Staða iðnaðarins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 17:04:32 (8230)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ekki vil ég úr því draga að ýmsir erfiðleikar hafi steðjað að iðnaðinum og ekki síst hafa okkar útflutningsmarkaðir reynst okkur örðugir viðfangs. En eins og ég rakti áðan hafa mjög mikilvæg skref verið stigin til að skapa iðnaðinum vaxtarskilyrði til að greiða fyrir þeim breytingum sem óhjákvæmilega eru í greininni til að hún geti vaxið og dafnað.
    Hér hafa menn lýst ákaflega erfiðu ástandi í iðnaði og dregið þá mynd dökkum litum. Mig langar til að kveðja til vitni af vettvangi lífs og starfs, formann Félags íslenskra iðnrekenda en hann sagði einmitt á ársþingi þeirra núna í mars, með leyfi hæstv. forseta:     ,,Íslenskur iðnaður er ótrúlega fjölbreyttur miðað við stærð þjóðarinnar. Geysimikil gróska er hjá ungum hönnuðum sem leggja metnað í verk sín eins og nýafstaðin umbúðasamkeppni og hönnunardagur bera vitni um. Evrópudyrnar eru að opnast upp á gátt sem auðveldar fyrirtækjunum að efla alþjóðleg tengsl sín og tækifæri til að auka erlenda fjárfestingu í landinu er að mestu ónotuð. Við sem störfum í iðnaði höfum trú á því að íslenskur iðnaður eigi framtíðina fyrir sér. Þess þarfnast þjóðin svo sannarlega.``
    Svo mörg voru þau orð. Berum nú saman þann anda sem vakir í þessu máli við það sem hér hefur komið fram af munni þingmanna stjórnarandstöðunnar. Ég tek undir orð formanns Félags íslenskra iðnrekenda og ég vil láta þess getið hér að ég hef að undanförnu átt fundi um nauðsyn nýsköpunar víða um land og þar er ólíku saman að jafna að heyra einlæga viðleitni þeirra sem starfa í greininni sjálfri til að finna ný verkefni, hugkvæmni, grósku, kjark og bera það svo saman við það sem maður heyrir af munni hv. 2. þm. Vestf. og fylginauta hans í þessari umræðu.
    Ég hef trú á því að hv. þm. muni ekki hafa kynnt sér nægilega vel það sem er að gerast í íslenskum iðnaði eða atvinnulífinu yfirleitt. Þar eru að gerast hlutir einmitt vegna erfiðleikanna sem hafa knúið fram breytingar. Menn eru að vinna sig út úr vandanum og leggja grunn að nýju framfaraskeiði í íslenskum atvinnumálum. Ég læt mér í léttu rúmi liggja einkunnirnar sem hann og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn hafa valið mér hér. Ég bíð rólegur dóms þeirra, sem starfa í greininni, og framtíðarinnar sem mun leiða það í ljós að þessar breytingar eru einmitt það sem þarf þótt þær kunni stundum að hafa verið sársaukafullar.