Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 10:23:12 (8142)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breyting á lögum nr. 63/1970 um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum.
    Nefndin sendi þetta frv. til umsagnar allmargra aðila. Hún fjallaði um málið og gerði á frv. nokkrar brtt. með tilliti til þeirra athugasemda sem bárust.
    Við 2. gr. frv. sem fjallar um opinberar framkvæmdir eru lagðar til nokkrar breytingar. Það er lagt til að orðalag a- og b-liðar verði gert skýrara og að ákvæði d-liðar verði þrengt og lögð er til sú breyting á e-lið að ekki þurfi við kæru að færa sönnur á líkindi þess að tjón hafi orðið. Eðlilegra þykir að fara þá leið að kærur verði rökstuddar í stað þess að þær feli í sér sönnun. Þá er lagt til að f-lið verði breytt þannig að heimild félmrn. til að grípa til aðgerða falli brott. 1. mgr. g-liðar færist yfir í f-lið þannig að eingöngu verði fjallað um bótaskyldu í g-lið en það er gert til að koma í veg fyrir misskilning. Lögð er til breyting á tímamörkum í h-lið til að enginn vafi verði um framkvæmd og loks er lagt til að ákvæði i-liðar verði gert skýrara.
    Í öðru lagi er lagt til að það komi ný grein á undan 4. gr. en lögum um opinber innkaup, nr. 52/1987, er ekki skipt í kafla þannig að afmarka verður gildissvið 9.--14. gr. laganna til þess að kæruheimild nái ekki yfir öll ákvæði þeirra.
    Þá er lagt til að 4. gr. verði breytt sem hér segir: Breytingar á b- og e-lið eru í samræmi við áðurgreindar breytingartillögur varðandi opinberar framkvæmdir, svo og breytingar á 1. mgr. d-liðar. Í a-lið verði orðalag leiðrétt og í 3. mgr. d-liðar verði kveðið á um lágmarksfjárhæð innkaupa sem ráðgert er að bjóða út á næstu 12 mánuðum, í stað þess að hafa það ótímabundið.
    Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.