Almannatryggingar

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 10:41:51 (8149)

     Frsm. heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyt. á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, ásamt síðari breytingum. Frv. er flutt af heilbr.- og trn.
    Frv. er einungis tvær greinar og fyrsta greinin hljóðar svo:
    ,,Við 43. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Nú verða útgjöld sjúkratryggðs vegna læknishjálpar og lyfja umtalsverð og er þá heimilt að endurgreiða hlutaðeigandi þennan kostnað að hluta eða að fullu að teknu tilliti til tekna og í samræmi við reglur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið setur.``
    Önnur grein er um það að lög þessi öðlist þegar gildi.
    Virðulegi forseti. Með breyttum reglum um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra geta útgjöld í undantekningartilvikum orðið veruleg. Til að tryggja að þessi útgjöld verði aldrei fjárhagsleg ofraun fyrir sjúkratryggða er hér sett heimildarákvæði um endurgreiðslu á þessum kostnaði að hluta eða fullu. Gert er ráð fyrir að tekið sé tillit til tekna við mat á þessu atriði og að öðru leyti sé fylgt reglum sem ráðherra setur.
    Grein þessi er tekin út úr frv. til laga um félagslega aðstoð sem verið hefur til meðferðar í nefndinni um nokkurt skeið en ekki tókst að ljúka vinnu við það frv.
    Ég tel að málinu þurfi ekki að vísa til nefndar þar sem nefndin flytur málið en legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr.