Staða iðnaðarins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 16:37:55 (8220)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Það er reyndar ekki óvenjulegt að ræður hv. 2. þm. Vestf. séu makalaus og rakalaus runa af stóryrðum og órökstuddum fullyrðingum. Svo var enn í dag. Satt að segja hljóta menn að velta því fyrir sér hvort þetta stafi af glámskyggni á staðreyndir og samhengi efnahagslífsins eða vísvitandi ósvífni í málflutningi. Sjálfur hallast ég að fyrri skýringunni.
    Hv. þm. hélt því fram að eiginfjárstaða iðnaðarins hefði samkvæmt skýrslum Þjóðhagsstofnunar versnað á þeim tíma sem ég hef farið með málefni iðnaðarins í ríkisstjórn Íslands. Það er rangt. Það getur hv. þm. sannfærst um með því að skoða það efni sem Þjóðhagsstofnun hefur birt. Frá árinu 1988 til ársins 1991 hefur eiginfjárstaða iðnaðarins batnað hvert ár, þó ekki sé í stóru þá er það samt stefnan.
    Ég nefni það líka að hv. þm. spyr: Hvers vegna fækkar störfum í iðnaði? Hvers vegna minnka umsvif hans? Hann hefur spurt að það geti varla stafað af því að sjávarútvegurinn hafi orðið fyrir afturkipp. Þetta er nú svona álíka eins og greining Munchhausens baróns á stöðunni þegar hann sagði: Ekki ber hesturinn það sem ég ber.
    Ég spyr þennan hv. þm.: Hvað er það sem hann heldur að ráði mestu um eftirspurn eftir iðnvarningi á Íslandi? Það er að 90% eða því sem næst, þjóðarútgjöldin okkar sjálfra hafa dregist saman af ýmsum ástæðum og ofan á þetta bætast svo erfiðleikar í útflutningi iðnaðarins, brottfall markaðar fyrir ullarvörur í Sovétríkjunum og verðfall og erfiðleikar á ál- og kísiljárnmörkuðum sem við þekkjum öll.
    Það er einu sinni þannig að okkar iðnaður starfar fyrir útveginn, hann starfar fyrir fólkið, hann nærist af framkvæmdum og þegar afturkippur verður í okkar útgjöldum þá hlýtur iðnaðurinn að laga sig að því. Sannleikurinn er sá að okkar iðnaður hefur að mörgu leyti staðið sig vel við erfið skilyrði. Þeir sem sjá ekki neitt annað en hnignun hvert sem þeir líta eru veruleikafirrtir. Tölurnar sýna reyndar að allar slíkar staðhæfingar eru einföldun sem styðjast við einstök dæmi en ekki yfirsýn yfir greinina í heild eða yfir langan tíma sem er það eina sem vit er í. Hlutdeild iðnaðarins hefur reyndar haldist hér betur uppi en í flestum nálægum löndum þegar við lítum yfir síðustu 10--20 ár. Við eigum ekki að horfa á eitt og eitt ár í hagsveiflunni.
    Það hefur orðið heldur lækkun í hlutfalli iðnaðarins af mannaflanum. Þetta er þróun sem gætir í öllum ríkum löndum. Ástæðan er mikill vöxtur þjónustugreina og ekki síður að fjöldi starfa í iðnaði er ekki lengur áreiðanlegur mælikvarði á umsvif hans eða árangur vegna þess að óglögg skil eru á milli starfa í iðnaði og þjónustu. Breytingar á tækni, ekki síst upplýsingatækni, valda því að störf sem áður töldust til iðnaðar teljast nú til þjónustu. Þetta á t.d. við um iðnfyrirtæki sem geta núna keypt að m.a. ræstingarþjónustu, tölvuþjónustu, tækniþjónustu, auglýsingaþjónustu og sendibílaþjónustu í stað þess að standa að þessu

innan sinna vébanda. Við þetta færast auðvitað störfin í hagskýrslunum frá iðnaðinum til þjónustunnar. Þetta hefur líka gerst í öðrum grónum greinum og er ekkert nema gott um að segja og er mælikvarði á árangur þjóðarinnar til betra lífs.
    Þetta eru staðreyndirnar. Auðvitað verða menn að átta sig á því að þegar erfiðleikar steðja að okkar sjávarútvegi og í útflutningi þá koma þeir fyrr eða síðar niður í iðnaðinum. Sannleikurinn er sá, gagnstætt því sem kom fram í máli hv. 2. þm. Vestf., að afkoma iðnaðarins hefur verið með betra móti undanfarin ár. Ég man ekki betur en formaður hans flokks, Framsfl., hafi minnst á það alveg sérstaklega á mánudagskvöldið í eldhúsdagsumræðunum að afkoma iðnaðarins hefði verið hin besta árið 1990 á þeim áratug sem hófst 1980. Þá var sami maður iðnrh. og nú, sá sem hér stendur. Árið 1991 var afkoma iðnaðarins líka með betra móti, þau tvö ár saman eru án efa eitt af betri skeiðum í iðnaðarsögunni síðustu 10 árin. Það er rétt að nú blæs í móti árin 1992 og 1993 vegna þess að þjóðarútgjöldin dragast saman, velta iðnaðarins rýrnar, afkoma hans slaknar. Ég veit að búist er við verulegum halla á þessu ári en við munum vinna okkur upp úr því. Það sem er áberandi í erfiðleikum hins almenna iðnaðar er að sjálfsögðu m.a. það að útflutningurinn dregst saman og ég geri ekki lítið úr þeim erfiðleikum. Það sem skiptir náttúrlega mestu máli er að búa iðnaðinum slík skilyrði að hann geti dafnað. Ég leyfi mér að vekja athygli á því að einmitt á starfstíma þessarar stjórnar hefur mjög margt verið gert til að bæta starfsskilyrði iðnaðarins.
    Ég ætla, með leyfi forseta, að rekja nokkur atriði því til sannindamerkis.
    Í fyrsta lagi nefni ég afnám aðstöðugjalds og lækkun tekjuskatts fyrirtækja, hvort tveggja langþráð breyting frá sjónarhóli iðnaðarins.
    Í öðru lagi nefni ég að framlag hins opinbera til nýsköpunar, rannsókna og þróunar hefur í vaxandi mæli beinst til iðnaðar. Sama gildir um hvatningu til stofnunar smárra fyrirtækja víða um land eins og hv. þm. er kunnugt um frá störfum sínum í fjárlaganefnd.
    Í þriðja lagi að verðmyndun á innlendum iðnaðarvörum hefur verið gefin frjáls.
    Í fjórða lagi að aðflutningsgjöld og tollar af aðföngum iðnaðarins hafa almennt verið lækkaðir eða felldir niður.
    Í fimmta lagi að opnun fjármagnsmarkaðarins og frelsi til lántöku þar sem menn fá best kjör hefur skapað iðnaðinum alveg ný skilyrði.