Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 13:44:05 (8187)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði að það hefur ekki legið fyrir neitt formlegt samkomulag hér um þinglok, þingfrestun, en það lá jafnframt fyrir að það væri ekkert sérstakt ósamkomulag um það að reyna að ljúka þessum málum í dag. Það er ekki gerður sérstakur ágreiningur út af því.
    Um þann fund sem við áttum hins vegar í nótt er auðvitað rétt að það komi fram að það var ekkert farið yfir þennan málalista og það var ekkert ákveðið að þau yrðu endilega öll afgreidd. Það var bara ekkert á það minnst að það skyldi fara fram atkvæðagreiðsla um þessi mál. Ég bið hv. 1. þm. Norðurl. v. að rifja það upp með mér hvort við höfum á þessum fundi til að mynda ámálgað það einu einasta orði að ræða hér um ríkisreikning 1991 eða mál sem honum tengjast. Það var auðvitað aldrei gert. Ég nefni þetta sem dæmi. Ég hef ekki nefnt sérstaklega þetta landbúnaðarmál sem menn hafa verið að gera að umtalsefni. Ég segi bara það, sem liggur að sjálfsögðu í augum uppi, að við getum ekki ákveðið á okkar fundum að það verði endilega gengið til atkvæða um hvert einasta mál sem liggur fyrir á dagskránni. Ef það kemur fram ósk einhvers staðar frá um að gera það ekki, þá þarf auðvitað að líta á það mál að nýju.

Þannig er það og með sama hætti og hv. þm. Páll Pétursson óskaði eftir því við mig að ég skýrði mína afstöðu þá er nauðsynlegt að það komi fram strax ef þetta er ekki réttur skilningur.