Vegáætlun 1993--1996

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 15:27:25 (8202)

     Frsm. minni hluta samgn. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. talaði um að það væri fagnaðarefni að komnar væru nýjar áherslur í vegamálum. Ég vil segja að ég er honum sammála í því ef svo væri. En þær áherslur eru þannig til komnar að ríkisstjórnin býr til framkvæmdaátak þar sem hún getur sjálf tekið fram fyrir verkefni sem ekki voru öll á áætlun og þingmannahópar höfðu fjallað um við gerð áætlunarinnar. Þarna getur ríkisstjórnin sjálf ákveðið hvaða verkefni hún ætlar að taka fyrir með þessum nýju áherslum.
    Til upplýsingar líka. Þetta eru 1.550 millj. eins og við erum oft búin að tala um. Vita menn kannski að þegar ákveðið var að fara út í jarðgangagerð á Vestfjörðum, þá átti að taka að láni til þeirra framkvæmda 1.350 millj. kr.? Ríkisstjórnin sem nú situr byrjaði á því að skera niður 350 millj. kr. á árinu 1991, þar af 200 millj. til Vestfjarðaganga, í fyrra 250 millj., sem átti að taka að láni, hún hætti við það og í ár hætti hún líka við 250 millj. kr. lán. Hún tekur svo 1.550 millj. kr. lán fyrir Vegagerðina. Er þetta ekki leikur með tölur?