Jöfnunartollur á skipasmíðaverkefni

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 16:07:29 (8211)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. efh.- og viðskn. um till. til þál. um jöfnunartoll á skipasmíðaverkefni.
    Nefndin sendi þessa tillögu til umsagnar ýmissa aðila og fékk jákvæðar umsagnir frá flestum þeim sem skiluðu þeim inn. Nefndin telur málið allrar athygli vert og leggur til að úttekt fari fram á því á grundvelli gildandi laga þeirra milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að. Í ljósi þess er lagt til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Það voru ýmis atriði í sjálfum tillögutextanum sem voru þess eðlis að nefndinni þótti rétt að fara þessa leið frekar en að breyta sjálfum textanum eða samþykkja hann óbreyttan. Þar á meðal var fjallað um það í tillögunni að verja ætti tekjum af gjaldi þessu til tiltekinna verkefna. Eins var vitnað sérstaklega í tollalög varðandi jöfnunartolla á skipasmíðaverkefni og síðast en ekki síst var miðað við það í tillögunni að tollurinn tæki til samninga sem gerðir verða eftir 16. sept. 1992 sem er nú liðinn fyrir alllöngu síðan. Það voru því ýmis atriði í tillögugreininni sjálfri sem gerðu það að verkum að nefndin taldi heppilegra að fara þessa leið. Ég vil taka það fram að nefndin var almennt séð jákvæð fyrir málinu og hvetur ríkisstjórnina eindregið til þess að gera þá úttekt sem talað er um í nál. þannig að það geti komið aftur fyrir þingið í því formi sem samræmist þeim milliríkjasamningum sem við höfum gert og verða þá lagðar til þær breytingar á tollalögum sem þarf til þess að við getum uppfyllt þau ákvæði þeirra samninga.