Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:10:54 (8283)

     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það hefði nú farið vel á því að hæstv. forseti hefði farið með hið forna máltæki alveg til enda: ,,Dag skal að kvöldi lofa og mey að morgni.`` Því að þannig háttaði hér í gærmorgun að hæstv. forseti sagði það alveg skýrum orðum að það yrði skýrt frá því á næsta fundi hvenær 504. mál yrði tekið til umræðu hér í þinginu. Ég er þess vegna ekkert annað að gera nú en að ganga eftir loforði sem hæstv. forseti gaf mér í gærmorgun, ekki nokkrum sköpuðum hlut öðrum. Það er náttúrlega alveg grundvallaratriði þegar talað er jafnskýrlega úr forsetastóli og virðulegur forseti gerði í gærmorgun um það að hann mundi tilkynna það á næsta fundi hvenær málið yrði tekið til umræðu og ég hef látið það óátalið þar til núna í upphafi starfa á síðasta degi þessa þinghalds, að þá felli ég mig náttúrlega ekki við annað, virðulegur forseti, en að staðið verði við það loforð sem mér var gefið úr forsetastóli Alþingis í gærmorgun.