Staða iðnaðarins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 16:56:16 (8227)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er nokkuð mikið í húfi þegar sjálfur formaður Alþfl. sér ástæðu til þess að koma hér upp til þess að slá skildi fyrir garpinn Jón Sigurðsson. Þetta er kannski gert af mannúðarsjónarmiðum. Satt að segja finnst mér að þessi umræða jaðri nánast við það að ganga gegn eðlilegum mannúðarsjónarmiðum eins og staðan er og miðað við það að hæstv. iðnrh. er að kveðja þennan vettvang. Þessi vettvangur, sem hann hefur verið trúnaðarmaður fyrir síðan 1987 að mig minnir, er
jafnilla leikinn og raun ber vitni þó auðvitað sé það ekki svo að þar sé allt í kalda koli. Það er hægt að taka undir það með hæstv. iðnrh. að það er mesta furða hvað iðnaðurinn hefur tórt þrátt fyrir --- þrátt fyrir stjórnarstefnuna og þrátt fyrir aðgerðaleysið og þrátt fyrir stóriðjutrúna og einsýnina sem hefur ráðið ferðinni hjá hæstv. iðnrh. Hæstv. iðnrh. er velviljaður maður og vill vel, það efa ég alls ekki. En ráðherrann hefur bara haft, sennilega allt frá fæðingu ég veit það að vísu ekki, rangt forrit til að sigla eftir. ( ÓÞÞ: Það er ekki frá fæðingu.) Það hefur auðvitað komið í ljós í störfum hans þessi ár í ráðuneytinu, líklegast sex til sjö ár og þetta er auðvitað orðið afskaplega dýrkeypt. Það er rétt sem hér hefur verið sagt að það var aðeins horft á eitt, að hæstv. utanrrh. á meðan hann var ritstjóri Alþýðublaðsins 1980 sá sem eina ljós í myrkri álverið í Straumsvík og hæstv. iðnrh. þegar hann var settur til verka af formanni flokksins þá benti hann honum á þetta ljós og ráðherrann fylgdi því mjög fast eftir og hann hafði þannig trú sem við hljótum að rifja hér upp að lokum, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, og fullyrti það í heilt ár, sem aðalatriði í þessu máli, að eitt tonn af áli jafngilti einu tonni af þorski upp úr sjó. Þessu trúði maðurinn, þjóðhagsstjóri enn í embætti og þó það væri fimmföld della, en það verður ekki hægt að lá mönnum það fyrst þeir eru sem sagt ekki betur upplýstir og ganga með forskrift af þessum toga.