Vegáætlun 1993--1996

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 14:55:15 (8196)

     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég verð að byrja á því að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að það gerðist aftur eins og í fyrra að vegáætlun kemur til umræðu undir lok þingsins þegar nánast enginn tími er til þess að ræða mál og þegar menn eru orðnir uppteknir af mörgum málum sem þrýst er á að komist í gegnum þingið áður en þingmenn fara heim. Þess vegna er ekki tækifæri til þeirrar umræðu sem þyrfti vissulega að fara fram um mótun stefnu í þeim málum sem lögð eru fyrir þingið. Vissulega er full ástæða til gagnrýni á margt sem hér er sett fram, en það er líka ýmislegt sem ég hygg að allir þingmenn mundu verða og eru sammála um í þessari áætlun.
    Það sem hæstv. formaður samgn. var að segja áðan var eitthvað á þá leið að það vekti furðu hans að minni hlutinn hafi ákveðið að ætla að sitja hjá og hann hélt því fram að það væri óvenjuleg afstaða og ekki sérlega hyggileg. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að meiri hlutinn hafi gengið fram í þessum málum með þeim hætti að hann þurfi ekki að vera hissa á því þó að minni hlutinn sé ekki tilbúinn til að rétta upp höndina með því sem hér er verið að gera. Því að slíkar hundakúnstir sem hæstv. ríkisstjórn hefur haft uppi í þessum vegamálum eru sem betur fer ekki mjög algengar.
    Fyrst er gengið í það að skera niður vegáætlun um 565 millj. í fyrra og þegar sú vegáætlun var til umræðu þá gagnrýndi minni hlutinn harðlega hvernig að því væri staðið og benti meiri hlutanum á að í þeim aðstæðum sem væru nú í þjóðfélaginu ættu menn vissulega að halda uppi framkvæmdum í vegagerð. Þetta hefur haft áhrif á hæstv. ríkisstjórn því hún tók sig saman í andlitinu og ákvað að snúa við blaðinu og fara að auka framkvæmdir við vegi landsins. En hvernig gerði hún það? Það var ákveðið að Vegagerðin skyldi taka til þess lán og það hét framkvæmdaátak í vegamálum eða eitthvað slíkt, (Gripið fram í.) í atvinnumálum já, framkvæmdaátak í atvinnumálum. Gott og vel. En hv. frsm. minni hlutans lýsti því vel áðan með tölum hvernig farið var að. Fyrst voru markaðir tekjustofnar skertir og nýjum álögum bætt á Vegasjóð og síðan var tekið lán til þess að bæta upp skerðingarnar. Og eftir sitjum við með það að það kemur út á núlli og illa það, ef borið er saman árið í fyrra og árið í ár. Það sem gert var ráð fyrir til vega og það sem verður unnið fyrir samanlagt á þessum tveimur árum, kemur nánast út á núlli og stóra átakið í vegamálum er orðið að einu stóru núlli.
    Hv. formaður samgn. lýsti því fyrir okkur með tölum áðan að þrátt fyrir allt væri þó meira fé til vegagerðar á þessu tímabili sem fram undan væri heldur en verið hefði á tímabilunum á undan og það er út af fyrir sig rétt hjá honum. En það hafði líka verið gert ráð fyrir því í þeim vegáætlunum sem lágu fyrir að svo yrði. Ríkisstjórnin er í raun og veru að draga úr þeim áformum sem voru í vegáætlun og lágu fyrir og með því að bæta nýjum álögum á Vegasjóð hefur þeim tekist að koma því þannig fyrir, þrátt fyrir sitt stórátak í vegamálum, að þetta kemur allt saman út nokkurn veginn á núllinu.
    En hvernig í ósköpunum á að vera hægt að skrifa upp á svona aðferðir? Og eitt er það að á sama tíma og verið er að taka lán til vegagerðar þá er gert ráð fyrir skerðingum áfram og ekki bara á þessu ári. Látum vera að menn hefðu tekið þessar ákvarðanir eftir að búið var að ákveða að skerða Vegasjóð og færa í ríkissjóð peninga sem áttu að ganga til hans. En þetta ótrúlega gerist að menn setja fram vegáætlun fram í tímann þar sem ákveðið er að halda skerðingunum áfram og lántökunum. Það er sem sagt gert ráð fyrir að halda áfram að færa fé í ríkissjóð frá vegamálunum en halda líka áfram að taka lán vegna stórverkefnisins sem ríkisstjórnin er að hæla sér af. Ég verð að segja alveg eins og er að eftir að hafa séð hvernig stjórnarflokkarnir fóru að því að ákveða sín á milli með hrossakaupum í ríkisstjórnarflokkunum, hvaða verkefni fengju náð fyrir þeirra augum til þess að koma í þennan stórverkefnasjóð þeirra, þetta framkvæmdaátak í vegamálum, þá læðist að manni sá grunur að allt hafi þetta verið gert í því eina augnamiði að geta ráðskast með það, fram hjá þeim áætlunum sem búið var að ákveða í vegamálum, hvaða verkefni yrðu efst á dagskrá í hverju kjördæmi. Nei, ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að það væri mikið geðleysi minni hlutans ef hann sætti sig við svona aðferðir. Ég held að það sé ekki annað fyrir okkur að gera en sitja hjá við einstaka liði vegáætlunar og sitja síðan hjá við afgreiðslu hennar því svona vinnuaðferðir ganga auðvitað ekki. Ég trúi því bara ekki að menn ætli að halda áfram á þessari braut. Það hefði verið hægt að halda uppi framkvæmdum í vegamálum, alveg fyllilega því framkvæmdamagni sem gert er ráð fyrir með þessu stórátaki ef Vegagerðin hefði fengið að njóta sinna tekjustofna. Að maður tali ekki um úr því að menn voru það hugaðir að auka álögur á bíleigendur með því að hækka bensíngjaldið, hvort það hefði ekki verið skynsamlegra og sanngjarnara að nota þá peninga til vegagerðar í landinu heldur en að láta þá renna í ríkissjóð og láta síðan Vegagerðina taka lán á móti því. Þetta er ekki stefna sem minni hlutinn getur skrifað upp á í vegamálum og þess vegna mun hann auðvitað ekki gera það.