Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 13:31:16 (8178)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér finnst kenna nokkurrar óþolinmæði hjá hv. þm. Ég hélt að það væri öllum ljóst að það er á valdi forseta að ákveða dagskrá og forseti hefur heimild til þess að taka mál af dagskránni fyrir í þeirri röð sem forseta þóknast. Í gærkvöld var gert samkomulag um að þessi mál sem prentuð eru á dagskránni og við höfum verið að fást við í dag hlytu lokaafgreiðslu hér á þinginu í dag. Ef einhverjir hafa eitthvað við það að athuga, þ.e. að atkvæði gangi um þessi mál og þau hljóti fullnaðarafgreiðslu, verði annaðhvort samþykkt eða felld, þá vil ég gjarnan heyra það strax því að ef svo færi að athugasemdir kæmu fram við það, þá lít ég svo á að þetta samkomulag sem gert var sé í hættu.