Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 21:19:20 (8262)


     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Í ræðu minni hér á undan fór ég nokkuð skilmerkilega yfir þær ástæður sem liggja til grundvallar að þeim tillögum meiri hlutans að gera þær breytingar á 11. gr. sem þar getur. Ég sagði þá og endurtek til þess að það fari ekkert á milli mála, að ég tel alvarlegt glapræði að fella 11. gr. frv. út þar sem í 51. gr. gildandi laga um almannatryggingar eru ákvæði sem gera það að verkum að ef þeim lögum er fylgt þá geti enginn samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt almannatryggingalögum eða lögum um atvinnuleysistryggingar. Verði ákvæði 11. gr. frv. fellt út eins og minni hlutinn leggur til þá væri mögulegt að beita þessu ákvæði. Hins vegar með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til þá yrði það einungis grunnlífeyririnn sem yrði til skerðingar. Þannig mundi einhleypur öryrki njóta, ef bætur yrðu skertar samkvæmt 11. gr. eins og hún lítur út í frv., bóta að upphæð u.þ.b. 48 þús. kr. en með þeim breytingum sem lagðar eru til af meiri hlutanum mundu bæturnar nema 64--65 þús. kr.
    Þá hafa einnig í umræðum í nefndinni komið til tals og verið bent á og leitað svara við þeirri spurningu hvers vegna öryrkjar eða ellilífeyrisþegar eigi að njóta aukinna bóta umfram þá sem ungir eru og ófatlaðir. Ég læt mönnum eftir að meta það hver fyrir sig en meiri hlutinn leggur þarna til afar ákveðnar breytingar varðandi 11. gr. til þess að hagur öryrkja- og ellilífeyrisþega sé tryggður.