Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 11:23:54 (8166)

     Frsm. iðnn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frhnál. um frv. til laga um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum. Eins og þingi mun kunnugt þá afgreiddi nefndin frv. upphaflega frá sér með breytingum þann 5. nóv. sl. Síðan komu fram ýmsar gagnlegar athugasemdir við málið við 2. umr. þess og nefndin tók því frv. á ný til umfjöllunar. Hún leggur nú til breytingar á frv. sem taka mið af þessum ábendingum og miða að því að stytta frv. verulega og gera það skýrara. Um leið kallar hún aftur brtt. á þskj. 270. Þau atriði sem lagt er til að felld séu brott eru þess eðlis að annaðhvort er hægt að kveða á um þau í reglugerð eða að þau leiða af eðli máls. Nefndin vill leggja áherslu á mikilvægi þess að þingið afgreiði frv. og bendir í því sambandi á að svæðislýsing smárása í hálfleiðurum er undirstaða hátækniiðnaðar í dag. Það er að vísu svo að ekki eru í dag hannaðar svæðislýsingar smárása í hálfleiðurum hér á landi en margt bendir til að svo geti orðið innan tíðar. Má í því sambandi sérstaklega minna á umræðu um fríiðnaðarsvæði hér á landi þar sem til sögu hafa verið nefnd fyrirtæki sem einmitt byggja undirstöðu sína á slíku. Þess vegna telur nefndin nauðsynlegt að það sé fyrir hendi raunhæf vernd fyrir þessa hönnun og því mikilvægt að vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum verði lögfest sem fyrst.
    Önnur mikilvæg ástæða til þess að þetta frumvarp verði lögfest sem fyrst er vegna alþjóðaskuldbindinga okkar. Evrópubandalagið (EB) setti tilskipun 1986 um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum, sbr. tilskipun ráðherraráðs EB frá 16. des. 1986 (87/54/EBE). Sú tilskipun tók aðeins til ríkisborgara EB-ríkja. En með ákvörðun ráðherraráðsins, dags. 31. maí 1988, var verndin tímabundið einnig látin ná til ríkisborgara ákveðinna landa sem veittu ríkisborgurum EB vernd á þessu sviði á móti eða þar sem unnið var að því að veita ríkisborgurum EB slíka vernd. Þessi ákvörðun ráðherraráðsins tók til íslenskra ríkisborgara. Hinn 21. des. 1992 var áðurnefnd ákvörðun ráðherraráðsins gerð ótímabundin af hálfu EB á grundvelli upplýsinga um að unnið væri að því að veita ríkisborgurum EB samsvarandi vernd á Íslandi. Það er verið að gera með þessu frv., virðulegi forseti.
    Þær breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu, eru eftirfarandi:
    Við 1. gr. Lagt er til að greinin verði stytt verulega. Efni 2. mgr., sem lagt er til að verði felld niður, leiðir af eðli máls og því er ekki talin þörf sérstaks ákvæðis. Sama gildir um efni 4. og 5. mgr. að því leyti sem lagt er til að þær verði felldar niður.
    Við 2. gr. Í frumvarpsgreininni er að finna hugtakaskilgreiningar sem byggðar eru á tilskipun EB um sama efni. Lagt er til að þessum skilgreiningum verði sleppt. Verði síðar talin þörf á slíkum skilgreiningum er mjög handhægt að setja þær í reglugerð.
    Við 3. gr. Í frumvarpsgreininni er kveðið á um hver sé rétthafi verndar og hvernig með skuli farið ef svæðislýsing er hönnuð í vinnusambandi eða samkvæmt annars konar samningi. Lagt er til að þessu ákvæði sé sleppt þar sem eðlilegra er að kveðið sé á um slíkt í sérlögum sem taki til allra hugverkaréttinda.
    Við 5. gr. Lagt er til að felld verði niður skilgreiningin í 2. tölul. á því hvað teljist hagnýting í atvinnuskyni. Einnig er breytt framsetningu 3. tölul. þar sem í upphaflegu frumvarpi var fræg hugtakavilla, sbr. nefndarálit iðnaðarnefndar frá 5. nóv. sl. Að lokum er lagt til að meginefni þess sem áður var

í 1.--4. tölul. 6. gr. frumvarpsins verði fellt inn í 5. gr. og verði 2. mgr. greinarinnar. Hér er einungis um að ræða nýtt orðalag, virðulegi forseti, en ekki felst í því efnisbreyting.
    Við 6. gr. Lagt er til að efni 5. tölul. 6. gr. verði sérstök grein. Efni hennar tekur til hvernig með skuli fara ef einhver hagnýtir sér í atvinnuskyni smárás sem framleidd hefur verið andstætt þessum lögum en án þess að hafa vitneskju um að svo sé. Þetta getur t.d. átt við þá sem flytja inn sjónvörp eða tölvur. Ef einhver lendir í því að kaupa tölvu fyrir atvinnurekstur sinn sem hefur í sér smárás sem er framleidd andstætt þessu frumvarpi þá má sá hinn sami halda áfram að nota tölvuna í atvinnurekstri sínum þótt svo sé ástatt um innviði tölvunnar. Hins vegar er rétthafa svæðislýsingarinnar, sem smárásin er framleidd eftir, heimilt að krefjast þess að viðkomandi greiði sér sanngjarnar bætur frá því tímamarki sem honum mátti vera ljóst að smárásin var framleidd í bága við lög.
    Við 8. gr. Lagt er til, sbr. nefndarálit frá 5. nóv. sl., að sérákvæði þau, sem er að finna í 3. og 4. málsl. greinarinnar, falli niður og venjulegur fyrningarfrestur gildi.
    Við 9. gr. Lagt er til að 2. málsl. greinarinnar falli brott þar sem hann er óþarfur.
    Við 11. gr. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.     Kristín Einarsdóttir og Páll Pétursson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en undir þetta rita án fyrirvara, Össur Skarphéðinsson, form. og frsm., Pálmi Jónsson, Guðjón Guðmundsson, Svavar Gestsson, Finnur Ingólfsson, Vilhjálmur Egilsson og Guðjón A. Kristjánsson.