Staða iðnaðarins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 16:43:31 (8221)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þessa athyglisverðu ræðu sem sýndi auðvitað ekkert annað en það að hann hefur setið í þessum stól nú um nokkuð langt skeið án þess að gera sér grein fyrir hinum ytri veruleika. Satt að segja var ræðan, þó ástæða sé til að þakka fyrir hana, heldur dapurleg heimild um það að slíkur maður skuli hafa valist til forustu í iðnaðarmálum Íslendinga.
    Hér er ekki verið að slá fram neinum almennum fullyrðingum, það er verið að tala um hluti sem allir sjá. Allir vita t.d. að félagsmönnum meðal iðnverkafólks hefur fækkað stórkostlega í þessu landi. Það vita allir t.d. hvernig komið er fyrir iðnaðinum á Akureyri, í einum blómlegasta iðnaðar- og atvinnubæ landsins um áratugabil. Menn vita hvernig ástandið er í atvinnumálum á Akureyri. Þeir þekkja líka tölur sem hafa verið að birtast síðustu daga m.a. frá Þjóðhagsstofnun. Hvað segja þær um útflutningsiðnaðinn? Þær segja að árið 1989 er samdrátturinn í útflutningsiðnaði 6,5%, árið 1990 11,5% og í fyrra 14,5%, þ.e. á árinu 1992, 1991 og 1990, það eru þessi ár sem ég er að tala um. Samdrátturinn frá árinu 1989 í útflutningsiðnaðinum, hver er hann? Hann er 1 / 3 . Ef við skoðum skipasmíðaiðnaðinn sem var verið að ræða um áðan þá kemur upp svipuð mynd. Ef við skoðum markaðshlutdeild innlendra iðnaðarvara árið 1977--1991 í þingskjali sem iðnrn. dreifði hér í fyrra þá kemur í ljós svipuð mynd. Ef við skoðum markaðshlutdeild innlendra iðnaðarvara árið 1977--1991 í þingskjali sem iðnrn. dreifði í fyrra þá kemur í ljós að markaðshlutdeild innlendra iðnaðarvara hefur hrunið á nánast öllum sviðum. Ef hæstv. iðnrh. telur það gott ástand sem þessar tölur tala um þá er það slæmt fyrir þjóðina og dapurlegt fyrir hann og skýringarnar á þessu ástandi iðnaðarins eru tvær. Það er í fyrsta lagi oftrú á stóriðjuna og í öðru lagi sú efnahagsstefna sem viðskiptaráðherrann í landinu, sem er sami maður, hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum.