Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 19:02:32 (8245)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Þetta hafa sannarlega verið merkilegar umræður sem hafa hér farið fram og fluttar með ýmsum hætti, ræðurnar. Hv. 17. þm. Reykv. tileinkaði sér ræðustíl hæstv. sjútvrh. eins og hann notaði hér í umræðunni um daginn og taldi að við hefðum þar fengið mjög háðulega útreið og ég mun koma að því síðar. ( ÖS: Þið gerðuð það.)
    Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., var hér að tilkynna okkur að það yrði ekkert gert í málefnum sjávarútvegsins fyrr en í haust. Ég býst við því að það muni þykja mikil tíðindi úti í þjóðfélaginu þar sem brennur á mönnum taprekstur og stórkostleg vandamál, meiri en hafa verið lengi. Og þessi ríkisstjórn ætlar sér að fara heim hér frá þingi án þess að gera nokkuð í málefnum sjávarútvegsins. Það skal bíða fram á haustið, það er til athugunar, það á að skoða það.
    Hæstv. sjútvrh. afhjúpaði sig í ræðu sem er einhver eymdarlegasta ræða sem ég hef hlustað á á þessu þingi en reyndar hef ég ekki verið hér nema í tvö ár þannig að ég er kannski ekki marktækur. Það sem hann var að segja okkur hérna var raunverulega það að afrekin hans og ríkisstjórnarinnar væru fjögur, þau væru fjögur. Fresta afborgunum hjá útgerðinni, láta þá hafa Verðjöfnunarsjóðinn til að eyða honum upp í tapið, fella niður aðstöðugjaldið og fella gengið. Þetta var allt saman og hann varð að viðurkenna það að hér væri vandinn jafnmikill eða enn verri en hann hefði verið þegar síðustu ráðstafanir voru gerðar. En hann sagði í ræðu þegar hann tók við, reyndar fleiri en einni ræðu: Það þarf að breyta verðmætaskiptingunni í þjóðfélaginu sjávarútveginum í vil. Þetta var inntakið í ræðum hans á fundum með útvegsmönnum um allt land. Hann hefur verið að því síðan og hvernig gengur? Nú sagði hann: Við svo búið má ekki standa lengur, nú verður að gera eitthvað. Forsrh. kom upp í stólinn á eftir honum og sagði: Heyrðu, við bíðum til haustsins, við munum sjá til þangað til. Þetta var boðskapurinn. Hann sagði í sinni ræðu að hann hefði afhjúpað stefnu Alþb. í sjávarútvegsmálum í ræðu hér um daginn og var að hæla sér af þeirri ræðu. Ég vil fara yfir það hérna, hvað hæstv. ráðherra sagði í þeirri ræðu. Hann sagði t.d.:
    ,,Samt koma þeir [þ.e. alþýðubandalagsmenn] með frv. þar sem stendur skýrum stöfum að allar veiðar eigi að byggjast á veiðileyfum.``
    Það stendur ekki í þessum blöðum sem við höfum látið fram. Veiðileyfin eru reyndar núna þegar í gildi og það er til þess að koma í veg fyrir að flotinn stækki sem þau eru í gildi. Við leggjum ekki til að því verði hætt. Ég geri ráð fyrir því að það sé ekki ágreiningur við sjútvrh. í raun og veru um þetta mál. Hann sagði síðan: ,,Á það að vera geðþóttaákvörðun ráðherra ef einhver heltist úr lestinni, hver fái þá veiðileyfi?`` Þetta stendur ekki í okkar tillögum. Þetta er kjaftæði. Auðvitað á sá maður sem vill hætta

í útgerð að fá leyfi til að selja sitt skip og með því fylgir veiðileyfið. Jú, það á að stjórna veiðunum með skattheimtu, sagði hann. Þetta er líka kjaftæði. Í tillögunum er gert ráð fyrir að nota sóknarstjórnun og það aflagjald sem talað er um í tillögunum er einungis til viðbótar við þá stjórnun.
    Í fjórða lagi sagði hann: ,,Og síðan eiga embættismenn og ráðherrar að hafa frjálst val um það hver skattheimtan er á grundvelli líffræðilegs mats um verðmæti.`` Þetta er líka rangt. Það er gert ráð fyrir því í þessum drögum að það verði sett sérstök lög um aflagjaldið og líka hitt gjaldið sem talað er þar um og þar að auki, segir hæstv. ráðherra, er gert ráð fyrir því að embættismaður og ráðherra hafi frjálst val um skattheimtu, ekki bara leggja á einn skatt eftir frjálsu vali, heldur tvo. Og þó vita þessir menn að í stjórnarskránni eru alveg skýr fyrirmæli um það að Alþingi getur ekki framselt skattlagningarvald, hvorki til ráðherra né embættismanna. Þetta er rugl. Það stendur í tillögunum að það eigi að setja sérstök lög um þetta efni og það sæmir ekki hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni að mæta hér til Alþingis með ræðu af þessu tagi sem hvergi á heima nema á málfundum hjá Heimdellingum og þar hefur sjálfsagt verið til hennar lært.
    Í fimmta lagi sagði hann: ,,Við þessa endurskoðun hafa verið skoðaðir allir kostir sem mögulegir eru til þess að stjórna fiskveiðum.`` Þetta voru hans orð, allir mögulegir kostir. Þetta er rangt. Aðrir aðilar í þjóðfélaginu sem hafa aðrar skoðanir á því hvernig eigi að stjórna fiskveiðum hafa ekki fengið að koma sínum tillögum að. Þannig var nú staðið að þessu.
    Í sjötta lagi sagði hann: ,,Og um þessa grundvallarþætti`` --- þá er hann að tala um fiskveiðistjórnunina --- ,,er orðin allbreið pólitísk samstaða. Stjórnarflokkarnir tveir eru sammála um þessi grundvallaratriði og ríkisstjórnin hefur samhljóða lagt fram frumvörp í þessu efni.`` En hver er nú sannleikurinn í þessu? Hver er sannleikurinn um samstöðuna? Hvar er þessi breiða samstaða? Kom hún fram á fundum tvíhöfða nefndarinnar? Er hún hjá sjómannasamtökunum? Hefur hæstv. ráðherra ekki lesið yfirlýsingar sjómannasamtakanna? Hefur hann ekki rætt við formenn sjómannasamtakanna um það hvernig þeir líti á þessi mál? Er hún hjá smábátamönnunum? Hefur hann kynnt sér afstöðu þeirra til þessara mála? Er hún hjá fiskvinnslufólkinu kannski? Eða er hún í þingliði Sjálfstfl.? Er samstaðan þar? Er hún innan ríkisstjórnarflokkanna? Hvers vegna komu þessi mál ekki hér til þings? Skyldi ekki hafa vantað eitthvað upp á þessa samstöðu? Ég held það.     En það er auðvitað ekki til neins að ræða með þessum hætti um þessi mál. Ég tel að Alþb. hafi í raun og veru verið að gera það sem allir stjórnmálaflokkarnir ættu að gera, þ.e. leggja fram sínar hugmyndir um það hvernig eigi að standa að endurskoðun þessa stjórnkerfis við fiskveiðarnar og bjóðast til þess að vinna þverpólitískt að lausninni. Það er ekki að finna neina samstöðu í stjórnarflokkunum sem dugar til þess að koma heildstæðri sjávarútvegsstefnu í gegnum Alþingi. Það á heldur ekki að vinna þannig að þessu máli. Þetta mál er mál sem þjóðin þarf að leysa sameiginlega. Og það getur ekki gengið að ætla að vaða t.d. yfir sjómannasamtökin með þeim hætti sem hæstv. sjútvrh. getur hugsað sér að gera. Og það dugar ekkert að halda því fram, eins og hæstv. ráðherra hefur gert, að það eigi ekki að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum ef í hinu orðinu hæstv. ráðherra segir: Við skulum halda áfram að leyfa mönnum að framkvæma þetta þannig að láta fiska fyrir sig á lægra fiskverði. Menn geti fiskað tonn á móti tonni þannig að það sé hægt að koma aftan að sjómönnum og kvótalitlum útgerðaraðilum með þeim hætti. Þetta vita menn hvernig hefur gerst.
    Ég skora á hv. alþm. að taka höndum saman um það að vinna sameiginlega að lausn þessara mála. Það er kominn tími til þess að það verði gert.