Staða iðnaðarins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 17:01:46 (8229)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er óumdeilanleg staðreynd sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn að á undanförnum missirum hvernig mál hafa þróast í okkar iðnaði. Það er þannig að okkar samkeppnis- og útflutningsiðnaður hefur nánast verið að hrynja á undanförnum árum. Það er ekki hægt að kalla samdrátt í markaðshlutdeild samkeppnisiðnaðarins og hrun útflutningsiðnaðarins að slepptu áli og kísiljárni sl. þrjú til fjögur ár, það er ekki hægt að kalla þær tölur annað en hrun. Því hvað verður eftir af iðnaðinum eftir segjum önnur þrjú til fjögur ár eða sex til átta ár ef svo heldur sem horfir? Svarið er einfalt, ekki neitt. Ef það kemur þriðjungur á hverjum þremur árum þá er auðvelt að reikna það út. Staðreyndin er auðvitað sú að þegar þetta svo leggst við erfiðleikana í sjávarútvegi þá er hér um gríðarlega alvarlegt ástand að ræða. Hæstv. iðnrh. lifir greinilega í draumaheimi, einhverjum allt öðrum veruleika en aðrir landsmenn. Kemur hér í ræðustólinn og telur ástandið vera harla gott og segir að það megi ekki taka of mikið mark á því þó starfsfólki fækki. Sama segir hv. þm. Vilhjálmur Egilsson því það geti vísað á framleiðniaukningu. Gott og vel. En þegar markaðshlutdeildin hrynur, þegar útflutningurinn dregst saman um þriðjung á þremur árum þá kemur það engri framleiðnispurningu við. Greinin er ósköp einfaldlega að skreppa saman sem þessu nemur ( Gripið fram í: Hvar er skipaiðnaðurinn og húsgagnaiðnaðurinn?) Svo kemur hér hæstv. ráðherra, Jón Sigurðsson hæstv. iðnrh. sem átti sér drauminn um álverið. Staðreyndin er sú að út úr skipasmíðaiðnaðinum einum hefur á stjórnartíma hæstv. iðnrh. tapast svipaður mannafli og átti að koma í álverinu. Á tímanum sem eytt var í viðræður um álver sem aldrei kom töpuðu menn öðru álveri í störfum í skipasmíðaiðnaðinum. Þannig að sennilega er það svo að eftirmæli eftir hæstv. iðnrh. verða ekki aðeins þau að hann sé ráðherra álversins sem aldrei kom heldur sé hann líka hins tapaða álvers í skipasmíðaiðnaðinum á starfstíma sínum.