Íbúðaverð á landsbyggðinni

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:23:28 (8291)

     Kristinn H. Gunnarsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Ég frestaði ræðu minni hér fyrr í vikunni þar sem ég óskaði eftir að hæstv. félmrh. yrði viðstödd þar sem ég þarf að leggja fyrir hana fyrirspurn. Ég sé nú ekki ráðherrann í salnum, forseti. ( Forseti: Ráðherra hefur gert viðvart og kemur væntanlega í salinn innan tíðar.)
    Tillgr. er í tveimur setningum. Sú fyrri er:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er leiti leiða til þess að efla almennan íbúðamarkað á landsbyggðinni.`` Undir þessa setningu get ég heils hugar tekið. Það er öllum ljóst sem fylgst hafa með þessum málum að verð á almennu íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni hefur víða mjög farið lækkandi og sums staðar nánast hrunið allt frá því að gripið var til harkalegra efnahagsaðgerða í maímánuði 1983 en það er sá vendipunktur sem hefur reynst hvað örlagaríkastur í mörgum byggðarlögum hvað varðar þróun á íbúðaverði á almennum markaði.
    Síðari setningin er meira umhugsunarefni en þar segir, með leyfi forseta: ,,Nefndinni verði sérstaklega gert að skoða hver áhrif lög og reglur um félagslegt íbúðahúsnæði hafi á stöðu íbúðamarkaðarins.``
    Eins og sjá má af nál. hef ég skrifað undir að þetta verði samþykkt, kannski með öðru hugarfari en margur annar sem skrifar undir. Ég er sannfærður um það að uppbygging á félagslegu íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni hafi ekki verið þrándur í götu verðlags á íbúðum á almennum markaði. Hins vegar kemur eftirfarandi það fram í greinargerð sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:
    ,,Á sama tíma og auknar þrengingar hafa orðið á almenna íbúðamarkaðinum á landsbyggðinni hefur hlutur félagslegs íbúðarhúnæðis aukist. Það gefur auga leið að sú þróun hlýtur að hafa sitt að segja um stöðu hins almenna íbúðamarkaðar á landsbyggðinni. Víða um land háttar nefnilega svo til að íbúum fjölgar ekki, jafnvel fækkar, á sama tíma og íbúðum innan hins félagslega íbúðakerfis fjölgar. Því er augljóst að þar þrengir mjög að hinum almenna íbúðamarkaði``.
    Í þessum texta má glögglega sjá þann skilning að það sé uppbyggingu síðustu ára á félagslega íbúðarhúsnæðinu að kenna, að einhverju leyti a.m.k., að verð á almennum íbúðamarkaði hefur lækkað. Ég vil

minna á það að hæstv. félmrh. hefur stært sig mjög af því að á undanförnum árum í tíð hennar sem ráðherra hafi uppbygging íbúðarhúsnæðis í félagslega kerfinu stóraukist, m.a. á landsbyggðinni. Og ég vil því spyrja hæstv. félmrh. hvort hann sé sammála því að átak það í uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis á síðustu árum, sem ráðherrann talar um, hafi orðið til þess að skaða stórlega íbúðareigendur á almenna markaðnum á landsbyggðinni. Ég tel nauðsynlegt að fá svör við þessu til þess að fyrir liggi afstaða félmrh. til þessara fullyrðinga í greinargerð með þáltill. Ég er ósammála þessu en ég tel rétt að þetta verði kannað þannig að þeir sem halda öðru fram komist að sömu niðurstöðu og ég. Þess vegna skrifa ég undir síðari setninguna í þáltill. í þeirri vissu. En ég tel nauðsynlegt að hæstv. félmrh. svari því hvort hún er sammála þingmanni úr stjórnarliðinu sem er með þessari tillgr. að vega að heiðri félmrh. liggur mér við að segja sem hefur lagt svo mikið upp úr því sem afreki af sinni hálfu að hafa komið því í framkvæmd að uppbygging á félagslegu íbúðarhúsnæði á undanförnum árum hafi farið stórlega vaxandi.