hafi menn keypt íbúð eða búi við varanlega örorku eða um sé að ræða útlendinga sem hafi landvistar- eða atvinnuleyfi hér á landi um tiltekinn tíma og dvelja hér um stundarsakir.
    Það má auðvitað deila um þessa hugmynd sem ég er hér að leggja fram í þessu máli, en hún byggist á því að aflétta skyldunni eftir að menn eru orðnir 21 árs með þeim rökum að þá séu menn líklega komnir með fjölskyldu ellegar hafi hafið framhaldsnám og því sé ekki rétt að leggja á þá að leggja sparnað til hliðar á þeim tíma. Hins vegar eru einstaklingar á aldrinum 16--21 árs trúlega mjög margir ef ekki yfirgnæfandi meiri hluti enn í foreldrahúsum og ekki farinn að halda heimili og því þykir rétt að á því tímaskeiði sé reynt að beina fólki inn á þær brautir að leggja til hliðar fyrir framtíðina í þessum efnum.
    Þá er gerð tillaga um það að bæta við nýrri grein inn í þennan kafla laganna sem tryggir innheimtu sparnaðarins og er tillögugreinin byggð á svipaðri útfærslu og í dag er í lögum um orlof, þ.e. að

að liðnum tilteknum tíma geti launþegi fengið kröfu sína innleysta hjá ráðuneyti sem síðan tekur að sér að innheimta hjá viðkomandi launagreiðanda ef hann hefur ekki skilað sparnaðinum á sinn stað. Þessi viðbót er í takt við tillögu frá húsnæðismálastjórn sem send var á sínum tíma til félmrh. fyrir rúmum tveimur árum með ósk um lagabreytingar til að tryggja réttarstöðu skyldusparenda og innheimtu skyldusparnaðar. Hæstv. félmrh. lét hins vegar ekki svo lítið að virða þessar tillögur viðlits, stakk þeim ofan í skúffu og hefur lítið af þeim frést í ráðuneytinu og er það mikill skaði því að allmargir unglingar og ungmenni hafa tapað umtalsverðum fjármunum á þessum tíma vegna gjaldþrota fyrirtækja og verður það að teljast afar slæmt að félmrh. skuli ekki hafa sinnt þessari beiðni á sínum tíma og þannig komið í veg fyrir það tjón sem einstaklingar hafa orðið fyrir.
    Þá vil ég víkja að tillögum sem ég flyt einnig og eru ákvæði til bráðabirgða. Þar er fyrra ákvæðið svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Á árinu 1993 er húsnæðismálastjórn heimilt að veita lántakendum frest til allt að sex mánaða á greiðslu afborgana, vaxta og verðbóta, að hluta eða að öllu leyti, af lánum veittum til íbúðaöflunar úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna og fasteignaveðbréfum sem húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins hefur tekið við í skiptum fyrir húsbréf.
    Frest skv. 1. mgr. er einungis heimilt að veita ef atvinnuleysi, langvarandi veikindi eða aðrar sambærilegar ástæður valda slíkum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega að hann getur ekki staðið skil á greiðslum vegna lánanna.``
    Það er knýjandi nauðsyn að tekið sé á þeim málum sem eru að hrannast upp um þessar mundir hjá lánastofnunum og þar með talið hjá Húsnæðisstofnun ríkisins vegna vaxandi atvinnuleysis sem gætir auðvitað ekki hvað síst meðal lántakenda og veita stofnuninni heimild eða heimildir til þess að fresta greiðslum af þessum lánum um einhvern tíma meðan unnið er að tillögum til úrbóta. Í þessu ákvæði er lagt til að heimildin nái til allt að sex mánaða og tíminn á meðan verði nýttur til þess að koma fram með tillögur að lagabreytingum til að taka á þessu vandamáli sem eru vaxandi vanskil lántakenda. Það tengist þá hinu ákvæðinu til bráðabirgða sem er svohljóðandi:
    ,,Á árinu 1993 skal starfa þriggja manna nefnd er félagsmálaráðherra skipar er undirbúi samningu laga um greiðsluaðlögun til aðstoðar fólki í verulegum greiðsluerfiðleikum.
    Nefndin skal kanna svipaða löggjöf á Norðurlöndum og afla upplýsinga um reynsluna af henni.``
    Þarna er gert ráð fyrir því að Alþingi álykti að setja upp nefnd til þess að undirbúa einmitt löggjöf um þetta efni og hún verði væntanlega búin að ljúka störfum nú í haust þannig að er þing kemur saman aftur 1. okt. nk. megi vænta þess að fyrir liggi beinar tillögur til úrbóta í þessum efnum en á því er ekki nokkur vafi að full ástæða er til að bregðast við í þessum efnum.
    Ég hef lagt fram tillögur til úrbóta á þessu sviði, frv. til laga um greiðslufrest á fasteignaveðlánum sem hins vegar hefur ekki hlotið þær undirtektir hjá stjórnarflokkunum að það nái fram að ganga og er því brugðið á það ráð að koma fram með tillögur um ákvæði til bráðabrigða eins og ég hef rakið.
    Þetta ákvæði til bráðabirgða um skipun þriggja manna nefndar er í raun og veru unnið upp úr þingskjali sem hér liggur fyrir, þáltill. sem ekki hefur komist til umræðu og ég vænti þess að flm. þess a.m.k. sem eru úr stjórnarliðinu styðji málið og það nái fram að ganga.
    Virðulegur forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þeim brtt. sem ég hef flutt við 3. umr. þessa máls og vænti þess að efni þeirra sé mönnum nokkuð ljóst. Enn fremur hef ég farið nokkuð ítarlega yfir athugasemdir sem fram hafa komið vegna ummæla hæstv. ráðherra í garð embættismanna Húsnæðisstofnunar og í garð húsnæðismálastjórnar.
    Virðulegur forseti. Ég tel ekki ástæðu í þessari ræðu að orðlengja frekar um þessi efni sem ég hef hér drepið á, en ég heyri það á þingmönnum að þeir vilja gjarnan heyra meira og ég hef nægan efnivið í fleiri ræður fyrir þá sem eru áhugamenn um þessi efni.