Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 18:20:33 (8242)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Nú stendur til, ef allt er ekki áfram í háalofti, að senda þingið heim að loknum óvenjulöngum þingvetri. Næstum níu mánuðir eru liðnir síðan við komum saman til þingstarfa sl. sumar. Þrátt fyrir það er alls ekki tímabært að gera hlé á störfum þingsins eins og ástandið er í þjóðfélaginu nú. Það eru einkum atvinnumálin og sjávarútvegsmálin sem valda því. Úrræðaleysi stjórnvalda í atvinnumálum er dapurlegt og ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum getur steypt þjóðinni í slíka erfiðleika að jafnvel Færeyjagrýla er meinlaus hjá þeim. Svör hæstv. ráðherra staðfesta þetta. Hann vísaði aðallega á atvinnugreinina sjálfa en að mati forsvarsmanna hennar er hún komin í þrot.
    Það var ábyrgðarleysi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að keyra upp vextina í upphafi stjórnartíðar sinnar. Nú er svo komið að botnfiskveiðar og vinnsla eru rekin með 8,3% halla og sjávarútvegurinn er með heildarskuldir upp á 105 milljarða. En það er ábyrgðarleysi að draga alla þjóðina á asnaeyrum mánuðum saman. Þykjast vera að grípa til aðgerða, móta sjávarútvegsstefnu og gera eitthvað til að bæta úr brýnum vanda, hætta svo við verkefni í fullkominni uppgjöf af því að ríkisstjórnin veldur þeim ekki. Það vissu allir fyrir fram. Og það er fullkomið ábyrgðarleysi af stjórnvöldum að gera ekki ráðstafanir til að geta úthlutað veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs til illa staddra fyrirtækja í samræmi við gefin fyrirheit. Heigulsháttur réði því að ríkisstjórnin treysti sér ekki einu sinni til þess að horfast í augu við slíkar tillögur hér í þingsal.
    Ríkisstjórnin hefur haft framtak í sér til að hygla vinum sínum, ekki bara útvöldum einkavinum heldur öllum vinum sínum í viðskiptum nema e.t.v. þeim sem standa í útgerð og fiskvinnslu. Ríkisstjórnin felldi að vísu gengið í nóvember og taldi það vissulega í þágu útgerðar. Það dugði hins vegar ekki einu sinni til að mæta þeim verðlækkunum sem nú er við að etja á fiskmörkuðum í Evrópu. Jafnframt er ljóst að gengisfelling er mjög tvíeggjuð aðgerð. Á móti bættri stöðu í sölumálum vegur að umtalsverðar erlendar skuldir sjávarútvegsins hækkuðu. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar einkennast af blindri trú á markaðinn, trú sem byggist á misskilningi og kreddum. Trúin er sú að með almennum aðgerðum megi laga viðskiptin. Þessi trú felur í sér tvær meginfirrur. Annars vegar þá að aldrei megi grípa til sértækra aðferða jafnvel þótt

um sérstakar aðstæður sé að ræða. Hins vegar að það sé líklegt til að auka réttlæti og velsæld í viðskiptum að bæta mest stöðu þeirra sem skást standa en gera stöðu hinna hlutfallslega verri.
    Hvernig er það annars? Eru það ekki sértækar aðgerðir að hygla þeim betur settu á kostnað hinna? Það sem ég á við er lækkun tekjuskatts fyrirtækja. Hún kemur þeim fyrirtækjum til góða sem eiga tekjuafgang og þurfa því síst á hjálp að halda. Það skýtur skökku við að þegar ríkið ákveður að auka skatta á almenning og létta þeim af fyrirtækjum, þá er það gert með þeim hætti að gera rík fyrirtæki ríkari. Þau fyrirtæki sem illa standa greiddu hvort eð er ekki tekjuskatt. Hitt er svo jafnvel enn hlálegra að afnám aðstöðugjaldsins kom nánast öllum fyrirtækjum til góða nema þeim sem helst þurftu á hjálp að halda, þ.e. sjávarútvegsfyrirtækjunum því að þau báru aðeins brot af því aðstöðugjaldi sem önnur fyrirtæki greiddu. Þetta eru sýndaraðgerðir og síst í þágu sjávarútvegsins enda var það sennilega aldrei ætlunin. Á sama tíma er sífellt verið að bæta álögum á þennan sama sjávarútveg. Gott ef ekki í nafni jafnræðis frjálshyggjunnar. Sumt vekur athygli og mótmæli en stundum er verið að lauma nýjum álögum á hann og reynt að láta lítið á bera. Ég bendi t.d. á að 25% hafnargjald sem búið er að leggja á samkvæmt reglugerð nr. 32/1992 hljómar meinleysislega. Fleira mætti nefna sem búið er að hrinda í framkvæmd eða er í bígerð.
    Fyrir þinginu liggur eitt slíkt gjald af mörgum samkvæmt seinni lið frv. um meðferð og eftirlit sjávarafurða, þ.e. 420. mál sem afgreitt var með ágreiningi út úr sjútvn. fyrir nokkrum dögum. Gera menn sér enga grein fyrir því að það er ekki hægt að íþyngja endalaust sjávarútvegi á meðan öflugasta grein hans er rekin með 8,3% tapi? Ef menn vilja að sjávarútvegurinn leggi til samneyslunnar, hvers vegna er þá ekki litið til þeirra fyrirtækja sem eru aflögufær innan hans? Hvers vegna að íþyngja þeim fyrirtækjum sem berjast í bökkum en gætu haft það af ef ríkisstjórnin kysi ekki að skattpína þau.
    Nú er það svo að staða fyrirtækja í sjávarútvegi er afskaplega misjöfn, ekki bara milli greina heldur einnig það að við búum við mjög óheilbrigt kvótakerfi. Tap illa rekins eða bara óheppins fyrirtækis getur ráðið úrslitum um líf eða dauða byggðarlags á meðan kvóti er ekki bundinn byggðarlögum eins og við kvennalistakonur höfum á stefnuskrá okkar. Ef litið er á atvinnugreinina í heild þá gæti hún staðið miklu betur ef stjórnvöld afléttu markvisst þeim álögum sem íþyngja helst verst stöddu fyrirtækjunum. Ég bendi einnig á að allmörg fyrirtæki í sjávarútvegi standa vel sem betur fer og njóta væntanlega góðs af lækkun tekjuskatts á fyrirtæki. En hvers eiga hin að gjalda? Hvers vegna er álögum frekar létt af Granda fyrst hann er nú farinn að skila 97 millj kr. hagnaði á fyrsta ársfjórðungi eða SH sem var með 200 millj. kr. hagnað í fyrra? Ef einhver fyrirtæki í sjávarútvegi eru aflögufær þá eru það þau sem eru með afgang. Þrátt fyrir þetta er það mat forráðamanna SH að sjávarútvegurinn í heild eigi sér ekki rekstrargrundvöll að óbreyttu.
    Fjöldamörg bærilega vel rekin fyrirtæki í greininni eru að veslast upp og deyja vegna þess að þau þola einfaldlega ekki það sem verið er að gera nú. Þar með kemur byggðaröskun og þá fara menn á atvinnuleysisskrá á þeim fámennu stöðum þar sem þeir eiga sínar rætur. Ég vil vekja athygli á því hverjir fara á atvinnuleysisskrá þegar fiskvinnslufyrirtæki lokar, það eru ekki síst fiskvinnslukonurnar. Ég leyfi mér að vekja athygli á því að hátt í 30% af þeim sem voru á atvinnuleysisskrá um sl. áramót hér á landi komu úr fiskvinnslu og um 10% í viðbót höfðu starfað við fiskveiðar. Það er alls ekki hægt að skýra þetta allt með árstíðabundnu atvinnuleysi. Samkvæmt upplýsingum og skýrslu Félagsvísindastofnunar um atvinnulausa má gera ráð fyrir að liðlega helmingur þessa hóps hafi þá verið atvinnulaus vegna tímabundinnar stöðvunar reksturs. Þá liggur fyrir að næstum 20% atvinnulausra í landinu eru það ýmist vegna erfiðleika í veiðum og fiskvinnslu sem eru vegna samdráttar eða gjaldþrots. Þetta eru varanlegir erfiðleikar, þetta eru varanlegar uppsagnir, þetta er varanlegt atvinnuleysi ef ekki verður gripið í taumana.
    Það má þó segja sérlegum fulltrúum ríkisstjórnarinnar, tvíhöfðum, þeir eru reyndar uppteknir nú, eða sá þeirra sem hér er, það til tekna að þeir voru kannski ekki að spila á fiðlu á meðan sjávarútvegurinn var að fara í kalda kol. Nei, nei, þeir lágu svo sem ekki á liði sínu. Þeir söfnuðu ógrynni af pappír um sjávarútveg og mátuðu stílhrein hagfræðikerfi á hvítum pappírsörkum við slorugan veruleikann í fiskinum. Niðurstaðan varð því auðvitað sú að allt var látið reka á reiðanum, engar nothæfar tillögur komu frá tvíhöfða. Þarna var mikil vinna og örugglega samviskusamlega unnin til lítils gagns. Á meðan karpa hæstv. sjútvrh. og forsrh. um það hve mikinn fisk verði óhætt að veiða á næsta fiskveiðiári og þar takast á sjónarmið ábyrgrar verndarstefnu og pólitískrar hentistefnu sem ráðið hefur ferðinni á liðnum árum, þ.e. að veiða of mikið. Vissulega búum við ekki við stóra sannleik í þeim málum en það hefur verið gengið langt og við megum ekki taka áhættu og eiga á hættu hrun í þorskstofni.
    Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki, frekar en aðrir í þessari umræðu, getað komið fram með upplýsingar sem taka af öll tvímæli um að ástandið sé jafnsvart og fiskifræðingar bæði hérlendis og erlendis vilja meina. En ég tel einfaldlega of mikið í húfi til að taka áhættu. Ég er hrædd um að það hafi verið gert á undanförnum árum, ekki aðeins með því að veiða umfram heildaraflamark heldur einnig með því að virða ekki ábendingar hinna sérfræðinganna, þ.e. sjómannanna sjálfra, um að vernda verði hrygningar- og uppeldisstöðvar þorsksins í stað þess að treysta því að takmörkun á heildaraflamagni leysi öll mál. Ég held að það sé hættuleg blekking að halda að við munum geta aukið þorskveiðar á næstu árum. Ég tel hins vegar að gera megi mun betur í að ýta undir nýtingu annarra fisktegunda, þekktra og óþekktra. Nú verðum við að fara að átta okkur á því að fjárfesting í sjávarútvegi skilar sér ekki síður en í iðnaði þar sem samkeppnin er miklu harðari og samkeppnisstaðan misjöfn. Eitt útilokar ekki annað. Hins vegar er allt of mikið nurlað í fjárveitingum til nýsköpunar í sjávarútvegi og það er ámælisvert. Sú tilhneiging hefur verið mjög

áberandi að ætla sjávarrannsóknum einhverja ótrygga tekjustofna sem eiga aðallega sammerkt að skila sér ekki og íþyngja missterkum sjávarútvegi. --- Forseti, má ég biðja um að það verði aðeins slegið í bjölluna svo að þessi kliður verði aðeins lægri. Hann er truflandi. (Gripið fram í.) Ég bið líka um að það verði sett ofan í við hinn hefðbundna frammíkallara, hv. 17. þm. Reykv. . . .   ( ÖS: Forseti. Frammíkallið er dregið til baka.) Mér þykir vænt um að heyra það, ég hygg að þetta sé tímamótayfirlýsing og vona að þetta gildi um fleiri.
    Við stöndum auðvitað ekki að traustri uppbyggingu með því að gera eins og þarna, að byggja sjávarrannsóknir á ótryggum tekjustofnum. Við þurfum að tryggja þessum rannsóknum traustan tekjustofn og mér finnst ekki óeðlilegt að ríkið láti fé af hendi rakna til jafnmikilvægra rannsókna og fiskirannsóknir eru og beini máli mínu nú til hv. frammíkallanda. Ríkið hefur kosið að skerða beinar fjárveitingar til slíkra rannsókna og það er ámælisvert svo ekki sé meira sagt. Ég er einnig mjög hugsi yfir því hvernig við stöndum að markaðsmálum okkar, þ.e. sölu sjávarafurða. Vissulega hafa sölusamtök í sjávarútvegi oft lyft grettistaki en stundarhagsmunir hafa einnig ráðið ferðinni, einkum hjá þeim sem koma nýir að og byggja ekki á gömlum grunni. Ýmsir telja m.a. að allt of mikil áhætta hafi verið tekið tekin í saltfisksölu okkar með því að opna fyrir samkeppni og undirboð. Í þeim darraðardansi hljóti allir að tapa að lokum.
    Það er annað sem skiptir líka máli og það er hvort nafn Íslands sé markaðssett með viðhlítandi hætti. Það er athyglisvert að á ráðstefnu um matvælaiðnað sem haldin var þann 23. nóv. sl. lögðu ýmsir áherslu á nauðsyn þess að kynna íslenska vöru, fyrst og fremst fisk, undir sameiginlegu vörumerki og leggja þá samkeppni til hliðar. Hins vegar er ekki því að neita að vera má að við séum búin að missa það tækifæri úr greipum okkar. Smásöluverslun í Evrópu er smátt og smátt að færast á hendur fárra. Það er áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga, ekki einungis vegna þess að stóru verslunarkeðjurnar geta keyrt niður verð á fiski heldur einnig að þær eru nánast ófáanlegar til að selja vörur undir öðrum merkjum en sínum eigin. Vissulega hefur það einhverja kosti að selja fisk undir þekktum vörumerkjum en það ryður ekki brautina fyrir aðra Íslendinga. Ef við ætlum okkur í framtíðinni að skapa Íslandi ímynd ferskleika og vandaðrar og ómengaðrar vöru þá gerum við það ekki með því að selja einhvern ,,Marks & Spencer-fisk`` heldur Íslandsfisk. Við skulum gæta að því að ástandið í heimshöfunum er þannig að alvarlegt slys og geislamengun getur orðið hvenær sem er. Líkur til þess að svo verði eru víða meiri en hér í Norðurhöfum þrátt fyrir þá hættu sem okkur stafar af umferð kjarnorkuknúinna kafbáta. Hættan er meiri eftir því sem nær dregur stóru kjarnorkuendurvinnslustöðvunum og það getur því haft hagnýta þýðingu að geta tengt íslenska vöru meiri hreinleika heldur en hægt er á stórum stöðum. En til þess verðum við að afmarka okkar vöru frá annarri.     Annað sem getur sett strik í reikninginn er að erlend skip geta nú í fullum rétti farið að bjóða á mörkuðum erlendis fisk frá Íslandsmiðum ef við lendum inn í EES. Þá ráðum við engu um það hvernig hann er meðhöndlaður, kynntur og markaðssettur. Þetta gerist með opnun fiskveiðilögsögunnar fyrir skipum Evrópubandalagsins. Það var mikið óheillaspor að gera þann tvíhliða samning sem við gerðum við Evrópubandalagið og er vonandi að hann verði aldrei látinn ganga í gildi þótt hann hafi verið knúinn naumlega í gegn hér á Alþingi, gegn betri vitund margra hygg ég.
    Auk þessa er hætta á áníðslu á viðkvæmum miðum okkar. Átök við Franshól ættu að vera okkur lexía og þar var þó um að ræða atburði mestmegnis utan landhelginnar. Hverjir eru þá möguleikar okkar í sjávarútvegi nú? Fyrsta forsendan er að losna við ríkisstjórnina. Kostnaðarlækkun mundi skipta máli fyrir illa sett, lífvænleg sjávarútvegsfyrirtæki. Fyrst og fremst vaxtalækkun, lánalenging er víða óhjákvæmileg, orkuverðslækkun mundi skipta máli. Endurskipulagning hefur víða átt sér stað en þar má gera betur. (Forseti hringir.) --- Afsakið forseti. Er takmarkaður tími í fyrri umferð? ( Forseti: Samkvæmt síðari mgr. 50. gr. þingskapa hefur hver þingmaður leyfi til að tala í 15 mínútur í hvert sinn.) Ég þakka forseta upplýsingarnar. Við kvennalistakonur höfðum hugsað okkur aðra skiptingu á þeim tíma sem var til umráða hér. Ég hygg að meginefni minnar ræðu sé fram komið og ég þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því þó ég sleppi því sem ég hafði hugsað mér að koma hér inn á í viðbót því ég veit að annar þingmaður Kvennalistans mun hafa tækifæri til að koma þar nokkrum ábendingum frá mér á framfæri. ( Forseti: Forseti vill taka fram að þingmaðurinn hefur leyfi til að taka til máls aftur eftir að aðrir þingmenn hafa komist að.)