Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 17:54:19 (8240)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram í ræðu hv. málshefjanda og er reyndar ekki nýtt af nálinni og hefur komið fram áður í umræðum hér á þinginu á undanförnum vikum að sjávarútvegurinn á nú við mikinn rekstrarvanda að etja. Meginástæðan fyrir því eins og kunnugt er á rætur að rekja til þess að afli er nú minni en áður og verðfall hefur orðið mjög mikið á erlendum mörkuðum síðustu mánuði. Við þessari þróun hefur verið brugðist og verður brugðist á næstunni. Sjávarútvegurinn sjálfur hefur þó fyrst og fremst tekist á við þetta verkefni. Hann hefur lagað sig að breyttum aðstæðum og mætt nýjum aðstæðum með ótrúlegum árangri í því að auka framleiðni innan atvinnugreinarinnar. Ef við lítum á einfaldar staðreyndir í þessu efni þá kemur í ljós að á sl. tveimur áratugum hefur framleiðni vinnuaflsins í sjávarútveginum aukist um 72% á meðan framleiðni vinnuaflsins í heild í þjóðfélaginu hefur aukist um 38%. Ef við horfum svo á tímabilið frá 1973--1990 að því er varðar framleiðni fjármagnsins þá kemur í ljós að það hefur aukist um 4% í sjávarútveginum en minnkað um 14% þegar litið er á atvinnulífið í heild sinni. Og ef við horfum á hinn almenna iðnað að stóriðjunni frátalinni þá hefur framleiðni fjármagnsins á þessu tímabili minnkað um 40% á meðan hún hefur aukist um 4% í sjávarútveginum. Þannig hefur sjávarútvegurinn sjálfur tekist á með stórkostlegum hætti við innri vanda og lagt mjög verulegan skerf til að bæta stöðu sína. Og auðvitað skiptir það mestu máli að stjórnendur og starfsfólk atvinnugreinarinnar vinni að þessu verki. Og það hefur það sannarlega gert.
    Því eru auðvitað takmörk sett hversu langt er hægt að ganga í þessu efni og hversu miklar kröfur er hægt að gera. En vissulega er það svo í þeim þrengingum sem við búum við í dag að það þarf að leggja meiri kvaðir bæði á starfsfólk og stjórnendur atvinnugreinarinnar til að ná aukinni framleiðni þrátt fyrir þennan mikla árangur. Og það er áhyggjuefni að á sama tíma og sjávarútvegurinn hefur náð þessum árangri þá hefur annar iðnaður í landinu dregist saman. Hlutdeild sjávarútvegsins í heildarútflutningi landsmanna hefur vaxið á undanförnum árum meðan hlutdeild annarra atvinnugreina í útflutningsverðmætunum hefur dregist saman. Þetta er áhyggjuefni ekki bara fyrir þjóðarbúið í heild sinni heldur líka fyrir sjávarútveginn. Því það er kappsmál að minni hyggju fyrir þjóðfélagið og sjávarútveginn að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Og því miður eru lítil skilyrði eins og sakir standa til að önnur atvinnustarfsemi geti vaxið og dregið úr hlutfalli sjávarafurðaframleiðslunnar í útflutningi landsmanna.
    Ríkisstjórnin hefur á undanförnum 14--15 mánuðum gripið til margháttaðra ráðstafana til að mæta breyttum ytri aðstæðum sjávarútvegsins. Í fyrsta lagi var tekin um það ákvörðun að fresta afborgunum af lánum sjávarútvegsins í tvö ár í atvinnutryggingadeild og mælast til þess við Fiskveiðasjóð og aðrar lánastofnanir að þær skuldbreyttu og lengdu lán sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þau eru nú afborgunarlaus í atvinnutryggingadeildinni. Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins var greiddur út á sl. ári til þess að mæta erfiðleikum um stundarsakir. Aðstöðugjaldið var afnumið og loks í fjórða lagi var gengi krónunnar lækkað í nóvember sl. og það bætti afkomu greinarinnar um 4--5% og hún væri nú að þeim mun lakari ef ekki hefði verið gripið til þeirra aðgerða. Síðan þá hefur sigið á ógæfuhliðina fyrst og fremst vegna þess að verð hafa farið lækkandi mánuð eftir mánuð. Við þurfum nú að horfast í augu við þær staðreyndir.
    Aðilar vinnumarkaðarins hafa verið í viðræðum sín á milli og við stjórnvöld. Því miður slitnaði upp úr þeim viðræðum eða varð uppstytta í þeim en á þeim vettvangi voru menn m.a. að ræða um forsendur efnahagslífsins og aðgerðir til að bæta rekstrarstöðu útflutningsgreinanna. Í raun og veru má segja að sjávarútvegurinn þyrfti að búa við þær aðstæður að það væri jafnvægi í viðskiptunum við útlönd.
    Sá árangur hefur náðst í efnahagsstjórn undanfarinna ára að viðskiptahallinn tvö undanfarin ár hefur farið minnkandi og sá árangur hefur auðvitað hjálpað til við að mæta þeim erfiðleikum sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir. Stöðugleikinn skiptir sjávarútveginn miklu máli. Eins og sakir standa myndi lækkun vaxta vitaskuld hafa gífurlega þýðingu. Á það er þó að líta að stór hluti af vaxtabyrði sjávarútvegsins er vegna erlendra lána. Við ráðum ekki miklu um þróunina á þeim markaði. Sem betur fer hafa vextir erlendis farið heldur lækkandi en þó hvergi nærri til að mæta þessum nýja vanda. Allar almennar ráðstafanir sem gerðar eru til þess að bæta rekstrarskilyrðin fela í sér tilfærslu. Það er ekki unnt við þessar aðstæður að auka ágóða eða hagnað sjávarútvegsins nema þjóðin í heild sé reiðubúin til þess að draga saman og sætta sig við lakari lífskjör meðan við erum að vinna okkur út úr kreppunni. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að talsmenn Alþb. skuli játa þeirri staðreynd hér. En öllum má vera það ljóst að það er vandasamt og ekki einfalt að standa að aðgerðum í því efni þannig að um þær sé bærileg sátt milli launafólksins í landinu, þannig að þær skili útflutningsatvinnuvegunum raunverulegum afkomubata.
    Við eðlilegar aðstæður á sjávarútvegurinn að skila að meðaltali góðum hagnaði. Við ríkjandi aðstæður er þess varla að vænta að við getum gert þær ráðstafanir í einu vetfangi að sjávarútvegurinn verði rekinn að meðaltali á núlli. En það er alveg ljóst að við svo búið má ekki standa eins og afkomutölurnar eru um þessar mundir. Það er að vísu misjöfn aðstaða einstakra greina innan sjávarútvegsins. Hallinn er meiri eða mestur í togaraútgerð og bátaútgerð og í saltfiskvinnslu. Hann er minni í frystingunni og það er nokkur hagnaður af rekstri frystitogaranna. Allt þetta þarf að hafa í huga þegar þessar aðstæður eru metnar. Það kom fram hér í eldhúsdagsumræðum fyrr í vikunni af hálfu hæstv. forsrh. að á næstunni verður unnið að úrlausn þessara viðfangsefna innan ríkisstjórnarinnar.
    Vegna þeirra fyrirspurna sem hv. þm. bar hér fram er það ljóst að gert er ráð fyrir því þegar lögin um þróunarsjóð hafa verið samþykkt að sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs verði hætt og þeim úthlutað án endurgjalds til fiskiskipaflotans.
    Varðandi skuldamál sjávarútvegsins þá hefur eins og hér hefur verið lýst verið í gildi sú regla á þessu ári að sjávarútvegurinn hefur ekki þurft að greiða afborganir af skuldum í Atvinnutryggingarsjóði og bæði Fiskveiðasjóður og lánastofnanir hafa tekið á skuldamálum einstakra fyrirtækja og eftir aðstæðum hvers og eins reynt að stuðla að fjárhagslegri endurskipulagningu. Það er gert ráð fyrir því að þróunarsjóðsfrumvarpið verði flutt í upphafi næsta þings og þá verði jafnframt komið fram með þær lítilfjörlegu breytingar á fiskveiðilöggjöfinni sem endurskoðunarnefndin lagði til að gerðar yrðu. Fullyrða má að með þeirri niðurstöðu hafi fiskveiðistefnan í meginatriðum verið fest í sessi og sjávarútveginum sköpuð örugg skilyrði að því er fiskveiðistjórnunina varðar. Hv. 4. þm. Norðurl. e. ætti að fara sér hægt þegar hann talar um fiskveiðistefnu því að þá fyrst mundi sjávarútvegurinn búa við óöryggi og óvissu ef veifa ætti framan í hann þáltill. Alþb. um mótun sjávarútvegsstefnu og ætla ég ekki að fara mörgum orðum um það, svo glögglega sem hún hefur verið afhjúpuð hér í þingsölum sem einskis nýt.
    Kjarni málsins er sá að það hefur verið og verður unnið að úrlausnum á afkomuvanda sjávarútvegsins. Ég teldi mjög mikilvægt að það gæti gerst í góðu samstarfi og sátt, ekki aðeins við atvinnugreinina sjálfa heldur fólkið í landinu, bæði launafólkið og stjórnendur atvinnufyrirtækjanna.