Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 13:39:12 (8185)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég vil staðfesta það að skilningur minn á því samkomulagi sem gert var í nótt er sá hinn sami og kom fram í orðum hv. þm. Páls Péturssonar. Vissulega má segja að ekki hafi verið neitt samið um þingfrestunina, það liggur ekkert fyrir um það hvenær hún getur farið fram. Ég hef marglýst því yfir í viðræðum þingflokksformanna að okkur alþýðubandalagsmönnum sé ekkert að vanbúnaði að vera hér í næstu viku ef þörf krefur. Við teljum að það séu fjöldamörg mál sem ræða þurfi miklu betur en gert hefur verið eða gefist hefur tími til hér í þinginu og þar af leiðandi er rétt að hafa það alveg á hreinu að það er ekkert samkomulag um hvenær þingfrestun á sér stað. Hún getur vissulega ekki orðið fyrr en mál hafa verið afgreidd og fengið eðlilega umfjöllun. Mér heyrist að allt tal um það að þingfrestun eigi sér stað hér seinni partinn í dag sé harla óraunhæft að ekki sé nú meira sagt. Hins vegar lít ég svo á að það hafi verið fullt samkomulag um að afgreiða þau mál sem komin voru á dagskrá. Hér er um að ræða mál sem afgreitt hefur verið úr hv. landbn.
    Vegna athugasemdar hv. þm. Vilhjálms Egilssonar um afstöðu stjórnarandstæðinga vil ég taka það fram að við skilum, ég fyrir hönd Alþb. og Kristín Ástgeirsdóttir fyrir hönd Kvennalistans, séráliti vegna EES-þáttarins. Við erum lítið hrifin af þeim þætti málsins sem felst í því að opna fyrir innflutning landbúnaðarvara í kjölfar samnings sem hæstv. utanrrh. gerði núna ( Forseti: Tala um þingsköp.) fyrir skömmu án nokkurs samráðs við landbrn. eins og kunnugt er. En við styðjum aftur á móti þann þátt málsins sem snýr að verkaskiptingu landbrh. og fjmrh. og teljum alveg eindregið að málið eigi að heyra undir landbrh. Þetta varð að koma hér fram úr því að gerð hafði verið athugasemd um þennan þátt málsins. Ég tel afar mikilvægt að sá þátturinn hljóti hér afgreiðslu, það er brýn nauðsyn. Eftir að þessi samningur um innflutning landbúnaðarvara hefur verið undirritaður þá er brýn nauðsyn að hann verði afgreiddur þegar í vor og ég tel að það sé samkomulag um að svo verði, að málið verði afgreitt.