Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 20:03:44 (8252)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég er ein þeirra sem skrifa undir nál. minni hluta í þessu máli og vil gjarnan gera aðeins grein fyrir afstöðu minni til málsins. Það hafa nú þegar gert tveir fulltrúar stjórnarandstöðunnar í utanrmn. hér á undan mér og út af fyrir sig ágætlega, kom m.a. vel í ljós að þeir eru vel læsir menn og það er auðvitað ekki verra fyrir þingmenn að vera það. En ég vil segja það hér að ég er svo sem ekki að koma að þessu máli í fyrsta sinn, þessum samningi. Ég hef aðeins gert hann að umtalsefni, m.a. á vettvangi EFTA sem gerir samninginn. Það er EFTA sem fer í rauninni með samningsumboðið í þessu máli eða því sem næst og ég tók þetta mál m.a. upp í þingmannanefnd EFTA eða lét vita af því þar þegar málið kom þar til umfjöllunar að ég teldi að það yrði fyrirstaða við málið hér á Alþingi vegna þess hvernig að málum hefur verið staðið í Ísrael, þ.e. hvernig mannréttindi hafa þar verið fótumtroðin, ekki bara núna upp á síðkastið heldur um langt árabil.
    Þá gerði ég líka ákveðinn fyrirvara í þessu máli þegar það kom hérna til fyrri umræðu og gat þess þá þar að ég mundi að öllum líkindum ekki geta stutt þetta mál m.a. vegna þessara atriða. Þannig, eins og ég segi, hef ég áður látið fyrirvara minn í ljós og get gert það hér enn og aftur, enda góð vísa sjaldan of oft kveðin.
    Það sem auðvitað gerir það að verkum að maður telur að það sé ekki hægt að styðja slíkan samning eins og þennan er að Ísraelsríki er í eðli sínu ekkert öðruvísi ríki en Suður-Afríka. Í Ísrael er við lýði kynþáttaaðskilnaðarstefna rétt eins og kynþáttaaðskilnaðarstefna í Suður-Afríku, þ.e. það búa tvær þjóðir í landinu og þessum þjóðum eru í rauninni búin gerólík kjör. Í Suður-Afríku eru þetta svartir og hvítir, í Ísrael eru þetta gyðingar annars vegar og Palestínumenn hins vegar.
    Ísraelsríki er ekki hefðbundið þjóðríki í þeim skilningi sem við leggjum í það hugtak því að það er ríki gyðinga. Með öðrum orðum, það er ríki gyðinga hvar sem þeir í rauninni búa í heiminum og þess vegna hefur það nú verið að innflutningur gyðinga frá Rússlandi hefur verið mjög mikill og verið mjög einfaldur. Um leið og þeir koma fá þeir öll réttindi eins og borgarar sem Palestínumenn hafa ekki, þessi sömu réttindi. Þetta er með öðrum orðum ekki þjóðríki heldur ríki gyðinga.
    Ísraelsríki hefur ekki virt sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna sem búa innan þeirra landamæra sem það hefur markað sér og það eru í rauninni 25 ár síðan Sameinuðu þjóðirnar ályktuðu um að þennan sjálfsákvörðunarrétt bæri að virða. Að vísu voru Bandaríkjamenn þá mótfallnir þessari ályktun og hafa allar götur síðan í rauninni stutt þann kynþáttaaðskilnað og þann skort á mannréttindum sem hefur tíðkast í Ísrael og auðvitað í krafti stuðnings frá Bandaríkjamönnum hafa þeir komist upp með það sem þar hefur verið að gerast. En það þarf ekkert að lýsa ástandinu þarna mörgum orðum. Það hefur verið gert hér með því að lesa upp úr ágætri grein eftir Árna Ragnar Áranson og miðað við þær lýsingar sem þar eru og miðað við þá þekkingu sem þingmaðurinn hefur á ástandi mála þar ætti hann auðvitað að vera best fær um að lýsa því og þeim mannréttindabrotum sem þar eiga sér stað. Þar sem þessi þingmaður hefur mjög víðtæka þekkingu á þessu og þekkir þetta af eigin raun eftir heimsókn til Ísraels sem er meira heldur en flest okkar hafa gert, þá urðu mér það vissulega ákveðin vonbrigði að hann skyldi samþykkja það að þessi fríverslunarsamningur yrði gerður, en ég vænti þess að hann rökstyðji það með sama hætti og menn rökstuddu hér að rétt væri að gera fríverslunarsamning við Tyrkland og menn rökstuddu það að rétt væri að afnema viðskiptahindranir á Suður-Afríku. Með öðrum orðum, þeir segja: Í gegnum slíka viðskiptasamninga getum við haft áhrif á mannréttindamálin, getum við fengið stjórnvöld í viðkomandi landi til þess að breyta stefnu sinni og við getum þvingað þau jafnvel til þess að taka öðruvísi á málum heldur en þau hafa gert hingað til.
    Ég er ekki þessarar skoðunar. Mér finnst ríkari ástæða til þess að hindra viðskipti við ríki sem svona standa að málum fremur en að auðvelda þau. Þar með er ég ekki að segja að viðskiptabann eigi við í öllum tilvikum, alls ekki, heldur að viðskiptahindranir eigi frekar við en frjáls viðskipti. Viðskiptabann er eins og við vitum öll mjög vandmeðfarinn hlutur og það verður auðvitað að meta það í hvert og eitt sinn hvort rétt sé að leggja á slíkt bann.
    Mér finnst ástæða til þess að fara aðeins ofan í hvað aukin fríverslun við Ísrael þýðir. Eins og ég segi hefur kannski ekkert upp á sig að rekja ástand mála þar í landi. Það getum við gert við mörg tilefni og það höfum við gert hér í vetur. Ég vildi hins vegar reyna aðeins að líta á það tilefni sem við höfum hér, þ.e. þennan viðskiptasamning og reyna að skoða hvaða áhrif hann hefur t.d. á stöðu Palestínumanna á svæðinu. Aukin fríverslun við Ísrael þýðir að þeirra hagur vænkast væntanlega. Það er markmiðið með fríverslunarsamningum, að auka vöruviðskipti, auka verslun og viðskipti á öllum sviðum til þess að auka veltuna og bæta hag þeirra sem þar búa. Hins vegar er það þannig að Palestínumenn á hernumdu svæðunum sem eru núna innan landamæra Ísraelsríkis eiga allt sitt undir Ísraelsmönnum. Ísraelsríki hefur innlimað þessi hernumdu svæði sem er þvert á alla samninga um það hvernig farið skuli með slík svæði og það gera þeir til þess að þurfa ekki að sæta alþjóðareglum sem eiga að gilda á hernumdum svæðum. Þeir segja: Þetta er óaðskiljanlegur hlutur Ísraelsríkis og við þurfum ekki að lúta neinum alþjóðlegum sáttmálum um það hvernig farið skuli með hluti á herteknum svæðum. En fólk sem býr á þessum svæðum, Palestínumennirnir, eiga auðvitað allt sitt undir hernámsyfirvöldum, allt sitt undir stjórnvöldum í Ísrael. Til þess að fá aðeins upplýsingar um hvernig þetta virkaði og hvernig málum væri háttað þá fékk ég, og það fylgir með í fskj. með nál., nokkra áherslupunkta frá félaginu Ísland-Palestína og þeir varða viðskiptamál Palestínu. Ég ætla að fara í gegnum þessar kröfur og reyna að útskýra þær aðeins. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Eftirfarandi kröfur þarf að gera til Ísraelsstjórnar og hernámsyfirvalda:
    1. Að inn- og útflutningur verði gefinn frjáls án milligöngu Ísraelsmanna.`` Þannig er það að Palestínumenn eiga mjög erfitt með að stunda hvers kyns viðskipti án milligöngu Ísraelsmanna. Þeir þurfa að sækja um ýmiss konar leyfi og það gengur mjög hægt fyrir þá að fá þau. Það eru sett alls konar skilyrði sem þeir eiga erfitt með að uppfylla. Það eru lögð á alls kyns aukagjöld sem eru í rauninni bara viðskiptahindranir og þannig er þeim gert erfitt fyrir að stunda viðskipti á mörgum sviðum.
    ,,2. Að leyfa byggingu hafnar í Gaza fyrir inn- og útflutning Palestínumanna.`` Þetta telja Palestínumenn sjálfir að sé eitt af skilyrðunum fyrir því að þeir geti stundað milliliðalaus viðskipti, þ.e. að þeir eigi og hafi aðgang að sinni eigin höfn á Gazasvæðinu. En það hafa verið miklar takmarkanir á fjárfestingum á þessu svæði og menn þurfa að uppfylla ótal skilyrði og leyfi til þess að fá að fjárfesta. Palestínumenn vilja byggja þessa höfn sjálfir en hafa ekki fengið leyfi til þess. Þetta er eitt af því sem þeir telja vera grundvallaratriði ef þeir eiga að geta stundað frjáls og milliliðalaus viðskipti, m.a. við Evrópubandalagið og EFTA-ríkin.
    ,,3. Að Palestínumönnum verði leyft að fjárfesta á herteknu svæðunum, án sérstakra hafta``. Þetta kemur inn á það sem ég sagði áðan að það eru alls kyns takmarkanir á fjárfestingu og byggingum á herteknu svæðunum. Í því sambandi má geta þess að í bæ sem mun vera 15 km fyrir norðan Jerúsalem og heitir Ramala var byggð fullkomin fæðingardeild af Palestínumönnum sjálfum. Hún er búin að standa þar tilbúin í sjö ár en þeir hafa ekki fengið leyfi til þess að taka hana í notkun. Það dugir því líka lítið þó að þeir nái að fjárfesta í hlutunum ef þeir fá ekki að nýta þá.
    ,,4. Að herteknu svæðin verði losuð úr herkví og lokun þeirra aflétt, þannig að fólk komist m.a. til vinnu út fyrir svæðin.`` Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að núna, a.m.k. um a.m.k. tveggja mánaða skeið, hafa öll herteknu svæðin verið algerlega lokuð af. Þau eru nánast í herkví og það er ekkert hægt að flytja frá þessum svæðum eða milli þessara svæða. Jerúsalem er t.d. lokuð og Palestínumenn sem vilja flytja annaðhvort vörur til Jerúsalem á markað þar, því að þar er auðvitað stór markaður, eða í gegnum Jerúsalem, þeir þurfa að fara í gegnum borgina en geta það ekki. Og það þýðir auðvitað ekkert að tala um frjálsa verslun eða frjáls viðskipti eða fríverslun við slíkar aðstæður. Það eru bara orðin tóm og þessu þarf öllu saman að breyta til þess að hægt sé að tala um það.
    Þessu vildi ég koma á framfæri við þingið þannig að þingmenn mættu gera sér grein fyrir því hvernig mannréttindamálum er háttað þarna. Það er auðvitað mjög mikilvægt. Þetta er pólitískt mál og taka þarf í því pólitíska afstöðu en líka að þingmenn geri sér grein fyrir því sértæka í þessu máli sem varðar þá verslun og viðskipti og þennan tiltekna fríverslunarsamning sem hér er verið að gera. Eins og bent er á í nál. minni hlutans hafa Ísraelsmenn þetta auðvitað í hendi sinni vegna þess að það er öryggisákvæði í þessum samningi eins og öllum öðrum fríverslunarsamningum. Við skulum bara minnast umræðunnar sem hér varð um öryggisákvæði í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Við sögðum alltaf: Það verður að vera okkar réttur, skilyrðislaus réttur, að túlka einhliða hvenær við þurfum að beita þessu öryggisákvæði. Það er okkar að meta hvenær nauðsynlegt er að beita þessu öryggisákvæði ef við teljum að mjög brýnir hagsmunir liggi við og auðvitað gildir það sama í þessum samningi. Þar er slíkt öryggisákvæði og það hefur öðlast alveg nýja merkingu í þessum samningi vegna stöðunnar sem er í Ísrael.
     Í öryggisákvæðinu segir m.a.: ,,Ekkert ákvæði þessa samnings kemur í veg fyrir að aðili geri ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar: a) til að koma í veg fyrir uppljóstranir sem eru andstæðar mikilvægum öryggishagsmunum, b) til að vernda mikilvæga öryggishagsmuni . . . ``
    Menn geta auðvitað séð það sjálfir hvernig þessu mun verða beitt í Ísraelsríki sem býr í rauninni við hernaðarástand. Hvernig halda menn að slíku sé beitt? Ég held að það þurfi enginn að fara í grafgötur um að þetta mun hitta fyrir Palestínumenn á þessu svæði og þessi samningur mun á engan hátt, fæ ég séð, nýtast þeim eins og menn vilja þó kannski vona og halda fram. Ég vil að þetta komi hér fram og ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessum samningi.