Vegáætlun 1993--1996

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 15:47:20 (8207)

     Egill Jónsson :
    Virðulegur forseti. Samgöngumálin eru vissulega hugstæð, ekki síst þeim þingmönnum sem eiga kjördæmi úti á landsbyggðinni. Ég hlýt að fagna þeirri niðurstöðu sem fengist hefur við afgreiðslu þessarar vegáætlunar sem hér hefur farið fram.
    Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um skiptingu vegafjár hefur vissulega verið umdeild. Ég get ekki betur séð, a.m.k. þar sem ég þekki til, en hún samrýmist í meginatriðum skoðunum bæði alþingismanna og

fyrirsvarsmanna í héraði a.m.k. hvað Austurland varðar.
    Ég tek undir og staðfesti það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði fyrr í þessari umræðu að þingmenn Austurl. hefðu náð samkomulagi. Sannast sagna þá hafa oft verið gerðar meiri tilfærslur og breytingar frá því að vegáætlun hefur verið tekin til umfjöllunar í Austurlandskjördæmi og þar til henni hefur lokið. Það verður að segjast rétt eins og er. Þannig vænti ég að það sé nú reyndar í fleiri kjördæmum, að á næstu árum næst grundvallarárangur í vegaframkvæmdum á Austurl. Meginhlutinn af leiðinni frá Reykjavík austur til Hornafjarðar verður á næstu árum lagður bundnu slitlagi. Ég hygg að í þessari áætlun muni það vera innan við einn tugur km sem þar stendur út af. Eins er um tengingu Norðfjarðar inn á hið almenna vegakerfi, að þeim verkefnum að leggja bundið slitlag þar um næst að mestu leyti á næsta ári. Sama má segja um Seyðisfjörð, á áætluninni næst í meginatriðum að koma bundnu slitlagi til Seyðisfjarðar. Þarna er því alls staðar um góðan árangur að ræða. Síðan eru í þann veginn að hefjast framkvæmdir við brúarbyggingu yfir Jökulsá á Dal sem er auðvitað mjög mikilvægt verkefni og byrjunarframkvæmd til að tengja saman Norður- og Austurland. Í þessari umræðu sem spannst náttúrlega af ákvörðun ríkisstjórnarinnar var lengi sá misskilningur að aðrir hlutar kjördæmanna mundu líða fyrir þær ákvarðanir sem þar voru áherslur um. Hvað Austurland varðar þá er niðurstaðan sú að svo er ekki heldur þvert á móti. Nálega allar þær framkvæmdir og kannski allar, sem gildandi vegáætlun gerði ráð fyrir, sem samþykkt var á árinu 1991 á kosningaári og var býsna bjartsýn, ná fram að ganga samkvæmt þeirri áætlun. Að auki er að vissu leyti á ýmsum stöðum bætt um betur.
    Það er út af fyrir sig rétt sem komið hefur fram og má til sanns vegar færa að hér sé um flýtifjárveitingar að ræða og flýtiframkvæmdir en þær koma sér jafn vel fyrir því. Ég sé það fyrir mér við gerð næstu vegáætlunar sem næði þá væntanlega til ársins 1997 að þá yrði búið að leggja bundið slitlag og byggja upp vegi á meginhlutann af hringvegakerfinu á Austurlandi og komnar góðar tengingar bæði til Norðfjarðar og Seyðisfjarðar. Það sem stendur þá helst út af er norðurjaðar kjördæmisins. Þess vegna hlýt ég að fagna því alveg sérstaklega að ákvarðanir skuli hafa verið teknar um að byggja veg á milli Norður- og Austurlands sem er áreiðanlega eitt mesta framfaramál í vegaframkvæmdum sem Austfirðingar standa nú frammi fyrir.
    Mér fannst ástæða til að vekja athygli á þessari niðurstöðu, virðulegur forseti, og að sjálfsögðu styð ég þær tillögur sem hér liggja fyrir.