Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 10:26:35 (8144)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Samkvæmt nál. á þskj. 1135 er ég bókaður fjarstaddur afgreiðslu þessa máls. Ég ætla ekki að rengja að það sé rétt með farið. Þó ég vilji meina að ég hafi mætt þokkalega vel á fundum efh.- og viðskn. undanfarnar vikur þá hefur nefndinni samt tekist að ná þessu máli út að mér fjarstöddum og ég vil því skýra lítillega afstöðu mína til þess.
    Það er í stuttu máli á þann veg að ég er sammála nál. minni hluta efh.- og viðskn., sem undirritað er af hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og Halldóri Ásgrímssyni, og hefði lagt til svipaða málsmeðferð hefði ég verið viðstaddur afgreiðsluna.
    Staðreyndin er sú að hér er á ferðinni eitt af stærri málum sem tengjast samningagerðinni um Evrópskt efnahagssvæði, þ.e. í þeim skilningi að þetta mál getur haft, nánast frá upphafi gildistöku samningsins, talsverð áhrif á innlend málefni, öfugt við margt af öllu því pappírsflóði sem þessum samningi fylgir upp á tugi þúsunda blaðsíðna, eins og kunnugt er, sem er margt harla fjarlægt okkur Íslendingum. Má þar nefna endalausar reglugerðir um skipgenga vatnsfarvegi, járnbrautarteina og annað því um líkt. Þá geta þessi ákvæði haft hér strax þó nokkur áhrif. Það er vegna þess, eins og segir í lagatextanum og í fyrirsögn frv., að hér er með mjög afdráttarlausum hætti mælt fyrir um skipan opinberra framkvæmda og innkaup opinberra aðila á öllu hinu Evrópska efnahagssvæði, þar með talið Íslandi, frá og með gildistöku samningsins. Ætli menn á annað borð að framkvæma þennan samning eða fara eftir honum þá er alveg ljóst að stærri aðilar, hér innan lands, á vegum hins opinbera, ríkis og sveitarstjórna, og allra þeirra samtaka og stofnana sem tengjast þessum aðilum, eins og segir í 1. gr. frv., verða að lúta ákvæðum þessara reglna.
    Frv. er gefið mjög vítt gildissvið þar sem það sama skal gilda um framkvæmdir og innkaup allra þeirra aðila sem reknir eru að mestu leyti á kostnað ríkis eða sveitarstjórna eða annarra opinberra aðila eða lúta yfirstjórn þessara aðila eða ef rekstur þeirra er undir yfirstjórn eða eftirliti stjórnar þar sem meiri hluti

stjórnarmanna er skipaður af ríki eða sveitarstjórn eða öðrum opinberum aðilum. Þetta er tiltölulega samansúrrað, með öðrum orðum ef í einhverju tilliti er hægt að sýna fram á að sveitarstjórn eða ríki hafi ráðandi stöðu í stofnun eða samtökum eða meiri hluta stjórnarmanna á einhverjum vígstöðvum þá skulu þeir hinir sömu aðilar lúta ákvæðum þessara laga. Sérstaklega held ég að ákvæðin um opinber innkaup muni koma til með að hafa áhrif hér vegna þess að þar eru fjárhæðarmörkin mun lægri en þegar um verktöku eða verkkaup er að ræða eins og menn sjá í 4. gr. frv. eða í II. kafla.
    Ég leyfi mér að halda því fram, hæstv. forseti, að þetta frv. hafi alls ekki hlotið skoðun og athygli í samræmi við mikilvægi þess að þessu leyti til, þ.e. í ljósi þess að hér er eitt af þeim málum sem tengjast Evrópska efnahagssvæðinu sem geta strax frá upphafi gildistöku hans haft hér veruleg áhrif. Nú vill svo til að ræðumaður þekkir lítillega, bæði af afspurn og reynslu, þann ríka vilja sem er hjá fjölmörgum sveitarfélögum að beina verkefnum til heimaaðila, eins og eðlilegt er og skiljanlegt. Þetta á við bæði um verktöku eins og t.d. þegar hafnarframkvæmdir eiga í hlut, en það er þannig samkvæmt hafnalögum að þó að ríkið greiði meiri hluta kostnaðar við hafnargerð þá eru þær framkvæmdalega á ábyrgð sveitarfélaga. Það hefur oft og tíðum valdið deilum og átökum milli hins opinbera, Vita- og hafnamálastofnunar og samgrn. og sveitarfélaganna, að sveitarfélögin hafa lagt mikið kapp á að koma eins miklu af verkefnum á þessu sviði og kostur er í hendur heimaaðila. Jafnvel þannig að þau hafa vísað til forræðis síns á málaflokknum og neitað að hlýða opinberum verklagsreglum um að meiri háttar verkefni af þessu tagi skuli boðin út og til ágreinings hefur oft komið á undanförnum árum vegna þessa.
    Og hvað segir það okkur síðan um viðhorf sveitarfélaganna gagnvart þessu frv.? Ætli það sé ekki líklegt að þau hin sömu sveitarfélög, sem hafa gert ágreining um t.d. hafnarframkvæmdir á undanförnum árum, verði dálítið kindarleg þegar ekki aðeins meiri háttar framkvæmdir þeirra skulu boðnar út um allan hinn evrópska heim, heldur öll umtalsverð innkaup á rekstrarvörum eða búnaði t.d. til stofnana á vegum sveitarfélaganna eða sveitarfélagsins sjálfs.
    Þá kem ég aftur að því að fjárhæðarmörkin eru miklu lægri, eins og sjá má í 4. gr. frv., og það er alveg ljóst að á þann þátt málsins a.m.k. hlýtur að reyna í verulegum mæli þegar í hlut eiga stærri stofnanir á vegum hins opinbera eða sveitarfélaganna.
    Ég leyfi mér að halda því fram að málið hafi alls ekki verið skoðað eða unnið með fullnægjandi hætti hvað snertir þennan þátt málsins og allt of lítill tími gafst til þess í annars hinni ágætu efh.- og viðskn. að fara yfir athugasemdir og umsagnir sem okkur þó bárust. Ég held að aðilar eins og sveitarfélögin, stærstu verktakar og stærstu stofnanir, hefðu þurft að athuga þetta mál betur og meiri tími hefði þurft að gefast til að fara yfir það í því ljósi.
    Sjálfsagt er það svo að samkvæmt hinni evrópsku nauðhyggju þá á maður ekki að vera að blaðra um þetta og ósköp einfaldlega þegja og segja já og amen og takk fyrir og auðvitað höfum við þetta eins og þeir vilja á þessu Evrópska efnahagssvæði. Hvað kemur okkur það við uppi á Íslandi þó að sveitarfélögin verði eitthvað að nöldra út í hið Evrópska efnahagssvæði og verði að kaupa stóla frá Þýskalandi eða borð eða teppi eða hvað það nú er sem þau hefðu ella hugsanlega getað látið heimaaðila vinna? En það er a.m.k. rétt að menn átti sig á því að það er það sem hér er á ferðinni. Það er verið að taka algjörlega af mönnum sjálfræðið hvað það snertir að beina verkefnum til heimaaðila og hið fornkveðna, sem Íslendingar fundu upp löngu á undan Keynes, sem þó er eignað það hugtak í hagfræðinni, að hollur sé heimafenginn baggi, það er sem sagt algjörlega dæmt úr leik í þessu sambandi, algjörlega. Menn skulu ,,vesgú`` bjóða þetta út um allt hið Evrópska efnahagssvæði, hvort sem er meiri háttar framkvæmdir eða verkkaup eða innkaup. Til að kóróna það er, eins og áður hefur verið bent á og frægt var hér við 1. umr. málsins, kostulegt ákvæði í þessu frv. sem bannar mönnum með pósitífum hætti að auglýsa eftir tilboðum eða innkaupum hér uppi á Íslandi fyrr en búið er að birta það í stjórnartíðindum EB. Það er hin mikla lögbók sem öllu skal ráða í þessu sambandi og stjórnartíðindi Evrópubandalagsins skulu verða öllum öðrum fjölmiðlum æðri á Íslandi frá og með gildistöku þessa frv. ef að lögum verður. Eins og segir í 2. gr., d-lið:
    ,,Verkkaupi skal í sérstakri kynningarauglýsingu lýsa megineinkennum þeirra verka sem hann hyggst bjóða út. Jafnframt er verkkaupa skylt að auglýsa þau verk sem hann hefur ákveðið að bjóða út. Þá er verkkaupa sem gert hefur verksamning skylt að auglýsa það.
    Auglýsingar þær sem getið er um í 1. mgr. skulu sendar útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun um útboð eða gerð verksamnings hefur verið tekin.
    Hvers konar birting hér á landi á auglýsingu samkvæmt 1. mgr. er óheimil þar til hún hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar.`` O.s.frv.
    Þetta eru mjög sláandi setningar, hv. alþm., fyrir það sem koma skal í þessum samskiptum á fleiri sviðum en hér eiga við og er ekki verra en hvað annað að hafa til marks um það hvert stefnir í þessu sambandi.
    Herra forseti. Ég tek undir álit minni hlutans um það að best væri að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar enda fullkomlega óljóst, sem betur fer liggur mér við að segja, hvað verður um hið Evrópska efnahagssvæði. Þá gæfist hvort eð er tími til að huga betur að þessu máli, enda liggja hér frv., sem hæstv. ríkisstjórn hafði boðað að afgreiða ætti áður en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði tæki gildi, tugum saman, marflöt. Sum hafa ekki einu sinni komið fram og yrði þess vegna ekki mikill skaði þó að þessi pappír fylgdi með í þeim hópi.