Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 22:13:25 (8273)

     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vissulega felast ákveðnar réttarbætur í þessu frv., það höfum við talsmenn minni hluta sagt hér. Ef hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson kallar þetta gífurlegar réttarbætur, hvað þá ef frv. fæli í sér þær réttarbætur sem okkur alþýðubandalagsmönnum finnst eðlilegar og höfum lagt til í okkar frv., þ.e. að allir landsmenn sem ekki hafa atvinnu eigi sama rétt? Það eru gífurlegar réttarbætur en það eru líka þær réttarbætur sem allur almenningur í landinu á heimtingu á. Auðvitað hefur þetta frv. í för með sér mikinn kostnað fyrir ríkissjóð. En ríkissjóður kemur líka til með að bera mjög mikinn kostnað vegna þess að fjöldi atvinnulausra eykst dag frá degi vegna aðgerðarleysis stjórnvalda. Ég held að hæstv. ríkisstjórn og hv. þm. þessarar ríkisstjórnar, sem styðja hana, væri nær að eyða tíma sínum í það að finna leiðir til úrbóta í atvinnumálum heldur en að vera að skerða rétt öryrkja og eldri borgara og spara þar einhverjar 20--30 milljónir.