Vegáætlun 1993--1996

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 15:03:17 (8197)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði sem ég vildi koma inn í þessa umræðu þegar vegáætlun kemur hér fyrir til síðari umr. eftir að samgn. og þingmenn kjördæmanna hafa fjallað um þær skiptingar á fjármagni sem þar eru fyrir hendi. Það hefur verið farið yfir það við fyrri umr. um till. til þál. um vegáætlun að hún einkennist að nokkru af því að hún inniheldur sérstakt framkvæmdaátak, sem kallað er, sem ríkisstjórnin efndi til vegna atvinnumála. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert og ekki ætla ég að hallmæla því. Það er langt í frá þó að hér hafi auðvitað verið bent á að það er kannski ekki allt sem sýnist í þessum efnum og það fjármagn sem upp er sett ódrýgist af ýmsum ástæðum. Eigi að síður var það þó staðreynd að þarna var 1.550 millj. úthlutað til sérstakra verkefna.
    Það hefur verið deilt á það í 1. umr. um þetta mál hvernig að þeirri úthlutun var staðið og ég vil halda því til skila við þessa síðari umr. og vona að þannig verði ekki staðið að málum aftur ef eitthvað slíkt kemur upp við næstu vegáætlun.
    Ég verð að segja að aðfarir ríkisstjórnarinnar og hæstv. samgrh. og hans samstarfsmanna við að ákveða sérstök verkefni, ákveða það fyrst og láta síðan inn á borð þingmannanna. Það stofnaði því ágæta samstarfi sem verið hefur um skiptingu fjármagns samkvæmt vegáætlun í hættu. Við þingmenn Austurl. lögðum mikla vinnu í að fjalla um þessi mál og gekk á ýmsu lengi vel. En að lokum komumst við að samkomulagi um skiptingu þannig að ég hygg að þessi mál hafi að þessu sinni sloppið fyrir horn hvað okkur snertir. Auðvitað eru þetta vinnubrögð sem eiga ekki að koma fyrir aftur. Ef ráðist er í að flýta framkvæmdum, eins og ég vil kalla þetta, að fara í sérstakt átak sem kallað er og greiða það síðan með framlögum næstu ára, þá eiga þeir fjármunir að koma inn á borð þingmannanna til skiptingar. Ég tek fram varðandi Austurl. að þingmannahópurinn náði samkomulagi um þá skiptingu sem þar um ræðir þannig að hvað okkur snertir má segja að þessi vinnubrögð hafi sloppið fyrir horn.
    Ég ætla ekki að endurtaka það sem var rakið í áliti minni hluta samgn. að það er að sjálfsögðu, þegar tekið er tillit til niðurskurðar á vegáætlun o.s.frv. og þegar ferjur eru komnar inn í og búið að reikna þá fjármuni inn, farið að sneiðast um þessar 1.550 millj. En ég ætlaði ekki að endurtaka þá umræðu.
    Ég vil aðeins koma að því og halda til haga við þessa síðari umræðu um vegáætlun að hlutur sýsluvega og þjóðbrauta liggur mjög útundan í þessari vegáætlun eins og öðrum sem hafa verið afgreiddar á undanförnum árum. Ég ætla ekki að skrifa það á reikning þess hæstv. samgrh. sem nú situr. Það hefur löngum verið svo að hlutur þessarar gerðar vega hefur verið mjög fyrir borð borinn. Hlutur þjóðvega eða þjóðbrauta í þessari vegáætlun er 283 millj. kr. Þjóðbrautir landsins eru lengri heldur en stofnbrautirnar samkvæmt þeim skýrslum sem koma fram í athugasemdum við vegáætlun og eru yfir 4.000 km. Það geta því allir séð að þarna er mikil þörf sem ekki er mætt nema að litlu leyti. Sama er að segja um sýsluvegina. Það hefur verið svo á undanförnum árum að hlutur þeirra hefur verið nokkuð fyrir borð borinn en sýsluvegir landsins eru yfir 3.000 km. Hlutur þeirra í þessari vegáætlun er 160 millj. kr. á þessu ári. Árið 1989 komu sýsluvegirnir til ríkisins við síðustu verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Eftir það hafa ekki verið framlög til sýsluveganna sem svaraði aukaframlegi sveitarfélaganna þannig að framlög til þeirra hafa heldur dregist saman síðan þessi breyting varð. Þetta er eins og ég segi ekki nýtt nú við afgreiðslu þessarar vegáætlunar þannig að ég er ekki að deila á núv. hæstv. samgrh. fyrir þetta mál sérstaklega en ég vil bara benda á að það er þörf á stefnubreytingu í þessum efnum. Þessum atriðum vildi ég halda til haga við þessa vegáætlun.
    Ég ætla ekki að verða langorður um ýmis atriði varðandi Austurl. og tengingu Norður- og Austurlands sem hefur verið til umræðu á undanförnum vikum. Sú tenging er í athugun og ég býst við að þau mál fari í skynsamlegan farveg, það verði gengið í að finna heppilegt vegarstæði á milli Norður- og Austurlands en þau mál eru ekki komin á hreint enn þá hvað varðar leiðirnar frá Grímsstöðum á Fjöllum og austur á Hérað. Sú athugun er komin í ákveðinn farveg sem við vonum að sjálfsögðu að leiði til árangurs á næstu árum.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vildi halda þessum atriðum til haga og vona að þau vinnubrögð verði viðhöfð áfram að þingmannahóparnir fái það hlutverk að skipta þeim fjárhæðum sem ætlaðar eru til vegamála heima fyrir. Ég held að það fyrirkomulag hafi verið farsælt og þingmannahóparnir hafi reynt að gæta eins og kostur er jafnræðis í þeirri skiptingu. Það hefur auðvitað verið deilt á okkur fyrir þá skiptingu oft og tíðum og þingmenn taldir veita fjármunum í vegarspotta hér og þar. Það heyrir maður oft í fjölmiðlum sem kynna sér ekki málin og þá þörf sem er fyrir hendi að laga ófæra vegarspotta og alls konar samgönguhindranir sem eru því miður enn þá hér og þar um landið þrátt fyrir stórkostlegar framkvæmdir í vegamálum undanfarin ár sem vissulega hafa átt sér stað.