Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 16:17:39 (8217)

     Frsm. minni hluta utanrmn. (Páll Pétursson ):
    Frú forseti. Á þskj. 1236 er álit minni hluta utanrmn. Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk á sinn fund til viðræðna um efni hennar Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu, Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, Jóhann Guðmundsson, deildarstjóra í landbúnaðarráðuneytinu, og Gunnar Snorra Gunnarsson, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu.
    Sjálfur fríverslunarsamningurinn er með hefðbundnu sniði og í honum eru sams konar öryggisákvæði og í öðrum fríverslunarsamningum sem ríki EFTA hafa gert að undanförnu. Þessi öryggisákvæði öðlast hins vegar nýja merkingu þegar Ísrael á í hlut þar sem það hefur hertekið og innlimað í ríki sitt stór svæði sem byggð eru Palestínumönnum.
    Það er algerlega á valdi stjórnvalda í Ísrael, eins og annarra aðila að sambærilegum samningum, að ákveða hvenær og hvernig þeir beita öryggisákvæðunum. Þannig segir í 24. gr. samningsins að ekkert ákvæði samningsins komi ,,í veg fyrir að aðili geri ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar: a) til að koma í veg fyrir uppljóstranir sem eru andstæðar mikilvægum öryggishagsmunum, b) til að vernda mikilvæga öryggishagsmuni.`` Í krafti þessa ákvæðis geta stjórnvöld í Ísrael sem hægast beitt fyrirtæki Palestínumanna á herteknu svæðunum hvers kyns viðskiptahindrunum og gert þeim erfitt og jafnvel ókleift að stunda viðskipti við fyrirtæki EFTA-ríkjanna.
    Samningnum fylgir samkomulag milli EFTA-ríkja og Ísraels um útflutning frá ,,yfirráðasvæðunum``. Þar tekur Ísrael að sér að ,,koma á fyrirkomulagi sem gerir slíkan útflutning kleifan án hindrana af hálfu stjórnvalda``. Í þessu samkomulagi segir m.a. að ,,arabískum verslunarráðum á yfirráðasvæðum verði heimilað að gefa út vottorð um uppruna``. Eftir því sem næst verður komist er lítið hald í þessu ákvæði þar sem stjórnvöld í Ísrael hafa beitt því fyrir sig í samskiptum við EB að slíkir aðilar séu ekki til.
    Hinn pólitíski þáttur þessa samnings hlýtur að vega þungt og þingmenn verða að svara þeirri áleitnu spurningu hvort rétt sé að taka upp fríverslun við ríki sem byggir á kynþáttaaðskilnaðarstefnu og hefur margsinnis gerst brotlegt við Genfarsáttmálana um stríðsglæpi og vernd óbreyttra borgara á stríðstímum, nú síðast með því að reka hundruð Palestínumanna í útlegð úr eigin landi. Þá hefur Ísrael neitað að virða ályktanir Sameinuðu þjóðanna um sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna og mannréttindabrot Ísraelsmanna á herteknu svæðunum.
    Þá vísar minni hlutinn til ályktunar Alþingis frá 18. maí 1989 um deilur Ísraels og Palestínumanna sem birt er með nefndarálitinu sem fylgiskjal I.
    Minni hlutinn telur hvorki pólitískar né viðskiptalegar forsendur til að gera þennan samning. Með samningnum er ekki hægt að tryggja frjáls og hindrunarlaus viðskipti við fyrirtæki Palestínumanna á herteknu svæðunum né koma í veg fyrir að þeim sé mismunað í viðskiptum. Minni hlutinn leggst því gegn afgreiðslu þessa máls og mun greiða atkvæði gegn staðfestingu á samningnum.
    Undir nál. rita Páll Pétursson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur Hermannsson og Hjörleifur Guttormsson.
    Eins og ég sagði áðan þá er hér prentað með ályktun Alþingis um deilur Ísraels og Palestínumanna sem var samþykkt á Alþingi 18. maí 1989. Þingheimi til fróðleiks þá vil ég, með leyfi forseta, vitna til hennar. Hún er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að lýsa áhyggjum sínum yfir því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og telur það stöðuga ógnun við heimsfriðinn.
    Alþingi skorar á ísraelsk stjórnvöld að koma í veg fyrir manndráp á varnarlausum borgurum og leggur áherslu á að þau virði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Nauðsynlegt er að báðir aðilar forðist ofbeldisverk.
    Alþingi styður kröfuna um að tafarlaust verði haldin alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila. Nauðsynlegt er að báðir aðilar sýni raunverulegan samkomulagsvilja og viðurkenni rétt hvor annars í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóvember 1947 sem ásamt ályktunum öryggisráðsins nr. 242 frá 1967 og nr. 338 frá 1973 eru sá grundvöllur er skapað getur varanlegan frið og öryggi í Austurlöndum nær.
    Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Einnig ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, PLO.``
    Svona hljóðaði ályktun Alþingis sem samþykkt var 18. maí 1989. Okkur sýnist í minni hlutanum að gerð fríverslunarsamnings undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja séu alls ekki í samræmi við þessa ályktun.
    Frú forseti. Niðurstaða okkar sem skipum minni hluta utanrmn. er sú að við leggjumst gegn fullgildingu þessa samnings.