Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 20:24:07 (8257)

     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Þetta mál sem fyrir liggur hefur vakið nokkuð skiptar skoðanir og eðlilegt að við Íslendingar ræðum hvernig við tökum á því málefni að eiga samskipti eða viðskipti við þjóðir í fjarlægum heimshlutum, einkum ef við teljum að þær hagi sínum málum öðruvísi en við hefðum viljað að þær gerðu. En það er nefnilega málið, að þær hagi sínum málum öðruvísi en við hefðum viljað að þær gerðu.
    Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að við Íslendingar ræðum fremur sjaldan málefni Ísraels og Palestínu. Hvað okkur flest varðar höfum við alist upp við þá skoðun að þar sem Ísrael er núna hafi áður verið vagga okkar nútímatrúarbragða. Kannski bregður okkur fram eftir aldri til þessarar trúar ef hafa má það orð um það sem við álítum og vitum ekki betur. Þetta hefur skapað með nokkrum hætti tiltekna taug í okkur til gyðinga og annarra íbúa þessa heimshluta.
    Löngu seinna varð á meginlandi Evrópu gereyðingarhernaður, ákveðins stjórnmálaafls sem komst til mikilla áhrifa, gegn gyðingum hvar sem til þeirra náðist um gervallt meginlandið. Ég er þeirrar skoðunar að þessir atburðir hafi síðar vakið með Evrópumönnum, að okkur meðtöldum, nokkra samúð, iðrun eða tilhneigingu til yfirbótar gagnvart gyðingum. Ég hygg að þetta hafi stjórnað að nokkru leyti afstöðu okkar því við erum að taka afstöðu úr fjarlægð. Þingmenn halda að ég sé í hópi þeirra manna sem þekki vel ástandið. Ég veit að ég þekki það ekki vel þó að ég hafi komið á svæðið og séð nokkurn fjölda af einstaklingum, nokkurn fjölda af húsum og farartækjum, ræktarlönd og eyðimerkur. En ég hef ekki þá trú að ég þekki ástandið.
    Staðreyndin er þó sú, virðulegi forseti, að hverjum sem kynnist þessu ástandi að einhverju leyti, einkum á herteknu svæðunum, mun ekki blandast hugur um að öndvert við vonir okkar Vesturlandabúa um að þar mundi fyrir frumkvæði gyðinga sem hefðu kynnst okkar lýðræðishugmyndum rísa slíkt ríki að fyrirmynd vestrænna nútímaþjóðfélaga. (Gripið fram í.) Já, öndvert við þær vonir hefur þar risið ríki aðskilnaðarstefnu á grundvelli trúarbragða og kynþáttar. Við veltum því nú fyrir okkur hvort við eigum að eiga viðskipti við slíkt ríki og við teljum það jafnvel varða sæmd okkar og heiður. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að það verði þá nýr blettur á þeirri sæmd.
    Við höfum um langt árabil viðhaft þá stefnu að semja um viðskipti og margþætt samskipti við ríki sem hafa beitt þegna sína, hvort sem þeir eru frjálsir, herteknir eða tilknúðir á annan hátt, slíkum aðskilnaði, ef ekki á grundvelli trúarbragða, ef ekki á grundvelli kynþáttar, þá á grundvelli stjórnmálaskoðana. Það er þess vegna ekkert nýtt, virðulegi forseti, að við ræðum þessi viðfangsefni.
    Þær lýsingar, sem hér hafa verið lesnar upp og eru eftir mér hafðar, eru eins og ég kynntist þeim og gat borið undir aðra einstaklinga, einstaklinga sem starfa á svæðinu á vegum alþjóðastofnunar, Sameinuðu þjóðanna, og á vegum fjölþjóðlegs sambands þingmanna í Evrópu. Þær upplýsingar eru staðfestar. Við erum varla að ræða það hér í kvöld hvort við breytum þeim í einni skyndingu með einhverri ákvörðun á hinu háa Alþingi Íslendinga, vitandi það að við erum ekki stórveldi hvorki í viðskiptum né öðrum þáttum alþjóðasamskipta. Hitt er staðreynd sem við eigum að ræða. Við eigum að gera okkur grein fyrir, þó í fjarlægð séum, að í Palestínu eru Palestínumenn, nútímaerfingjar þeirra sem í Biblíunni, hinni helgu bók, eru nefndir Filistear, þetta er sama orðið, þeir eru undirokaðir í sínu eigin landi.
    Ég þarf ekki að lýsa því frekar sem hér hefur verið haft eftir mér eða aðrir þingmenn hafa sagt um. Þær lýsingar eru réttar svo langt sem þær ná en þar gætir líka nokkurrar missagnar vegna þess að við þekkjum ekki svo gjörla til. Af því litla sem ég sá og heyrði þá heyri ég í salnum í dag missagnir. Palestínumenn hafa ekki í sínu eigin landi þau mannréttindi sem við teljum sjálfsögð og eðlileg. Þau hafa verið afnumin af aðvífandi herraþjóð. Og ástandið er þannig í dag að þeirra eigin opinbera stjórnsýsla, opinber þjónusta, samgöngutæki eða hvað annað sem við teljum sjálfsagt er allt lamað og óstarfhæft. Þess vegna vantar höfn á Gaza. Þess vegna vantar þær stofnanir sem rakið var í dag, að stofnun á vegum Sameinðu þjóðanna starfrækir, byggði og rekur með ótrúlega litlum tilkostnaði.
    En ég held samt sem áður, virðulegi forseti, að við þurfum að ræða hvernig við ætlum yfirleitt að standa að þessum málum. Ætlum við að gera það eitt að hafna viðskiptum og samskiptum við þetta fólk?
    Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að við Íslendingar höfum lítinn áhuga sýnt á málstað Palestínumanna, minni áhuga heldur en grannþjóðir okkar á Norðurlöndunum. Efnahagslegir burðir okkar og lífskjör hafa að okkar eigin dómi ekki gert okkur það kleift að færa fórnir í formi aðstoðar við þróunarlönd nema í mjög takmörkuðum mæli, svo takmörkuðum að okkur hefur ekki alltaf þótt sæmd af. En sú geta sem við höfum samt sem áður þóst hafa til að gera slíkt hefur ekki dugað til að við gerðum það í áttina til Palestínu. Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa lagt af mörkum aðstoð við Palestínumenn, aðrar en við.
    Ég hlýt að velta því fyrir mér, virðulegi forseti, fyrst við teljum sjálf að við höfum ekki efnahagslega burði til að styðja þetta fólk, hvað er þá í okkar valdi? Ekki erum við herveldi, ekki sendum við þangað menn með morðtól eða önnur kúgunartæki til að hrista gyðinga eða Palestínumenn eða einhverja enn þá aðra til þeirra skoðana sem við teljum að þeir eigi að hafa á eigin málum.

    Ég held við gerum ekkert af þessu, virðulegi forseti, og ég hef raunar þá trú að við höfum ekki vilja til þess. En hvað er þá í okkar valdi? Jú, það er í okkar valdi að eiga samskipti við þetta fólk, hvort heldur það eru gyðingar eða arabar. Við getum átt við þá viðskipti, við getum með samningum um slíka viðskiptahætti haft bætandi áhrif á ástandið vegna þess að við vitum af eigin raun að bætt lífskjör, aukið frelsi til viðskipta og athafna leiðir til minni árekstra í mannlegu samfélagi. Við þurfum ekki að fara lengra en til okkar forfeðra, fáeinar kynslóðir aftur í aldirnar, til að rekja þar þá þekkingu og reynslu mannsins aftur og aftur að flestar þær styrjaldir sem ekki voru háðar vegna trúarbragða voru háðar vegna lífskjara, vegna þess að árásaraðilinn, hver sem hann var, taldi grænna hinum megin fjallsins, hinum megin lækjarins, í annarra garði.
    Ég tel, virðulegi forseti, að við höfum reynslu af áhrifamætti þess að stofna til samskipta með þessum hætti við ólíkar þjóðir en ég tel það ekki skynsamlegt, ég tel það ekki sæmandi af okkur Íslendingum eða öðrum Vesturlandamönnum að reyna í sífellu að troða okkar lífsháttum upp á þjóðir annarra heimshluta. Og vel að merkja, í þessum heimshluta sem við erum nú að ræða, hverjir hafa talað þannig? Það eru ekki gyðingarnir, það eru arabar, Palestínumenn. Þeir segja aftur og aftur um okkur Vesturlandamenn: Þið viljið ekkert fyrir okkur gera fyrr en við tökum upp ykkar aðferðir. Ykkar lýðræðisaðferðir. En við höfum okkar eigin aðferðir, þið bara viðurkennið þær ekki vegna þess að þið notið sjálfir aðrar og hvorki þekkið né viljið þekkja okkar aðferðir.
    Skyldi þessi fáfræði okkar vera kannski mergurinn málsins í okkar garði?
    Ég held, virðulegi forseti, að við Íslendingar eigum að geta orðið sammála um að það er vænlegra til þess árangurs að hafa bætandi áhrif á mannlífið á þessum slóðum, að stofna til samskipta og viðskipta við fólkið. Með slíkum samningi, með ákvæðum hans getum við haft þessi áhrif, án hans höfum við engin. Afneitun og afskiptaleysi bætir ekkert. Það leiðir ekki til vonarinnar um einhvern árangur. Tilraunir til þess að beita menn valdi eða skoðanakúgun bæta heldur ekkert því það vitum við að hver sem fyrir slíku verður hann mun einhvern tímann brjótast undan því oki og taka upp sínar eigin aðferðir.
    Virðulegi forseti. Ég er einn þeirra manna sem taka undir álit meiri hluta utanrmn. sem leggur til að við staðfestum samninginn. Ég leyfi mér að benda á það aftur, virðulegi forseti, að í okkar nál. bendum við okkar embættismönnum á atriði sem við teljum að þeir þurfi að hafa í huga við framkvæmd þessa samnings. Það eru atriði sem urðum áskynja um vegna ábendinga araba, ekki gyðinga.
    Það er rétt sem hér hefur fram komið að félagið Ísland-Palestína bendir auk þess á önnur atriði sem það telur að þurfi að koma fram til þess að Palestínumenn geti stundað óháð viðskipti, viðskipti óháð valdi og stjórnun Ísraelsmanna. Það er vissulega rétt að Ísraelsmenn hafa beitt þá kúgun og margs konar ofríki til þess að hafa af þeim frelsi, frelsi til viðskipta, frelsi til þess að koma afurðum í verð, frelsi til bættra lífskjara. Ég sé ekki, virðulegi forseti, að við gerum nokkuð til að bæta þetta ástand nema að við göngum til samskipta við þetta fólk, eigum við það viðskipti, bjóðum því vonina um nýja markaði og hærra verð fyrir vörur sínar. Þess vegna, virðulegi forseti, mæli ég með staðfestingu þessa samnings.