Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 13:37:32 (8184)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er í valdi forseta að ákveða það hvaða mál eru tekin fyrir. Ég skildi hennar orð svo, og ég held að það hafi allir gert, að staðið yrði við þetta samkomulag sem ég taldi vera samkomulag um að þessi mál hlytu afgreiðslu, þessi tilteknu mál sem hér eru á dagskrá. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ræðu hv. 8. þm. Reykv., Geirs H. Haarde, því að mér sýndist eins og hann væri að gera því skóna að þetta samkomulag ætti ekki að halda. Ég er nú þolinmóður maður og vil treysta því að þetta sé ekki réttur skilningur og ég vil fá það alveg hreint --- ég þarf ekki að spyrja forseta, hún er búin að svara því að hún tekur málin fyrir til afgreiðslu, en ef hv. 8. þm. Reykv. Geir H. Haarde vill blása af þetta samkomulag, þá er mér þægð í að vita það strax.