Ummæli utanríkisráðherra um landbúnaðarmál

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 17:13:07 (8235)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú orðið erfitt að halda áfram þingstörfum hér með eðlilegum hætti fyrir þessum endalausu umræðum hæstv. utanrrh. undir liðnum þingsköp þar sem hann ræðir gjarnan hin óskyldustu mál, ólíkustu mál. En ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs var að þakka hæstv. forseta, sem nú situr í þeim stóli fyrir þann hátt sem hún tók upp við skipulag umræðunnar utan dagskrár þar sem hún kaus kannski í ljósi reynslunnar eða hvað frá í gær þegar hæstv. utanrrh. trylltist sem mest hér í stólnum að hafa ráðherrann næstsíðastan en fyrirspyrjanda síðastan. Mér finnst að hæstv. forseti sem nú situr eigi sérstakar þakkir skildar fyrir að hafa tekið svona á þessu máli í ljósi þess óðagots sem greip hæstv. utanrrh. og enginn skildi þá af hverju var en við vitum núna skýringuna. Það var af því að hann er að tapa búvörustríðinu. Mér er auðvitað ljóst, hæstv. forseti, að það eru ekki þingsköp þannig að ég mun láta máli mínu lokið að sinni.