Vegáætlun 1993--1996

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 14:53:08 (8194)

     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. frsm. minni hluta, hv. 6. þm. Vestf., taldi mig hafa ofsagt í máli mínu þegar ég lýsti því að í áliti minni hlutans væri boðað að þeir þingmenn sem hann skipa mundu sitja hjá við tillöguna og alla liði hennar. Ja, guð láti gott á vita. En vegna þess að hv. þm. taldi að ég mundi ekki hafa lesið þetta nál. þá tel ég ástæðu til þess með leyfi virðulegs forseta að lesa lokasetninguna. Hún hljóðar svo með leyfi forseta:
    ,,Undirritaðir nefndarmenn telja rétt að ríkisstjórnin taki alla ábyrgð á þeim atriðum sem hér um ræðir og munu því sitja hjá við afgreiðslu vegáætlunar eða einstakra liða hennar.``
    Undir þetta skrifar hv. frsm. minni hluta sem hér var að ljúka máli sínu og skýrara getur það ekki verið.