Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 22:15:00 (8274)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. stjórnarandstöðunnar í heilbr.- og trn. hafa gert ágæta grein fyrir þeim brtt. sem minni hlutinn flytur og ég tel að þær séu allar mjög til bóta. Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs var ekki síst sú að ég talaði hérna fyrir nokkrum vikum fyrir frv. til laga um réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu og felur í sér heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar, vinnumiðlun og vinnumálaskrifstofu félmrn. Það sem ég hefði aðeins viljað leiða hugann að í þessu innleggi, virðulegur forseti, eru kannski fjögur atriði.
    Í fyrsta lagi ætla ég að hugleiða aðeins fyrir þá sem hér eru og mig og þingtíðindin það sem ég kalla vandann við að vera með tvö kerfi en menn eru hér að gera tillögu um tvö kerfi.
    Í öðru lagi ætla ég að fara aðeins yfir hvaða atriði úr frv. okkar alþýðubandalagsmanna eru komin inn í þessar breytingar meiri hlutans og/eða minni hlutans.
    Í þriðja lagi ætla ég að fara yfir gallana á upphaflegu frv. Sighvats Björgvinssonar en það er greinilega meingallað og illa unnið plagg, alveg ótrúlega illa unnið. Ég ætla ekki að nota orðin hrákasmíð eins og hæstv. ráðherra hefur notað um skjöl sem lögð hafa verið fram í þinginu en það er alveg með ólíkindum að ráðherra skuli leggja fram jafnilla unnið plagg og hæstv. heilbrrh. gerði. Ef frv. hefði verið samþykkt eins og heilbrrh. lagði það fram þá hefðu menn gert lögin um atvinnuleysistryggingar óframkvæmanleg og þar með afnumið í rauninni atvinnuleysisbótarétt í landinu. Svo illa var þetta frv. unnið að það er hreint alveg ótrúlegt.
    Hvað varðar hins vegar þann vanda sem uppi er núna og sem stafar af því að atvinnuleysi er orðið víðtækt vandamál þá stöndum við frammi fyrir því að við höfum verið með atvinnuleysistryggingakerfi sem miðast við það fólk sem hefur haft launavinnu og allt kerfið er byggt upp á því. Það stafar af því að

verkalýðshreyfingin samdi um þetta á þenslutímum og þetta var líka endurskoðað á þenslutímum árið 1982. Þegar atvinnuleysið vex þá koma til sögunnar nýir aðilar, atvinnulausir, fólk sem aldrei hefur haft launavinnu. Þar er ég auðvitað að tala um einyrkja af ýmsu tagi t.d. menn sem hafa stundað atvinnurekstur, ég er að tala um námsmenn og ég er að tala um fleiri aðila. Ég sé að hv. heilbrn. hefur fjallað rækilega um þessi mál og í raun og veru lent í bersýnilegum vanda við að finna formúleringar, hvaða hópar eru það sem þetta á að taka til? Hæstv. heilbrrh. gerði upphaflega tillögu í þeim efnum, meiri hlutinn gerir svo tillögu um endurbætur á þeirri tillögu og minni hlutinn gerir tillögu um að þarna séu til viðbótar teknir inn námsmenn og fyrrverandi fangar. Í raun og veru er það þannig að menn eru hér í þessum frv. að taka inn hópa hvern á fætur öðrum, það eru einyrkjar, námsmenn og fyrrverandi fangar. Menn eru þarna að fást við hlut sem er að nokkru leyti alveg óleysanlegur. Þess vegna held ég að það hefði verið skynsamlegra að segja ósköp einfaldlega: Sá sem er atvinnulaus og hefur verið það í fjórar vikur en er að leita sér að vinnu á rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði þó hann uppfylli ekki vinnuskilyrði laganna að öðru leyti og sé ekki í stéttarfélagi. Ég held að það hefði verið miklu betri nálgun þessa máls heldur en sú tilraun sem hér er gerð til að taka inn eða út einstaka hópa.
    Samkvæmt frv., ef það verður samþykkt með þeim brtt. sem meiri hlutinn leggur til og ég tala nú ekki um ef minnihlutatillögurnar yrðu samþykktar líka, þá koma inn í þetta kerfi tveir hópar. Það eru annars vegar launamenn sem eru nákvæmlega taldir upp, hvernig þeir eiga að fá réttindi í lögunum eins og þau eru, og svo hins vegar hinir. Þá komum við að þeim vanda, segjum að launamaður hafi verið í hálfu starfi, segjum að hann hafi verið það í tíu ár, þá fær hann atvinnuleysisbætur samkvæmt lögunum, þ.e. hálfar atvinnuleysisbætur, helminginn af fullum bótum eða svo. Sá sem hefur aftur á móti verið með atvinnurekstur, segjum í eitt ár eða tvö eða þrjú og missir þann atvinnurekstur, hann á rétt á bótum strax samkvæmt þessu frv., hann á rétt á fullum bótum strax. Ég tel það út af fyrir sig eðlilegt. En menn sjá að það mun koma upp krafa hjá verkalýðshreyfingunni um að breyta þessu þannig að t.d. launamaður sem hefur verið í hálfu starfi, segjum í tíu ár, hann geti eftir tiltekinn tíma komist á fullar bætur eins og atvinnurekandinn kemst strax á samkvæmt þeim tillögum sem við erum hér að gera. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt ákvæði sem kemur fram í tillögum minni hlutans að þessi lög verði endurskoðuð fljótt og það verði lögbundið ákvæði. Ég hefði talið skynsamlegt af meiri hlutanum að vera með svona tillögu í sínum plöggum vegna þess að í raun og veru þá er greinilegt að þessi tvö kerfi, þetta kerfi sem við höfum og hið nýja, þau ganga ekki hlið við hlið mjög lengi vegna þess að þeir sem fá bótarétt eftir gamla kerfinu munu áður en langur tími líður segja: Þetta gengur ekki, við verðum að vera alveg sambærilegir við hina. Ég tel það auðvitað fullkomlega rangt sem hv. frsm. nefndarinnar sagði hér áðan að það væri verið að tryggja rétt öryrkja með þessari umdeildu grein, ég held að það sé 11. gr. í frv. Það er auðvitað ekkert verið að tryggja rétt öryrkja í sjálfu sér. Hins vegar er það rétt sem þingmaðurinn hefði kannski viljað sagt hafa að það sem um er að ræða er að ríkisstjórnin vill að menn séu í raun og veru jafnsettir bæði fatlaðir og ófatlaðir eftir því sem þetta er útskýrt hér af meiri hlutanum í nál. Það er alger forsenda þess að svona kerfi geti gengið upp að það séu helst sömu réttindi í báðum deildum sjóðsins ef svo mætti segja. Og af hverju segi ég í báðum deildum sjóðsins? Af því að menn eru að tala um að þetta verði að nokkru leyti aðgreind kerfi og ég er alveg sammála því að það verður að vera þannig. Í Danmörku reyndu menn um árabil að reka þetta í einum potti en það gekk ekki. Þar er núna um það að ræða að þeir aðilar sem eru atvinnulausir eiga í raun aðgang að tveimur kerfum eftir því hvort um er að ræða launamenn eða rekstraraðila, þ.e. þá sem hafa verið með verslun, fyrirtæki, dekkjaverkstæði eða hvað það nú er. Þetta er alveg í tveimur hólfum og það held ég að sé skynsamleg hugsun.
    Niðurstaða mín er sú að það sé mjög mikill vandi að vera með tvö kerfi í gangi. Það verði erfitt fyrir heilbrrn. eða það ráðuneyti sem fer með málin og það verði einnig erfitt fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð að reka það og þess vegna muni menn mjög fljótt komast að því að endurskoða verður þetta allt alveg frá grunni.
    Tökum annað dæmi t.d. með úthlutunarnefndirnar. Hverjar eru þær? Þær eru á vegum verkalýðsfélaganna eins og þau eru. En samkvæmt hugmyndunum eins og þær liggja núna fyrir þá eiga allir að leita til þessara sömu nefnda með vissum hætti og ég er ekki viss um að það sé alveg heppilegt. Þar með er ég ekki að segja að það eigi að koma upp tvöföldu kerfi úthlutunarnefnda. Ég held að þær séu yfir höfuð allt of margar. Ég held að það þurfi að einfalda allt þetta úthlutunar-, stimpla- og reglukerfi eins og það leggur sig því ég held að það sé síst til þess fallið að efla sjálfstraust og andlegt þrek þeirra sem í þokkabót eru atvinnulausir.
    Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að í þeim brtt. sem nú liggja fyrir eru viðurkenndar mjög margar af þeim brtt. sem þingmenn Alþb. fluttu. Þar er í fyrsta lagi fallist á að það eigi að taka inn fleiri aðila, þar á meðal einyrkja og slíka aðila. Í öðru lagi er fallist á það í raun og veru að það eigi að færa þetta til félmrn. Það er mjög mikilvægt atriði finnst mér að færa þetta til félmrn. sem er með vinnumiðlunina og vinnumálaskrifstofu félmrn. Enn fremur er fallist á það í þeim tillögum sem fram koma frá minni hlutanum að námsmenn séu teknir þarna inn og þar er líka talað um að breyta þeim reglum sem gilda um atvinnulausa sem verða veikir. Eins og kunnugt er þá missa þeir nú atvinnuleysisbætur ef þeir leyfa sér að verða veikir á meðan þeir eru atvinnulausir. Ég tel því að í frv. og brtt. meiri hlutans og minni hlutans felist að mörgu leyti ágæt afgreiðsla á þeim brtt. sem við alþýðubandalagsmenn höfum verið með þó

þar vanti auðvitað talsvert margt. Það sem kom mér kannski ánægjulega á óvart í brtt. meiri hlutans er að þar er lagt til að flytja þennan málaflokk til félmrn. Það held ég að sé skynsamlegt en kom mér á óvart og ég er alls ekki viss um að það hefði verið gert ef hæstv. heilbrrh. hefði ekki verið í Genf. Frá þeim bæjardyrum séð er ég afar ánægður með að hæstv. heilbrrh. skuli vera úti í Genf. Þó ekki væri nema til þess að hægt sé að hafa um þetta mál kannski vitlegar umræður fyrir froðufellandi ræðum hans hér úr þessum stól. Bið ég hv. talsmann nefndarinnar að bera honum þessar hlýju kveðjur mínar.
    Varðandi frv. hæstv. ráðherra þá verður að segja alveg eins og er að það er alveg bersýnilega fullt af vitleysum. Það eru svoleiðis ótrúlegar vitleysur í frv. hæstv. heilbr.- og trmrh. Þar kemur t.d. fram að frv. er óframkvæmanlegt nema menn felli út úr lögunum 3. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar. Menn höfðu ekki tekið eftir því í ráðuneytinu og það hafði hæstv. ráðherra heldur ekki gert þannig að málið var óframkvæmanlegt. Og hv. meiri hluti hvað gerir hann? Leggur meiri hlutinn til að þetta frv. heilbrrh. verði samþykkt? Ónei. Hvað flytur hann margar brtt.? Sex töluliði og þar undir eru alls tíu brtt. sem hv. meiri hluti heilbrn. flytur við þetta frv. heilbrrh. Svo illa er það unnið að meiri hlutinn neyðist til þess --- nei, hér er á baksíðunni líka, virðulegur forseti. Ég biðst innilega afsökunar á þessu þær eru greinilega fjórtán. Meiri hlutinn verður að flytja fjórtán brtt. til að leiðrétta vitleysurnar frá heilbrrh. Þetta er rosaleg frammistaða. Hann er samt búinn að vera með nefnd í þessu máli í eitt og hálft ár. Búinn að vera með nefnd í því að lesa þessi atvinnuleysistryggingasjóðslög í eitt og hálft ár og þegar frv. kemur þá er það svo vitlaust að meiri hluti nefndarinnar, Sjálfstfl. og Alþfl., verður að flytja fjórtán brtt. til að leiðrétta þetta. Ég vona satt að segja að hv. meiri hluti hafi fundið allar vitleysurnar þannig að ekki séu enn þá einhverjar fleiri í frv. eins og það lítur út.
    Ég hef út af fyrir sig meiri trú á meiri hlutanum samanlögðum heldur en ráðherranum einum, ég viðurkenni það. Það getur því vel verið að þetta sé miklu betra eins og það kemur frá meiri hlutanum heldur en eins og það kom frá ráðherra. Það kæmi mér ekki á óvart satt að segja.
    Út af fyrir sig má segja að það sé gott verk hjá meiri hlutanum að hafa staðið í því að vinna leiðréttingar á þessari vitleysu eins og kom frá hæstv. heilbrrh., alveg óbrúklegt frv., það var svo illa samið, með ólíkindum alveg.
    Ég ætla t.d. í þessu sambandi, virðulegur forseti, að víkja hér aðeins að einni grein frv. og það er síðasta málsgr. 10. gr. sem hv. 10. þm. Reykv. ræddi hér einnig fyrr í kvöld og snýr að 16 vikna biðtímanum. Við leggjum til að hann verði alveg felldur út. Það gerir heilbrrh. ekki, það er ekki tillaga um að fella biðtímann út. Menn skulu átta sig á því. Nema með skilyrði. Hvaða skilyrði? Því skilyrði að menn fari á námskeið. Hvaða námskeið? Enginn veit hvaða námskeið. Það stendur hér: Gefinn skal kostur á að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið. Hver á að gera það? Menntmrn., Atvinnuleysistryggingasjóður, báðir, starfsmenntunarsjóður? Hver? Það stendur ekkert um það. Ég tók eftir að talsmaður nefndarinnar sagði: Ef það háttar þannig til á einhverjum litlum stað úti á landi að það sé ekki hægt að bjóða námskeið þá eru menn undanþegnir þessari námskeiðakvöð og sleppa þá við 16 vikurnar. En það stendur ekki í frv. Það er skilyrði í þessu frv. eins og það stendur hér að 16 vikna bótalausi tíminn er enn þá inni nema menn sæki námskeið. Ég spyr: Gera menn ráð fyrir því að atvinnulaus maður á Raufarhöfn keyri inn á Akureyri til þess að sækja námskeið? Auðvitað ekki. Gera menn ráð fyrir því að atvinnulaus maður á Breiðdalsvík keyri upp á Hérað eða til Akureyrar eða fljúgi til Reykjavíkur til að sækja námskeið? Auðvitað ekki. Það er ekki það. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að þessari grein verði breytt þannig að þar verði sagt fullum fetum: Þetta 16 vikna bótalausa tímabil er úti, það er strikað út. En það verður gefinn kostur á námskeiðum burt séð frá þessum tíma eða ekki og það er algjörlega fráleitt að hengja þetta svona saman. Þetta eru fullkomin handarbakavinnubrögð af hæstv. heilbrrh. í sambandi við málið að leggja það svona fram. Ég harma að meiri hlutinn sem hefur fundið fimmtán vitleysur í frv. ráðherrans skuli ekki hafa tekið eftir þessu og leiðrétt það líka. Það er fínt hjá meiri hlutanum að finna fimmtán vitleysur en þær eru örugglega fleiri, því miður.
    Eitt af því sem meiri hlutinn er t.d. að gera tillögur um er að þeir sem hafa verið í átaksverkefnum sleppi við þennan bótalausa tíma --- í átaksverkefnum. Það er fínt. Nú er hópur manna víðs vegar um land í átaksverkefnum og það er allt í einu búið að finna upp þá reglu að þegar menn séu búnir í þessum átaksverkefnum þá detti þeir inn á dauða bótalausa tímabilið. Núna er það t.d. með bæjarstjórn Akureyrar, svo ég nefni dæmi, að hún er skelfingu lostin yfir því að þegar átaksverkefninu er lokið þá verði þetta fólk algjörlega bótalaust, það detti inn á bótalausa tímabilið og menn eru að reyna að túlka gildandi lög með þessum hætti.
    Ég ræddi í dag við forseta bæjarstjórnar Akureyrar sem sagði mér frá þessu og satt að segja kom þetta mér mjög á óvart. Ég sé ekki að það sé nokkur stafur fyrir þessu í gildandi lögum en ég sé að menn róa fyrir þessa vík með því að nefna átaksverkefnin í síðustu mgr. 10. gr.
    Ég vil þrátt fyrir allt skora á hv. meiri hluta að reyna að velta því alvarlega fyrir sér að gera a.m.k. tvær breytingar í viðbót á frv. Í fyrsta lagi að lögskylda endurskoðun af því að tvöfalt kerfi gengur ekki lengi. Í öðru lagi að fella algjörlega niður þetta bótalausa tímabil og skilyrða það ekki með námskeiðum eins og hér er gert.
    Auðvitað gæti ég í sjálfu sér nefnt fleiri hugmyndir sem ég teldi að ætti að breyta úr tillögum meiri hlutans. Það er eins og t.d. í 16. gr. þar sem kemur fram ákveðin refsigleði af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim sem hafa misst atvinnu og gætu við tiltekin skilyrði misst bótarétt. Það er hlutur sem ég hefði talið að þyrfti að skoða mikið betur heldur en hér er gert.
    Ég vil þá að síðustu, virðulegi forseti, aðeins fara nokkrum orðum um að auðvitað hefðu þurft að koma til mörg fleiri atriði upp úr frv. okkar alþýðubandalagsmanna eða úr öðrum áttum ef menn vilja. Auðvitað er rétt sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði að það hefði þurft að taka alveg sérstalega inn húsnæðismálin því greiðsluvandræðin hjá þessu fólki eru alveg ferleg og það er augljóst mál að húsnæði þessa fólks er í stórkostlegri hættu. Það er alveg rétt sem tveir hv. þm. Alþfl. hafa vakið athygli á hér að auðvitað væri nauðsynlegt að þingið tæki á þessu máli. Það hafa þeir, úr því sem formaður Alþfl. mundi kalla galna hluta Alþfl., Össur Skarphéðinsson og Gunnlaugur Stefánsson hv. þm., sem eru reyndar einir í þeim hluta finnst mér stundum. Þeir hafa flutt sérstaka tillögu um greiðslu  . . .  ( Gripið fram í: Og Sigbjörn.) --- og Sigbjörn, þeir eru orðnir þrír. Össur og Sigbjörn. ( SigG: Er ég í galna?) Ég er að nota orðalag formanns Alþfl. um skæruliðana og terroristana en ég bæti prestinum við, með leyfi forseta, ég bæti honum við, ég vil heldur hafa hann í góðra manna hópi satt best að segja.
    Þá vill svo vel til að þessi tillaga hv. þm. Sigbjörns Gunnarssonar og Össurar Skarphéðinssonar kemur til atkvæða. Það er alveg ástæðulaust að gráta það, hún kemur til atkvæða. Hún kemur til atkvæða á þinginu klukkan tíu í fyrramálið vegna þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur verið svo hugulsamur að flytja tillögu um nýtt ákvæði til bráðabirgða við húsnæðisfrv. sem er á þessa leið: Á árinu 1993 skal starfa þriggja manna nefnd sem félmrh. skipar er undirbúi samningu laga um greiðsluaðlögun til aðstoðar fólki í verulegum greiðsluerfiðleikum. Nefndin skal kanna svipaða löggjöf á Norðurlöndum og afla upplýsinga um reynsluna af henni.
    Þingheimi gefst kostur á því, vegna þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur flutt tillöguna, að styðja þessa tillögu í fyrramálið. Ég vona að hv. flm. muni þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir það að gefa þingheimi kost á því að styðja þessa tillögu og ég skora á hæstv. félmrh. og aðra þingmenn Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokks Íslands --- að beita sér fyrir því að þessi tillaga verði samþykt. Auðvitað þarf að taka á þessum málum.
    Hér voru menn í dag að tala um vanda sjávarútvegsins, menn voru að tala um vandamál atvinnurekstrarins og fyrirtækjanna í landinu, það er ekki vanþörf á því. Það er ekki vanþörf á því að krefjast þar aðgerða eins og stjórnarandstaðan gerði í dag. En ég tel að í raun og veru þá sé annað stórmál sem ætti að afgreiða ef þetta væri eitthvert alvöruþing sem fyndi til í stormum sinna tíða. Það ætti að afgreiða alvörutillögur um breytingar á reglum um greiðslur á tilteknum lánum til þess að leysa úr greiðsluvanda fólks. Þess vegna tel ég að það sé mjög mikilvægt og það er innlegg og hluti af þessu atvinnuleysistryggingamáli að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur komið þessari tillögu um greiðsluvandræði og greiðsluerfiðleikana inn í frv. um Húsnæðisstofnun.
    Að öðru leyti ætlaði ég ekki að bæta miklu við þetta þó auðvitað væri full ástæða til þess miðað við efni málsins. Það væri auðvitað full ástæða til þess að fjalla talsvert um atvinnuleysið, það hef ég áður gert í mörgum þingræðum. Ég tel að Alþb. hafi haft ákveðna forustu í þessu efni á þessu þingi. Þingið samþykkti í dag tillögu frá Alþb. um rannsóknir á afleiðingum atvinnuleysis. Sú tillaga var samþykkt hér með samhljóða atkvæðum og ber að þakka fyrir þann stuðning sem hún fékk þannig að þrátt fyrir allt þá tel ég að allir hv. þm., hvar í flokki sem þeir eru, geri sér fulla grein fyrir því að hér sé um að ræða alvarlegasta þjóðfélagsvandamál á Íslandi í dag. Menn greinir hins vegar á um hvaða leiðir er skynsamlegast að fara til þess að taka á vandamálum þessa fólks og menn greinir líka á um hversu langt á að ganga til að sækja peninga í þessum efnum, því það þarf að sækja fjármuni ef vel á að vera, hæstv. forseti.