Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 20:39:27 (8260)

     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum.
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Þorkel Helgason, aðstoðarmann heilbrigðis- og tryggingaráðherra, Margréti Tómasdóttur, framkvæmdastjóra Atvinnuleysistryggingasjóðs, Dögg Pálsdóttur, skrifstofustjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Pétur Sigurðsson, formann Atvinnuleysistryggingasjóðs, frá fjármálaráðuneyti Halldór Árnason skrifstofustjóra og Ólaf Hjálmarsson deildarstjóra, frá Landssambandi aldraðra Ólaf Jónsson formann og Guðríði Ólafsdóttur framkvæmdastjóra og frá Sjálfsbjörgu Jóhann Pétur Sveinsson lögfræðing, Tryggva Friðjónsson framkvæmdastjóra, Arnór Pétursson fulltrúa og Sigurrós M. Sigurjónsdóttur fulltrúa. Umsagnir bárust frá ASÍ, Bandalagi íslenskra sérskólanema, BSRB, BHMR, Búnaðarfélagi Íslands, fjármálaráðuneytinu, Hinu íslenska kennarafélagi, Kennarasambandi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Landssamtökum atvinnulausra, Læknafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjálfsbjörgu, Stéttarsambandi bænda, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, VSÍ og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Nefndin leggur til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu sem snúa að fjórum atriðum. Í fyrsta lagi verði 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, felld brott en meginhluti hennar verði felldur inn í 1. gr. laganna. Í öðru lagi verði uppsetningu og orðalagi laganna breytt þannig að þau geti heyrt undir hvern þann ráðherra sem ákveðið er í reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969. Er það gert vegna þess að fyrirhugað er að flytja atvinnuleysistryggingar til félagsmálaráðuneytis. Atvinnuleysistryggingar þykja eiga betur heima í því ráðuneyti sem fer með málefni er varða atvinnuleysi. Stefnt er að því að þessi breyting verði um næstu áramót. Í þriðja lagi er lögð til breyting á 11. gr. frumvarpsins sem varðar frádrátt elli- og örorkulífeyris, sem og örorkustyrks, frá atvinnuleysisbótum. Í fjórða lagi er lögð til breyting á gildistökuákvæði. Verður hér á eftir gerð grein fyrir hverri breytingartillögu um sig.
    1. Lagðar eru til tvær breytingar á 1. gr. Annars vegar komi orðið ,,ráðherra`` í stað ,,heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra``, sbr. skýringar hér að framan. Hins vegar bætist við ný málsgrein sem áður var efnislega 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
    2. Lagt er til að 2. gr. verði breytt þannig að 3. gr. laganna falli brott ásamt 2. og 4. gr.
    3. Lögð er til breyting á 4. gr. í samræmi við það sem áður hefur verið sagt um flutning atvinnuleysistrygginga til félagsmálaráðherra. Skal Tryggingastofnun ríkisins falið að gegna ákveðnum verkefnum nema ráðherra ákveði annað. Þá er lagt til að við 4. gr. bætist tvær málsgreinar sem eru samhljóða 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna fyrir utan að síðari málslið 2. mgr. 7. gr. er sleppt en þar er kveðið á um að ráðherra skeri úr ágreiningi ef ekki næst samkomulag um þóknun til Tryggingastofnunar. Er lagt til að ákvæðinu verði sleppt vegna þess að samkvæmt breytingartillögum nefndarinnar gæti niðurstaðan orðið sú að um tvo ráðherra yrði að ræða. --- Annars vegar félagsmálaráðherra sem færi með framkvæmd laganna og hins vegar heilbrigðis- og tryggingaráðherra sem færi með málefni Tryggingastofnunar.
    4. Þá er lögð til breyting á 6. gr. en efni 3.-5. tölul. á heima í einum tölulið.
    5. Lögð er til breyting á 10. gr. í samræmi við væntanlegan flutning atvinnuleysistrygginga milli ráðuneyta.
    6. Lagt er til að 11. gr. verði breytt þannig að elli- og örorkulífeyrir, svo og örorkustyrkur, skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Það sem komi til frádráttar verði því einungis grunnlífeyrir og ígildi hans en ekki aðrar bætur lífeyristrygginga.

    7. Lögð er til leiðrétting á 12. gr.
    8. Lögð er til breyting á 13. gr. og vísast til skýringa í 5. tölul. hér að framan.
    9. Loks er lögð til breyting á gildistöku laganna í 17. gr. en lagt er til að þau öðlist gildi 1. júlí nk. Ákvæði um sjálfstætt starfandi einstaklinga (2. mgr. 1. gr.) taki þó ekki gildi fyrr en 1. okt. nk. en vankantar munu vera á að það taki gildi fyrr sökum tæknilegra ástæðna.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir þetta rita Sigbjörn Gunnarsson, Sólveig Pétursdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir og Björn Bjarnason.
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. heilbrrh. við 1. umr. þessa máls er um verulega réttarbót að ræða fyrir þá sem við atvinnuleysi eiga að etja verði frv. þetta að lögum.
    Í fyrsta lagi verður réttur til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði ekki lengur bundinn við aðild að stéttarfélagi.
    Í öðru lagi hljóta þeir sjálfstætt starfandi, sem skilað hafa tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu 12 mánuði áður en þeir hættu starfsemi sinni, rétt til bóta með sama hætti og launamenn.
    Í þriðja lagi munu atvinnulausir geta komist undan 16 vikna biðtíma milli bótatímabila með því að sækja og ljúka námskeiðum í a.m.k. 8 vikur, sem sérstaklega eru ætluð atvinnulausum,
    Við meðferð málsins í heilbr.- og trn. urðu miklar og gagnlegar umræður og hef ég þegar að nokkru lýst þeim brtt. sem meiri hluti nefndarinnar leggur til. Talsvert var rætt um hvort setja bæri í lögin þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar svo sjálfstætt starfandi einstaklingar teljist atvinnulausir. Niðurstaða meiri hlutans var sú að slíkt þætti ekki skynsamlegt þar sem um algjört nýmæli væri að ræða og umfangið nokkuð óljóst og því heppilegra að setja reglugerð um þessi efni.
    Nokkrar umræður urðu einnig um bætur til námsmanna að námi loknu. Í gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar eru námsmönnum tryggð nokkur réttindi hafi þeir starfað í a.m.k. þrjá mánuði og stundað nám í ekki skemmri tíma en sex mánuði síðustu 12 mánuði. Þannig nýtur námsmaður samkvæmt gildandi lögum liðlegra hálfra bóta úr atvinnuleysistryggingum.
    Þá komu málefni fanga einnig til umræðu. Það var upplýst af framkvæmdastjóra sjóðsins að fangar geti geymt sér áunninn bótarétt, allt að tveimur árum án skerðingar. Hafa ber í huga í þessu sambandi að það mun vera venja að séu menn dæmdir til fjögurra ára frelsissviptingar sé afplánun að jafnaði tvö ár.
    Í nefndinni var rætt um hvort aðgreina bæri sjálfstætt starfandi og fleiri frá öðrum rétthöfum í reikningshaldi sjóðsins. Meiri hluti nefndarinnar telur óþarft að kveða á um slík bókhaldsatriði í lögum. Um sjálfsagt framkvæmdaratriði sé að ræða í rekstri sjóðsins.
    Virðulegi forseti. Mestar umræður urðu um 11. gr. frv. Þess ber að geta að frv. var upphaflega samið með hliðsjón af frv. til laga um almannatryggingar sem búist var við að yrði að lögum á þessu þingi. Það er sýnt að svo verður ekki. Meiri hluti nefndarinnar leggur til verulegar efnisbreytingar á greininni þannig að ekki fari á milli mála að aðrar bætur en grunnlífeyrir og ígildi hans skerði ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Ég tel alvarlegt glapræði að fella 11. gr. í frv. burtu þar sem í 51. gr. gildandi laga um almannatrygginga eru ákvæði sem hér greinir, með leyfi forseta:
    ,,Að öðru leyti getur enginn samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum þessum eða lögum um atvinnuleysistryggingar.``
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt til að tryggja hag öryrkja og ellilífeyrisþega að gera þær breytingar sem lagt er til. Verði 11. gr. felld út úr frv. og farið að gildandi lögum mundi einhleypur öryrki einungis njóta um 48 þús. kr. í bætur. Með þeirri breytingu sem meiri hlutinn leggur til mun sami öryrki hins vegar njóta bóta frá almannatryggingum og atvinnuleysistryggingum að upphæð um 64--65 þús. kr. Áþekkt mundi gilda um ellilífeyrisþega.
    Það má því ljóst vera að sú niðurstaða sem meiri hluti heilbr.- og trn. leggur til tryggir hag elli- og örorkulífeyrisþega hvað bætur varðar frá almannatryggingum og atvinnuleysistryggingum.
    Ég hef e.t.v. farið nokkuð fleiri orðum um þessi mál en æskilegt væri. Mér fannst hins vegar nauðsyn bera til að fara nokkuð vandlega yfir málið við 2. umr. til að taka af tvímæli. Verði frv. þetta að lögum nást fram gífurlegar rættarbætur fyrir atvinnulausa, réttarbætur sem margir, því miður allt of margir, bíða eftir. Ég tel brýnt að lögfesta þau ákvæði um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem hér er mælt fyrir hið fyrsta. Eftir því er beðið. Ég legg til að frv. verði vísað til 3. umr.